135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:54]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Það skal engan undra að Vinstri grænir efni hér til umræðu sem snýst um það að vera á móti virkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Allt frá því að hafist var handa við undirbúning að virkjun á Búrfelli, Búrfellsvirkjun, og um leið byggingu álverksmiðju í Straumsvík í Hafnarfirði, hafa vinstri menn á Íslandi verið á móti virkjunarframkvæmdum, á móti stóriðjuframkvæmdum og það er engin breyting þar á. Það er hlutur sem okkur mun greina á um í hinu pólitíska starfi hér, að þeir munu verða á móti þessum framkvæmdum eins og annars staðar, á Kárahnjúkum, fyrir norðan, á Norðausturlandi, og það mun ekki breytast frekar en fyrri daginn.

Sunnlendingar hafa staðið saman hingað til um þær virkjanir sem byggðar hafa verið á Suðurlandi, þar hefur verið full samstaða. Í dag er það krafa sveitarfélaganna að orkan sem fæst úr neðri hluta Þjórsár verði nýtt heima í héraði, að hún verði nýtt til orkufreks iðnaðar við Þorlákshöfn. Þannig er fullkomin samstaða meðal heimaaðila um þessa framkvæmd. Það skiptir miklu máli.

Hér er rætt um það, herra forseti, að verið sé að koma á óeiningu meðal fólks á Suðurlandi. Það er fjarri lagi. Það eru hópar vinstri grænna sem koma í uppsveitir Árnessýslu til að skapa þá andstöðu sem er um þessi mál. Það er augljóst og hefur verið allan tímann að rennslisvirkjanir í neðri hluta Þjórsár eru einhverjar þær hagkvæmustu með tilliti til hagkvæmis- og umhverfissjónarmiða og þess vegna eigum við að nýta þann hagkvæma virkjanakost. Hv. formaður Vinstri (Forseti hringir.) grænna hefur sagt í þessum stól af það væri illskást að virkja á þessu svæði.