135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[18:19]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. menntamálaráðherra um að fyrir dyrum standi mikilvæg vinna. Við framsóknarmenn munum að sjálfsögðu skoða það með opnum huga og á málefnalegan hátt. Ég tel að umræðan í dag hafi á margan hátt verið mjög málefnaleg og er gott veganesti í þeirri vinnu sem við förum í eftir áramót.

Ég vil aðeins tala um gagnrýnisraddir sem beindust að mér varðandi PISA-könnunina. Ég hóf máls á henni í morgun. Ég tel mjög mikilvægt að ræða þessa könnun, um lesskilning og stærðfræðikunnáttu 15 ára nemenda á Íslandi. Ég minnist þess ekki að þegar könnun um lífskjör almennt, sem sýndi Ísland í fyrsta sæti, og sjálfstæðismenn hófu hér um daginn, að þá hafi sérstaklega verið minnst á samstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins síðustu 12 ár. Sjálfstæðismenn töluðu fyrir sjálfa sig og enga aðra og minntust ekki á samstarf við Framsókn, jafnvel þótt þeir hafi oft talað að aðkoma þeirra að ríkisstjórn hafi byrjað 1995, jafnvel þótt hún byrjaði 1991. En þeim árum vilja sjálfstæðismenn víst gleyma.

Ég sagði að um væri að ræða falleinkunn fyrir menntastefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég sagði ekki að þetta væri falleinkunn fyrir skólakerfið. Ég tel að skólakerfið á Íslandi sé mjög gott og það standi framarlega í heiminum. Ég vil ekki að mér sé gefið að sök að hafa sagt eitthvað sem ég hef ekki sagt í þessu púlti. Það er einfaldlega þannig að lesskilningur og stærðfræðikunnátta eru undirstöðugreinar fyrir svo margt annað.

Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra vill ræða þetta málefnalega (Forseti hringir.) en mér fannst umræðan ekki þannig fyrr í dag.