135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:21]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Staðan í málum heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu er grafalvarleg en hún er ekki ný af nálinni, eins og réttilega hefur komið fram og þegar í þessari umræðu, hér er um að kenna sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins, að sjálfsögðu í kompaníi við aðra flokka, áður Framsókn eins og hv. málshefjanda er að sjálfsögðu kunnugt, nú í kompaníi við Samfylkinguna sem raunar hefur bætt um betur og afhent Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið og formennsku í heilbrigðisnefnd Alþingis.

Heilsugæslustöðvunum á höfuðborgarsvæðinu er ætlað að þjóna um 200 þús. íbúum. Í dag er staðan sú að um 8.500 þeirra eru án heimilislækna. Í stað niðurskurðar á þjónustunni þarf að efla heilsugæsluna en ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú þegar fellt tillögu stjórnarandstöðuflokkanna um 400 millj. kr. framlag á fjáraukalögum, og í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er sveltistefnunni haldið áfram. Heilsugæslan hefur nú kynnt tillögur um að skera niður mæðravernd, ungbarnaeftirlit, skólaheilsugæslu, Miðstöð heilsuverndar barna o.fl., þ.e. forvarnastarfið. Ég trúi því ekki að þessar tillögur verði að veruleika.

Hver var reynslan af því að leggja niður skólatannlækningarnar? Er ekki öllum í fersku minni hver staðan í þeim málum er? Hingað til höfum við lagt kapp á að efla heilsugæsluna og heimahjúkrun en nú blasir við að á þessu getur orðið breyting ef þær hugmyndir sem kynntar hafa verið verða að veruleika. Niðurskurður á þjónustu heilsugæslunnar er einn liður í að neyða kerfið allt til umfangsmikils einkareksturs sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum andvíg, við erum andvíg því að hér verði til frumskógur einkarekinna heilsugæslustöðva vegna þess að það mun koma niður á hagsmunum alls almennings í landinu. Það þjónar ekki hagsmunum almennings. Stjórnarflokkunum gefst núna hins vegar tækifæri til að ráða bót á vanda heilsugæslunnar með því að samþykkja tillögur okkar vinstri grænna við 3. umr. fjárlaga og ég skora á þingmenn (Forseti hringir.) allra flokka að styðja við og efla þá grunnstoð velferðarkerfisins sem heilsugæslan er.