135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[17:37]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það er mikill fengur að því að fá að taka þátt í og hlýða á umræðu um þessi þrjú skólastig, öll í heild.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni er samræming á milli ýmissa atriða, milli grunnskólans annars vegar og framhaldsskólans hins vegar sem fylgja þarf í kjölfar þess að sjálfræðisaldurinn var hækkaður úr 16 árum í 18. Þess sér kannski ekki nægilega stað í þessu frumvarpi að mínu mati, þ.e. í frumvarpi um framhaldsskólann sem ég mun sérstaklega gera að umtalsefni.

Hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum til 18 ára aldurs kallaði að töluverðar breytingar á viðhorfum til hlutverks foreldra annars vegar og til hlutverks skólans hins vegar. Börn á aldrinum 16–18 ára eru kannski ekki öll fús til að láta kalla sig börn þótt þau séu það í skilningi þessara laga. Foreldrar eiga að bera ábyrgð á börnum sínum til 18 ára aldurs eftir þetta og hið sama gildir um skólann. Það á við um ábyrgð skólans á félagslífi í framhaldsskólum. Ég vil sérstaklega nefna útgáfumál. Það á líka við um ábyrgð á starfsemi nemendafélaga almennt og félagslífi innan skólans, eins og ég nefndi, og einnig um foreldraráð. Á þessu er að nokkru leyti tekið í 39. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um nemendafélög í framhaldsskólum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélagið setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendafélags, sem skólameistari staðfestir.“

Þetta hygg ég að komi í kjölfar þess að við erum hér að tala um að í framhaldsskólunum eru börn undir 18 ára aldri. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla, segir jafnframt. Þetta er gríðarlega mikilvægt og þarf að mínu viti að virka nú þegar í öllum framhaldsskólum landsins. En því miður er mér kunnugt um að svo er ekki.

Í sumum framhaldsskólum telja skólastjórnendur að nemendafélög starfi á eigin ábyrgð, að nemendafélög gefi út skólablöð án þess að það komi skólanum sem slíkum við hvað í þeim stendur eða það þurfi að vera ábyrgðarmaður fyrir þeirri útgáfu. Ég veit til þess að athugasemdum um það efni sem borist hafa til skóla hefur verið svarað með því að bíða þurfi eftir nýjum lögum um framhaldsskóla til að taka á slíku. Í 39. gr. er skýrt kveðið á um þetta og ég fagna því sérstaklega. Þar er líka tekið fram að nemendafélögum skuli búin aðstaða til starfsemi sinnar sem er líka mjög mikilvægt.

Varðandi foreldraráðin, sem er líka nýmæli í 50. gr., er tekið fram, með leyfi forseta:

„Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð. Skólameistari boðar til stofnfundar þess. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann.“

Ég fagna þessu. Ég tel þetta mjög tímabært og að þessar breytingar varðandi nemendafélögin og ábyrgð skólans á starfsemi og skipun foreldraráða við framhaldsskólann hefðu þurft að koma til framkvæmdar strax og lögaldrinum var breytt, strax og hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 ára til 18 ára aldurs kom til framkvæmda.

Ég ætla, virðulegi forseti, að fjalla sérstaklega um einn þátt sem er að finna í 36. gr. frumvarpsins sem ber fyrirsögnina Heilsuvernd, hollustuhættir og forvarnir. Hér er gert ráð fyrir því að skólameistari í framhaldsskóla hafi samráð við heilsugæslustöð í nágrenni skólans um heilsuvernd og hollustuhætti. Ég fagna því að heilsuvernd og heilsugæsla skuli með þessum hætti tekin inn í frumvarp til laga um framhaldsskóla en hlýt jafnframt að segja að ég tel að hér sé ekki nógu mikið að gert. Ég tel afar nauðsynlegt að við framhaldsskóla sé skólaheilsugæsla enda skal heilsuvernd barna ná til 18 ára aldurs. Í flestum tilfellum er um helmingur nemenda framhaldsskólans á þeim aldri, 16–18 ára.

Mikil þróun og uppbygging hefur átt sér stað í skólaheilsugæslu á undanförnum árum. Það er unnið markvisst og samræmt í samvinnu við Lýðheilsustöð í grunnskólum landsins, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Stöðugildi skólahjúkrunarfræðinga í grunnskólunum hér á höfuðborgarsvæðinu eru ríflega 34 talsins og um 700 nemendur á bak við hvern skólahjúkrunarfræðing. Það er markvisst fylgst með því í hverju þessi fræðsla er fólgin og samkvæmt ársskýrslu heilsugæslunnar, Heilsugæslu í skólum 2006–2007, kemur fram að kynfræðslu hefur verið hvað best sinnt en fræðsla tengd geðvernd verið einna minnst á dagskrá. Nokkuð mikil áhersla hefur verið lögð á fræðsluna í fyrstu árgöngunum og er nú fyrirhugað að gera átak hvað varðar eldri árganga í grunnskólanum. Það er mitt mat, herra forseti, að nauðsynlegt sé að innleiða skólaheilsugæslu í alla framhaldsskóla með þeim röksemdum að heilsuvernd barna á að ná til 18 ára aldurs.

Yfir 90% 16 ára ungmenni fara beint í framhaldsskóla að loknu grunnskólanámi. Brottfall úr framhaldsskólum er síðan um 10% á ári eftir það. Við væntum þess að með þessu frumvarpi, komi það til framkvæmda, muni nú draga úr þeirri tölu. En þetta sýnir að ætla má að besta leiðin til að sinna markvisst heilsuvernd þessa aldurshóps, sé í gegnum skólaheilsugæsluna.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið gert ráð fyrir fimm ára innleiðingaráætlun fyrir heilsugæslu í framhaldsskóla. Forstöðumaður heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu kynnti þær áætlanir fyrir heilbrigðisnefnd í aðdraganda fjárlaga. En það verður að segjast að það er ekki ætlað til þess fjármunum í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.

Varðandi þá áætlun sem hér hefur verið gerð og byggir á fjölda nemenda í framhaldsskólum er ljóst að bæta þarf einum níu stöðum við heilsugæsluna. Þar er ekki aðeins um hjúkrunarfræðinga að ræða því að í heilsugæslunni er fjölþættari starfsemi. Þar er einnig reiknað með þjónustu sálfræðings, svo ég nefni dæmi. En þarna reiknað með að um þúsund nemendur séu að baki hverju stöðugildi í skólaheilsugæslu sem mér sýnist gróflega vera um 15–20 stöður á landinu öllu.

Það segir sig sjálft að það skiptir mjög miklu máli að ekki sé klippt á heilsugæslu þegar börn verða 16 ára gömul og fara í framhaldsskóla. Það er mjög mikilvægt að skólaheilsugæslan haldi áfram að minnsta kosti til 18 ára aldurs og allt sem lýtur að heilsuvernd, forvörnum og fræðslu í þeim efnum, er mjög mikilvægt. Þess vegna endurtek ég, virðulegi forseti, að ég tel að í 36. gr., sem ég nefndi áðan og fjallar um heilsuvernd, hollustuhætti og forvarnir, sé nauðsynlegt að kveða mun skýrar að orði og tryggja skólaheilsugæslu í öllum framhaldsskóla landsins.

Hér er einungis reiknað með því að haft skuli samráð við heilsugæslustöð í nágrenni skólans um heilsuvernd og hollustuhætti. En því miður er hvergi reiknað með fjármunum í því skyni. Í athugasemdum eða umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið er í nokkuð mörgum liðum talið upp hvar reikna megi með auknum kostnaði vegna lagasetningarinnar sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi. Þar er því miður hvergi minnst á fjármuni til að standa straum af því sem nefnt er í 36. gr., samráði við heilsugæslustöð í nágrenni skólans um heilsuvernd og hollustuhætti. Í athugasemdum við þessa grein frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að ráðuneyti þau er fara með menntamál og heilbrigðismál komi sér saman um útfærslu þessa ákvæðis enda þörf á að þessari þjónustu sé sinnt bæði vegna aukinnar áherslu á forvarnir sem og þess að aukist hefur eftirspurn eftir ýmiss konar þjónustu með flóknari samsetningu nemendahópsins í skólunum.“

Hér vil ég bæta við því sem ég hef hér áður nefnt, að heilsuvernd og heilsugæsla barna skuli ná til 18 ára aldurs, þ.e. inn í framhaldsskóla samkvæmt lögum.

Ég ætla ekki, herra forseti, að orðlengja mikið um þau stóru mál sem hér eru á dagskrá. Hér hafa hv. þingmenn fjallað ítarlega um ýmsa kafla þeirra. Þetta eru mörg frumvörp og ég vænti þess að áfram verði rætt um þessi mikilvægu mál í þingsal en þetta hlýtur auðvitað að verða meginverkefni menntamálanefndar þegar málin eru þangað komin.