135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:23]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Á föstudaginn felldu ríkisstjórnarflokkarnir hér tillögu stjórnarandstöðunnar um að veita 400 millj. kr. til að hreinsa upp skuldahala heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Við þá sem hér gapa og bera einhverja aðra sökum, eins og hv. talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa gert, vil ég segja þetta: Þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga hér eftir tvo daga mun verða eftir því tekið hvernig þið, hv. þingmenn stjórnarflokkanna, greiðið atkvæði. Það vakti enga athygli hér á föstudaginn var, allir þessir rauðu punktar á töflunni sem sýndu hvernig þið fellduð, hv. þingmenn, tillögur um að greiða úr vanda heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu sem, eins og hér hefur verið bent á, hefur átt í áralöngu fjársvelti. Uppbyggingin hefur ekki haldist í hendur við fólksfjölgun á þessu svæði eða breytingar í aldursskiptingu.

Það er dapurlegt en það er staðreynd sem ekki verður undan vikist að viðurkenna, hv. þingmenn Samfylkingarinnar, að engin breyting hefur orðið á þessu með tilkomu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Það var einmitt það versta við myndun þessarar ríkisstjórnar að hleypa Sjálfstæðisflokknum í heilbrigðisráðuneytið. Það er ljóst að með þessum niðurskurði og því sem hér er í bígerð, m.a. í þeim efnum sem hér hafa verið rædd, mæðravernd og öðru, er verið að teppaleggja fyrir einkavæðingu í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. (GÁ: Hárrétt.) Það verður ekki látið yfir okkur ganga mótmælalaust og ég minni á að þegar heilsugæslunni var hent út úr heilsuverndarstöðinni kostaði það gríðarlega mikla peninga en það kostaði líka (Forseti hringir.) andlegt álag og erfiðleika fyrir þá sem þar vinna.