135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:17]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki að spyrja að samlyndinu í stjórnarandstöðunni þennan dag frekar en aðra. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af Heilsugæslunni í Reykjavík en það er ótrúlegt að það sé hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem taki það mál upp í ræðustólnum, aðeins hálfu ári eftir að hún gengur út úr ráðuneytinu og skilur heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu eftir í uppnámi og með stóran skuldahala, eins og raunar líka Landspítala – háskólasjúkrahús. Ríkisstjórnin nýja situr með þennan vanda Framsóknarflokksins í fanginu og við erum nú þegar búin að hreinsa upp (GÁ: Hver …?) 2 milljarða skuldahala sem hv. þm. Guðni Ágústsson skildi eftir á Landspítalanum. (Gripið fram í.)

Það er þannig, virðulegur forseti, að heilbrigðisráðherra hefur fullan stuðning Samfylkingarinnar til þess að tryggja hér 1. flokks þjónustu í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og engin ástæða til að hafa áhyggjur af öðru en að ráðherrann vinni að því hörðum höndum. Auðvitað stendur hvorki til að leggja af mæðravernd né ungbarnaeftirlit. Við rekum hér heilbrigðiskerfi að norrænni fyrirmynd og það er ekki á dagskrá að einkavæða það kerfi eða mismuna fólki eftir efnahag þó að menn séu opnir fyrir fjölbreyttum rekstrarformum eins og verið hefur, virðulegur forseti.