135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:26]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Herra forseti. Það er einkennilegt og í raun furðulegt að hlusta á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem er nýstigin úr stól heilbrigðisráðherra, fara yfir stöðu heilsugæslunnar. Það er ekki langt síðan Framsóknarflokkurinn stokkaði upp heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu gegn vilja sveitarfélaganna og kom henni inn í þá mislukkuðu miðstýringu sem hún býr við núna. Þetta er eins og ég segi gert gegn vilja sveitarfélaganna og skýrir að hluta til stöðu Heilsugæslunnar í Reykjavík núna. (GÁ: Hvar var … þá?)

Svo er talað um þjónustu sem ríkið kaupir af einkaaðilum eins og hún sé eitthvað slæm, sé verið að skapa svigrúm fyrir einkarekstur og að það sé óæskileg þróun. Ég hlýt því að spyrja hv. þm. Siv Friðleifsdóttur í ljósi þess að undir ykkar stjórn var stofnað til Heilsugæslunnar Salus sem núna er vinsælasta heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu. Það var stofnað til hennar undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Læknavaktin var stofnuð undir stjórn Framsóknarflokksins, og ART Medica. (Gripið fram í.) Þá hlýt ég að spyrja … (Gripið fram í.) Ef ég get fengið hljóð til þess hlýt ég að spyrja: Er hv. þingmaður á móti þessum læknamiðstöðvum eins og Salus?