135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[18:29]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti allt að því komið hingað upp og sagt sammála, sammála, næstum því sammála, sammála.

En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kemur inn á margt. Ég er alveg sammála honum um að hluti af nemendalýðræðinu er sjálfsagt þegar krakkarnir og nemendurnir í skólanum verða 18 ára og fá kosningarrétt og vonandi fá þau fyrr á huga á pólitík en 18 ára. Það á að leyfa þessari umræðu að vera innan skólanna. Það er bara skólanna að meta það. Ég treysti skólastjórnendum, í samvinnu við nemendaráð viðkomandi skóla, að reyna að setja það í réttan farveg.

Skólarnir hafa að mínu mati verið opnir fyrir pólitískum fundum og það verða þeir áfram. Það er ekki verið að loka fyrir það með þessu. Ég undirstrika það. Það á ekki að vera þannig. Skólarnir eiga að vera opnir fyrir lifandi, skemmtilegri og góðri umræðu og mér finnst pólitíkin oftast vera þannig. Pólitísk umræða á því heima í skólanum svo lengi sem hún er ekki hluti af námskránni og öllu því, þannig að við förum ekki í þann leik.

Varðandi PISA-umræðuna þá er ég algerlega sammála hv. þingmanni. Við verðum að passa okkur á því að túlka þetta ekki of þröngt. Það er nákvæmlega það sem hv. þingmaður segir: Er ekki skýringanna t.d. að leita heima við? Ég hef margoft nefnt frístundalesturinn í dag. Lesum við nógu mikið fyrir börnin okkar? Kynnum við þeim nægilega mikið undraheim bókanna? Hvaða ævintýri bækurnar eru og setja fram fyrir börnin okkar þannig að þau verði forvitnari um lífið og tilveruna, vilji kynnast meiru, fá meira.

Samræmdu prófin. Að sjálfsögðu er framkvæmd þeirra alltaf í endurskoðun og við erum með það í skoðun að reyna að nýta nútímatækni til þess að gera þau einstaklingsmiðuð til að uppfylla ákveðnar þarfir og fleira.

Varðandi síðasta atriðið þá er það algjörlega hárrétt. Við megum ekki gleyma inntaki menntunar. Við erum með skólakerfi til að mennta börnin okkar. Í því felst að (Forseti hringir.) að við viljum innihaldsríka menntun í góðu og huggulegu umhverfi sem (Forseti hringir.) býður upp á að börnin okkar haldi áfram að vera forvitin um lífið og tilveruna. Þau vilja kynnast lífinu.