135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:12]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Fjárhagsvandi Heilsugæslunnar í Reykjavík er ekki nýtilkominn. Þetta er halli til nokkurra ára. Heilbrigðisnefnd Alþingis fékk þær upplýsingar frá stjórnendum Heilsugæslunnar í Reykjavík við umfjöllun um fjárlögin að hallinn í árslok væri um 300 millj. kr. Því vekur það athygli að niðurskurðarhugmyndir Heilsugæslunnar í Reykjavík varða yfir 500 millj. kr., sá mismunur sem þarna er þarfnast skýringar. Tillögur stjórnenda um niðurskurð, sem hafa verið kynntar í fjölmiðlum, eru í rauninni fráleitar og lýsa litlum skilningi á gildi heilsuverndar í starfi heilsugæslustöðva. Að skera niður hjúkrunarþáttinn, eins og t.d. skólahjúkrun og heimahjúkrun, er algerlega í andstöðu við stefnu stjórnvalda. Ég hlýt að halda því til haga að á þessu ári og á næstu tveimur árum er fjármagn til heimahjúkrunar aldraðra þrefaldað. Á næsta fjárlagaári eru fjárheimildir til heimahjúkrunar Heilsugæslunnar í Reykjavík auknar um 300 millj. kr. og það er erfitt að skilja tillögur um niðurskurð í heimahjúkrun í ljósi þessa.

Hins vegar er alveg ljóst að full þörf er á að endurskoða rekstur Heilsugæslunnar í Reykjavík. Hún er of miðstýrð og yfirbyggingin er of mikil. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök að sameina Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins undir einn hatt eins og gert var í tíð Framsóknarflokksins í heilbrigðisráðuneytinu. Starfsfólk heilsugæslunnar er vel menntað og vinnur mjög mikilvæg störf. Það þarf að gera því kleift að reka heilsugæslustöðvarnar með sjálfstæðari hætti. Þar má m.a. horfa til rekstrarforms Heilsugæslustöðvarinnar í Salahverfi sem var komið á laggirnar í tíð Framsóknarflokksins og það kemur mér mjög á óvart ef hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, lítur svo á að það að fara þá leið sem er farin í Salahverfinu sé einhver ávísun á hið ameríska kerfi. Það kemur mér mjög á óvart. Það hittir þá þann fyrir sem lagði það til.