135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[18:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Andsvar mitt eru nokkrar athugasemdir. Í fyrsta lagi var rætt um nemendalýðræði og félagsstarf, í framhaldsskólunum fyrst og fremst. Ég vil minna á að það á að sjálfsögðu að vera opið fyrir pólitíska starfsemi. Ég vona að hæstv. ráðherra sé mér sammála um að það sé fráleit tilhneiging, sem sums staðar skýtur upp kollinum, að halda allri pólitík utan veggja framhaldsskólanna, að þar megi ekki starfa pólitísk félög.

Það hafa orðið árekstrar af þessu og þegar kosningaaldur er kominn niður í 18 ár og á nú kannski eftir að lækka enn frekar. Þá er algerlega fráleitt að nemendur geti ekki rætt pólitík og stigið sín fyrstu skref þar, m.a. æft sig í pólitískum félögum og haldið kappræður o.s.frv.

Í öðru lagi, um þessar PISA-mælingar, þá finnst mér gæta of mikillar tilhneigingar til að ræða það þröngt og gefa sér fyrir fram að rætur vandans liggi alfarið innan skólakerfisins. Hvað gefur okkur tilefni til að endilega álykta og fullyrða það? Skyldi ekki vera skynsamlegt að horfa út í samfélagið líka, inn á heimilin og velta því fyrir sér? Bíddu, eru kannski breytingarnar þar, sem eru mjög hraðstígar ekki síður hér, að læðast aftan að okkur þannig að skólakerfið komi svona út?

Í þriðja lagi, um samræmd próf og könnunarpróf og allt það, þá verð ég að segja að ég hefði kosið að hæstv. ráðherra væri móttækilegri og opnari fyrir því að skoða í alvöru hvort halda eigi þessu tiltölulega óbreyttu áfram. Ég vísa þar sérstaklega til mælinga sem byrja snemma í grunnskólanum.

Í fjórða lagi og að lokum bið ég þess lengstra orða að menn gleymi ekki gildi menntunarinnar hennar sjálfrar vegna, rétti einstaklingsins til að mennta sig sjálfs sín vegna og þroska síns og til að geta lifað innihaldsríkara lífi. Mér finnst stundum svífa yfir vötnum, jafnvel á köflum í þessari umræðu í dag, umræðan um efnahagslegt gildismat menntunar og hún sé eingöngu góð vegna þess að hún framleiðir tól (Forseti hringir.) og hjól í framleiðsluvirki samfélagsins.