135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:40]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við sem skipum stjórnarandstöðuna á þinginu erum ýmsu vön úr herbúðum ríkisstjórnarflokkanna. Það er varla svo að við megum hér opna munninn í ræðustól öðruvísi en vera sökuð um — ja, nú síðast misskilning á öllum málum.

Ég vara hv. formann heilbrigðisnefndar við að tala niður til þeirra sem koma á fundi nefnda þingsins og hvað þá til þeirra aðila sem hafa setið yfir því að semja umsagnir um frumvörp og leggja allt sitt í slíkar umsagnir og óska eftir því að þingheimur lesi þær, taki tillit til þeirra og meti það sem menn leggja fram til starfa á þinginu, fyrir löggjafarsamkunduna. Við erum a.m.k. að reyna það, þingmenn stjórnarandstöðunnar.