135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:50]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sá samningur sem hér er til umræðu er um mjög margt sérstakur. Í fyrsta lagi að orðin sem notuð voru eru yfirtekin réttindi og endurgjald. Ekki er getið hvort um sölu eða leigu er að ræða og þessi hugtök bæði tvö halda því alveg opnu um hvort er.

Í öðru lagi er tekið fram í samningnum að réttindin séu yfirtekin tímabundið án þess að tilgreina nein tímamörk á því hvað tímabundið þýðir. Svo merkilegt sem það hljóðar virðist það tímabundið í það óendanlega nema eitthvert tiltekið aðgerðaleysi af hálfu Landsvirkjunar stofni ríkinu rétt til að rifta samningnum. Ef Landsvirkjun heldur lágmarksaðgerðum virðist fyrirtækið halda réttindunum svo lengi sem það kýs.

Í þriðja lagi fær Landsvirkjun heimild til þess að þræta við ríkið, eiganda sinn, um endurgjald fyrir þessi réttindi og náist ekki samkomulag á milli aðila, Landsvirkjunar fyrir hönd ríkisins og ríkisins fyrir hönd ríkisins, afturkallar ríkið ekki réttindin til sín heldur fer málið fyrir dómstóla og Landsvirkjun heldur réttindunum. Það er mjög sérstakt.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, sem mér finnst eiginlega vera það sem stendur upp úr í þessum samningi, má Landsvirkjun selja þessi réttindi með heimild ríkisins. Það stendur í samningnum að Landsvirkjun sé heimilað að framselja réttindin. Orðið framselja hlýtur að þýða það sama í þessum samningi og í lögunum um stjórn fiskveiða þar sem það er eina heimildin sem ríkið hefur veitt handhöfum fiskveiðiréttinda, að selja þau. Það hlýtur að vera hægt að selja þessi réttindi út á sama orðalag í þessum samningi eins og í gildandi lögum, virðulegi forseti.