135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:36]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu er greinargerð ríkisendurskoðanda um yfirtöku Landsvirkjunar á vatnsréttindum ríkisins í Þjórsá neðan Búrfells í kjölfar samnings sem um það var gerður með leynd tveimur dögum fyrir síðustu kosningar. Þessi greinargerð sem okkur barst í hendur á fimmtudaginn er samfelldur áfellisdómur yfir stjórnsýslu þeirra ráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar sem undir þennan samning eða samkomulag rituðu, þ.e. hæstv. ráðherrar fjármála, iðnaðar og landbúnaðar.

Aðdragandi þessarar greinargerðar er nokkuð sérkennilegur vegna þess að á fundi sem umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd áttu með heimamönnum og fulltrúum Landsvirkjunar í Árnesi um miðjan ágúst sl. var upplýst um þetta leynisamkomulag. Það var strax mjög gagnrýnt, einkum og sér í lagi fyrir það að þarna töldum við að verið væri að ráðstafa eignar- og nýtingarrétti ríkisins án lagaheimilda svo sem skylt er skv. 40. gr. stjórnarskrár auk þess sem þetta afsal um yfirtöku Landsvirkjunar á vatnsréttindunum var ekki undirritað með lögboðnum fyrirvara um samþykki Alþingis.

Við óskuðum því eftir því, þingflokkur Vinstri grænna, að ríkisendurskoðandi léti í ljósi álit sitt á þessum gjörningi og hvort hann fengi staðist lög. Það verður að viðurkennast að greinargerð ríkisendurskoðanda lét nokkuð á sér standa og við höfum kallað eftir henni hér nokkrum sinnum, bæði úr ræðustól og símleiðis. Það verður að segjast eins og er að þegar maður les innganginn að þessari greinargerð hlýtur sú töf að skrifast einvörðungu á reikning ráðuneytanna þriggja, fjármálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis, sem sameiginlega skiluðu áliti til Ríkisendurskoðunar af þessu tilefni, fyrst 24. október sl. og síðan 3. desember sl. Þremur dögum síðar fengu þingmenn loksins þessa ágætu greinargerð ríkisendurskoðanda á sín borð.

Ég ætla ekki að fjölyrða um innihald þessa samkomulags en ég ætla að geta þess að um tilganginn segir skýrt í samningnum að hann sé sá að tryggja Landsvirkjun fullnægjandi heimildir til að halda áfram undirbúningi að virkjun í neðri hluta Þjórsár gagnvart öðrum rétthöfum. Þessir aðrir rétthafar eru að sjálfsögðu landeigendur, heimamenn, sveitarstjórnir og þeir sem eiga fasteignir, svo sem sumarbústaði, eða veiðiréttindi á svæðinu. Ráðuneytin hafa ítrekað í greinargerð sinni sem sjá má á blaðsíðu 18 í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta hafi verið gert í því skyni að auðvelda þá samninga Landsvirkjunar sem í hönd fóru við hagsmunaaðila.

Hæstv. fjármálaráðherra staðfesti þetta einmitt hér í umræðum um fjáraukalög, 1. umr. 11. október sl., þar sem hann sagði að á þessum tíma hefði verið afskaplega mikilvægt að gert yrði samkomulag við Landsvirkjun um vatnsréttindin þar eystra. Svo sagði ráðherrann, með leyfi forseta:

„Því var þetta nauðsynlegt, málið hefði getað stöðvast.“

Herra forseti. Þessi orð ráðherrans eru athyglisverð í ljósi þess sem hann nú segir, að þessi samningur hafi bara verið í plati, Landsvirkjun hafi oftúlkað hann og þarna hafi engum eiginlegum réttindum verið afsalað. Svo segir hann ofan í kaupið, hæstv. ráðherrann, að hann sé sammála ríkisendurskoðanda um að þessi samningur sé ekki bindandi fyrir ríkið.

Þrátt fyrir afneitun ráðherrans á þessum samningi núna og þrátt fyrir mótbárur þriggja ráðuneyta og langar lagaskýringar þeirra í sex köflum þess efnis að samkomulagið hafi ekki falið í sér lögbrot kemst ríkisendurskoðandi að þeirri niðurstöðu að í samkomulaginu felist brot á 40. gr. stjórnarskrárinnar hvað varðar vatnsréttindi jarðarinnar Þjótanda og brot gegn 29. gr. fjárreiðulaga hvað varðar önnur vatnsréttindi. Röksemdir ráðuneytanna um annað dugi ekki, eins og segir á blaðsíðu 19, og af því leiði að þetta samkomulag sé ekki bindandi fyrir ríkið.

Það er ljóst, herra forseti, að ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar fóru offari í þessu máli. Þeir brutu lög í tilraunum sínum til að styrkja samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart heimamönnum. Og ég hlýt að spyrja: Hvernig ætlar nú hæstv. fjármálaráðherra að bregðast við þessum áfellisdómi? Hefur hann kallað eftir samningum og samningstilboðum Landsvirkjunar — hann fer jú með hlutabréf ríkisins í Landsvirkjun — þeim tilboðum sem eru reist á þessum ólögmæta gjörningi?