135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[16:06]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að þessi umræða hefur verið mjög áhugaverð og ágæt sjónarmið komið fram. Ég held reyndar að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi kannski komist hvað næst því í sinni ræðu að lýsa stöðu þessa máls þar sem hjá honum kom einmitt fram að í þessu samkomulagi kemur ekki fram hvort um væri að ræða sölu eða leigu á réttindunum ef Landsvirkjun fengi virkjanaleyfi. Það lýsir einmitt stöðu málsins sem í besta falli, eða versta falli eftir því hvernig menn horfa á það, er ófrágenginn samningur. Um efnisatriði eins og þetta, hvort það væri sala eða leiga, að ætla sér að leggja það fyrir Alþingi — ég veit ekki hvað hv. þingmaður hefði sagt hefði ég reynt það. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem er greinilega andstæðingur þessa máls, ætlist ekki til þess að ég leggi málið fram hérna til að fá framsal á þessum grundvelli samþykkt.

Ég verð að segja líka að mér finnst að hv. þm. Framsóknarflokksins, Bjarni Harðarson, og auðvitað hv. þm. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sem þekkir málið átti sig á því hvað hér er um að ræða. (GÁ: Áttirðu ekki von á því?) Jú, ég átti von á því. Hv. þm. Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, er með tilvísun í hæstaréttardómara en þá er annar eða reyndar fyrrverandi hæstaréttardómari sem segir að það séu til fleiri en ein niðurstaða í hverju lögfræðilegu máli.

Varðandi það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir, að ég skuli ekki svara spurningum hennar, er ég hér í utandagskrárumræðu, ég er ekki í fyrirspurnatíma. Það er annar dagskrárliður sem er til þess að svara spurningum. Ég er hér til að taka þátt í umræðunum.

Ég held hins vegar að grundvöllur málsins sé, herra forseti, sá sem hv. alþingismaður Kjartan Ólafsson kom inn á, að (Forseti hringir.) hv. málshefjandi og flokkur hennar eru á móti því að virkja Þjórsá. (Gripið fram í: … skipta um skoðun.) (Gripið fram í: Ekki allir.) (Gripið fram í: Nei, ekki allir.)