135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:52]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það er sama hvað tautar og raular og það er sama hvað hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir, það liggur algjörlega á borðinu að frá því að samningurinn var gerður í maí í vor hefur Landsvirkjun farið með þessi vatnsréttindi samkvæmt Títan-samningnum sem sín, sem full, óskoruð eignarréttindi.

Maður spyr þá í framhaldi af því: Er þá allt sem Landsvirkjun hefur gert frá því í vor ógilt? Landsvirkjun hefur borið þennan samning fyrir sig í samningaviðræðum við landeigendur af því sem ég kalla óbilgirni vegna þess að þeir hafa sagt við landeigendur sem eiga um 7% vatnsréttinda: Við erum með meiri hlutann, þið verðið að sætta ykkur við það, og það verður ekkert eignarnám, þess þarf ekki, hér er bara um einhvers konar húsfélag að ræða.

Ég vil líka benda hæstv. fjármálaráðherra á það, af því að hann talaði um mismunandi lögfræðiálit, að ganga úr skugga um það í eitt skipti fyrir öll, af því að það er borð fyrir báru núna, hvaða vatnsréttindi og hvaða virkjanaréttindi Títan-samningarnir veita. Þeir voru gerðir 1915 undir því fororði að öll vötn skuli renna sem að fornu hafa runnið. Það stendur til að búa til lón og breyta rennslisvatni í stöðuvatn, það stendur til að taka ána úr sambandi á löngum köflum. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að fá faglegt, hlutlaust álit um heimildir sem samningurinn veitir.

En það er algjörlega deginum ljósara að eignarnám þarf til núna út af þessum virkjunum. Samfylkingin lýsti því skýrt og skorinort yfir á fundi um helgina, og reyndar hefur það komið úr ranni Sjálfstæðisflokksins líka, að ekki verði farið í eignarnám. Því segi ég: Sláið þessa framkvæmd af borðinu. Þyrmum nú náttúruperlunni Þjórsá, sköpum sátt um þetta mál, hættum að sá óeiningu inn í þau hreppsfélög sem hér eiga hlut að máli.