135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

myndlistarlög.

306. mál
[18:37]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til myndlistarlaga. Með frumvarpinu er lagður almennur lagarammi fyrir myndlistarstarfsemi sem ríkið stendur fyrir, bæði með rekstri Listasafns Íslands og með ýmsum styrkveitingum.

Með setningu rammalöggjafar um myndlist er fylgt eftir þeirri stefnumörkun sem þegar hefur komið fram á öðrum sviðum menningarstarfsemi svo sem með leiklistarlögunum frá 1998, safnalögum 2001 og lögum um tónlistarsjóð frá árinu 2004. Í öllum tilvikum er stefnt að því að einfalda lagaumgerðina, skýra hlutverk stofnana og tryggja að stuðningur ríkisins á viðkomandi sviði byggi á eins faglegum grunni og unnt er.

Við setningu safnalaga, nr. 106/2001, breyttist hlutverk Listasafns Íslands á þann veg að það var gert að höfuðsafni á sviði myndlistar. Eins og við þekkjum og vitum eru höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafnið, Náttúruminjasafnið, samkvæmt nýsamþykktum lögum, og Listasafn Íslands. Í kjölfar þeirra var gert ráð fyrir því að einstök lög um söfn yrðu endurskoðuð, þar á meðal lög um Listasafn Íslands. Í frumvarpinu kemur sú endurskoðun fram í endanlegri mynd en ákvæði þess um Listasafn Íslands eru löguð annars vegar að safnalögum og hins vegar að því að þau taki frekar mið af rammalöggjöf um myndlistarmál en sérlögum um safnið. Var sú leið m.a. farin í leiklistarlögunum frá 1998 varðandi lagaákvæði um Þjóðleikhúsið og var það form laga m.a. haft til hliðsjónar við gerð lagafrumvarps þessa. Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til allrar myndlistarstarfsemi sem ríkið stendur fyrir eða styrkir nema Listskreytingasjóðs Íslands og Listasafns Einars Jónssonar.

Frumvarpið greinist í tvo meginkafla þar sem annars vegar er fjallað um Listasafn Íslands og hins vegar myndlistarráð. Ákvæði frumvarpsins um Listasafn Íslands eru gerð einfaldari en í núgildandi lögum um safnið og taka m.a. mið af þeim ákvæðum þjóðminjalaga frá 2001 sem varða Þjóðminjasafn Íslands. Undirstrikað er það meginhlutverk Listasafns Íslands að vera höfuðsafn á sviði myndlistar en í því felst m.a. að gert er ráð fyrir að safnið veiti öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðli að samvinnu listasafna og vinni að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar. Helstu breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum gildandi laga um Listasafn Íslands lúta að því að einfalda þann lagaramma sem um safnið gildir og efla sjálfstæði þess sem höfuðsafns á sviði íslenskrar myndlistar.

Meðal þessara breytinga má nefna að safnráð í núverandi mynd verður lagt niður en það er í samræmi við skipan mála hjá Þjóðminjasafninu. Þá er lagt til að heiti forstöðumanns verði breytt í safnstjóri. Ekki er lengur kveðið á um hve mörg starfstímabil safnstjóri megi sitja eins og gert er í núgildandi lögum en í þess stað lagt til að ætíð skuli auglýsa embætti safnstjóra laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils. Þar er byggt á sömu reglu og gildir um þjóðleikhússtjóra, sbr. 2. mgr. 6. gr. leiklistarlaga.

Í frumvarpinu er að finna mikilvæg nýmæli þar sem lagt er til að skipað verði myndlistarráð og að stofnaður verði sérstakur myndlistarsjóður. Til þessa hefur myndlistin ekki átt sér formlegan samstarfsvettvang líkt og þann sem nú er gert ráð fyrir að verði stofnaður. Fyrirhugað er að myndlistarráð verði samstarfsvettvangur um málefni íslenskrar myndlistar, hliðstætt leiklistarráði og tónlistarráði, menntamálaráðherra til ráðgjafar. Enn fremur er ráðinu ætlað að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og listsköpun þeirra og vinna að því að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana. Myndlistarráð mun þannig veita ráðuneytinu faglega aðstoð og stuðning auk þess að með tilkomu sjóðsins og ráðsins er kominn rammi fyrir styrkveitingar ríkisins til þessa málaflokks.

Tillagan um stofnun myndlistarsjóðs er eðlileg í kjölfar samsvarandi sjóða sem stofnaðir hafa verið með lögum á öðrum sviðum menningarmála með það að markmiði að tryggja faglega umfjöllun um styrkumsóknir á sviði myndlistar eins og á öðrum sviðum. Má í þessu sambandi benda á að nú er komin nokkur reynsla af starfsemi leiklistarsjóðs, kvikmyndasjóðs, tónlistarsjóðs, safnasjóðs, húsafriðunarsjóðs og fornleifasjóðs og er ljóst að þetta form fjárveitinga til menningarstarfsemi getur tryggt betur en áður góða nýtingu þeirra fjármuna sem ríkissjóður veitir til verkefna á þessu sviði. Í því sambandi má benda á að menntamálaráðuneytið hefur um langt árabil veitt margvíslega styrki á sviði myndlistar af safnliðum í fjárlögum. Er þar einkum um að ræða ferðastyrki til einstaklinga og hópa, styrki vegna einstakra verkefna innan lands og erlendis.

Ráðuneytið hafði um árabil sér til ráðgjafar myndlistarnefnd sem skipuð var fulltrúum Sambands íslenskra myndlistarmanna, Sýn, Listasafns Íslands og ráðuneytisins en með tilkomu sjálfseignarstofnunarinnar Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar fól ráðuneytið miðstöðinni að annast styrki vegna verkefna erlendis og myndlistarnefndin var lögð af. Hlutverk myndlistarsjóðs verði að veita fjárhagslegan stuðning til verkefna á sviði myndlistar, til að efla hana og koma henni á framfæri hér á landi og erlendis en myndlistarráð gerir tillögu til ráðherra um úthlutun úr myndlistarsjóði.

Áætlað er að 18 millj. kr. framlag í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2008, sem heyrir undir Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, renni í myndlistarsjóð. Þegar litið er til þeirra fjölþættu verkefna sem frumvarpið gerir ráð fyrir að sjóðurinn sinni verður ekki undan því vikist að styrkja fjárhagsstöðu myndlistarsjóðs til lengri tíma og er eðlilegt að um það verði fjallað við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2009.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir þessu frumvarpi til myndlistarlaga. Því er m.a. ætlað að gera regluverkið myndlistarmál markvissara og skýrara en nú er. Legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni 1. umr.