135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:08]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er frekar efins um að hv. síðasta ræðumanni verði að ósk sinni um að bandorminum verði vísað frá. Mér þykir líklegt að honum gangi álíka illa að ná því fram og að losna við Lagarfljótsorminn úr Lagarfljótinu. Ég hygg að hann sitji uppi með hvorttveggja, alla vega enn um sinn. Það er svo önnur saga hvort það er gott eða slæmt og kannski ættum við að fara yfir það í umræðunni.

Þannig háttar til að Frjálslyndi flokkurinn á ekki nefndarmann í heilbrigðisnefnd. Þess vegna er hann ekki með í nefndarálitinu, í hvorki meirihlutaáliti né minnihlutaáliti, þannig að rétt er að fara nokkrum orðum um afstöðu okkar til málsins.

Ég tek undir það sem fram kemur í upphafi álits minni hlutans, að þess sé gætt við breytingar á heilbrigðisþjónustu að ekki verði raskað jöfnum aðgangi að henni, hann sé óháður efnahag og félagslegri stöðu. Það er markmið sem við stöndum á bak við og styðjum.

Ég vil einnig minna á, í ljósi þess hversu mikilvægt er að verja það markmið, að núverandi heilbrigðiskerfi hefur nýlega fengið mjög góðan dóm Sameinuðu þjóðanna í skýrslu þeirra um lífskjör. Þar kom fram að Ísland væri í efsta sæti á lista yfir fjölmargar þjóðir sem teknar voru til athugunar. Einn af þáttunum sem tekinn var til samanburðar milli einstakra ríkja var heilbrigðiskerfið og kannski er það sá þáttur sem lagði mest af mörkum til þess að við náðum svo góðum árangri sem raun ber vitni í samanburðarkönnuninni.

Við búum við ákaflega gott heilbrigðiskerfi sem er í fremstu röð í heiminum. Ég held að við getum kinnroðalaust haldið því fram. Það skilar okkur bestu lífslíkum í heimi, sérstaklega meðal karla. Dánartíðni er ákaflega lág, sérstaklega dánartíðni ungbarna. Færni þeirra sem starfa í kerfinu til að glíma við ýmsa sjúkdóma er mjög mikil þannig að við búum við feiknalega gott heilbrigðiskerfi.

Við búum líka við þá stöðu að það er ekki eins dýrt og ætla mætti miðað við árangur þess ef við berum það saman við bandarísku útgáfuna sem reynist Bandaríkjamönnum mjög dýr og skilar ekki eins góðum árangri og íslenska kerfið. Meira að segja hefur kostnaður við heilbrigðiskerfið hér á landi farið lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu á síðustu árum. Það finnst mér líka ákaflega merkileg niðurstaða í ljósi umræðunnar sem verið hefur í þingsölum mörg undanfarin ár þar sem lögð hefur verið mikil áhersla á að takmarka útgjaldaaukningu í heilbrigðiskerfinu.

Lækkunin á kostnaði mælt í landsframleiðslu er auðvitað ekki tilkomin vegna þess að kostnaðurinn hefur lækkað í beinum fjárhæðum heldur vegna þess að þjóðarframleiðslan hefur aukist mun hraðar en kostnaður í heilbrigðiskerfinu. Engu að síður er gott að hafa náð þeim árangri án þess að missa gæði heilbrigðisþjónustunnar niður eins og getur gerst þegar menn ganga of langt í aðhaldi. Frekar er það svo um þessar mundir að menn hafi áhyggjur af því að fjármagn til heilbrigðiskerfisins sé of lítið á miðað við það sem við ætlumst til af því og um það hefur verið rætt á síðustu dögum, eins og menn þekkja. Ég held að rétt sé að vekja athygli á því hversu vel við stöndum í heilbrigðiskerfinu og þar eigum við mikinn og góðan árangur að verja.

Í frumvarpinu er að finna ýmsar breytingar sem eru að mínu mati flestar til þess fallnar að stuðla að endurbótum sem eðlilegt er að reyna að ná fram. Í fyrsta lagi er breyting sem felst í því að flytja almannatryggingar frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Það er breyting sem ég og þingflokkur minn styðjum. Við teljum það eðlilega tilfærslu og það gerir stjórnvöldum betur kleift að endurbæta almannatryggingakerfið sem er ákaflega flókið eins og menn þekkja. Á því var vakin athygli í skýrslum frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir rúmu ári. Í tímans rás hefur almannatryggingakerfið tekið breytingum sem ekki hefur verið innra samræmi í. Ósamræmi er í útfærslu á kostnaðarþátttöku ríkissjóðs eftir sjúkdómum, aldri og meðferð. Auðvitað er ekki eðlilegt að sjúklingar verði fyrir misþungum kostnaði eftir því hvað að þeim amar. Eðlilegt er að menn taki það allt til endurskoðunar og til þess þarf að vera unnt að fjalla um að minnsta kosti sambærilega þætti undir sama ráðuneyti. Að flytja almannatryggingarnar til félagsmálaráðuneytisins er í sjálfu sér ágæt breyting sem ætti að geta hjálpað stjórnvöldum til þess að ná fram betra og einfaldara almannatryggingakerfi.

Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að taka hluta af starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins, sjúkra- og slysatryggingaþáttinn og færa undir nýja stofnun. Ég set spurningarmerki við þessa breytingu. Á það hefur verið bent að búið er, með mjög miklum kostnaði, að leggja út í nýtt tölvukerfi sem sér um þessa þjónustu fyrir hönd ríkisins. Það er alveg morgunljóst, og athygli heilbrigðisnefndar hefur verið vakin á því, að ef færa ætti þessa úrvinnslu út úr Tryggingastofnun og því kerfi sem þar er yfir í nýja stofnun, sem er í sjálfu sér ekkert athugavert við, mun það kosta það að hanna þurfi ný tölvukerfi. Kostnaðurinn er feiknalega mikill og okkur var sagt að hann mundi ekki byrja á lægri tölu en milljarði króna. Mér finnst að stjórnvöld eigi að fara sér hægt í að stofna til slíkra útgjalda, feiknalega mikilla útgjalda, fyrir tiltölulega litla verkefnatilfærslu. Þessi þáttur í starfsemi Tryggingastofnunar er ekki það stór að hann standi undir svo miklum stofnkostnaði.

Ég mundi fara hægt í að kljúfa þennan þátt út úr Tryggingastofnun, láta hann jafnvel vera þar áfram varanlega þótt yfirstjórn þeirrar starfsemi mundi heyra undir heilbrigðisráðherra en stofnunin að öðru leyti undir félagsmálaráðherra. Ég sé í sjálfu sér engin sérstök tormerki á að það geti ekki gengið eftir. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fara gætilega í þá breytingu sem boðuð er í frumvarpinu út frá kostnaðarsjónarmiði. Viðhorf mitt til þess mundi breytast ef hægt væri að gera þessa breytingu fyrir tiltölulega lágar fjárhæðir. Þá horfði málið öðruvísi við.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, er lagt til að flytja málefni aldraðra frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis með þeim rökum að öldrun sé ekki sjúkdómur í eðli sínu. Því geti málefni aldraðra heyrt undir sama ráðherra og fer með almannatryggingar, sem í sjálfu sér getur vel farið saman að mínu viti.

Í þriðja lagi er lagt til að flytja hjúkrunarheimilin, með málefnum aldraðra, frá heilbrigðisráðherra til félagsmálaráðherra. Um það hef ég töluverðar efasemdir að skynsamlegt sé að gera. Ég sé ekki að sú útfærsla sem frumvarpið gerir ráð fyrir geri hlutina einfaldari heldur sýnist mér hún gera málin flóknari, sérstaklega fyrir þá sem reka hjúkrunarheimili. Þótt öldrun sé ekki í sjálfu sér sjúkdómur þá verða aldraðir frekar sjúkir en aðrir og þeir sem eru á hjúkrunarheimilum eru sjúkir. Þeir eru ekki þar vegna þess að þeir séu heilbrigðir. Það að reka og stjórna hjúkrunarheimili er fyrst og fremst heilbrigðismál.

Stjórnvöld hafa þá stefnu og fleiri reyndar, sem ég hygg að sé almennur stuðningur við, að draga út stofnanaþjónustu, að aldraðir geti verið sem lengst inni á heimilum sínum og fækka þeim sem dvelja á dvalarheimilum eða á hjúkrunarheimilum. Það þýðir einfaldlega að nái stjórnvöld árangri í þessari stefnumótun munu þeir sem í framtíðinni dvelja á hjúkrunarheimilum enn frekar vera sjúklingar en er í dag. Hjúkrunin sjálf verður því enn frekar heilbrigðismál en félagsmál frá því sem er í dag. Þessi breyting er þess eðlis að ég set mikla fyrirvara við hana og treysti mér ekki til að styðja tilfærsluna að því leyti.

Loks er í frumvarpinu lagt til að setja á fót nýja ríkisstofnun sem tengist ákveðinni kerfisbreytingu sem leitast er við að koma á í ríkiskerfinu, að sérstök stofnun annist samninga um heilbrigðisþjónustu, samningagerð við þá sem reka stofnanir eða fyrirtæki á þessu sviði og annast greiðslu, hvort sem það eru ríkisaðilar eða ekki. Ég er almennt fylgjandi þeirri breytingu. Ég held að það geti verið a.m.k. þess virði að gera tilraun á þessu sviði. Ég held að það sé mikil þörf á að aðskilja hagsmuni í þessu þannig að sami aðili sé ekki í samningaviðræðum við sjálfan sig í of miklum mæli. Jafnvel þótt viðkomandi sé fulltrúi ríkisins þá blandast alltaf aðrir hagsmunir inn í það sem þarf að skilja í sundur. Ég held að það geti verið til bóta að það sé ekki á sömu hendi, að gera samninginn, semja um fjárhæðir, þjónustustig og svo aftur að veita þjónustuna sjálfa, jafnvel þótt báðir aðilar séu á vettvangi ríkisins. Almennt styð ég þá breytingu sem felst í 18. gr. frumvarpsins um nýja stofnun. Það má nú kannski einu gilda hvort það er ríkisstofnun eða ekki. Ég held að það sé jafnvel betra að það sé ríkisstofnun. Ég sé ekki ástæðu til að leggjast gegn breytingum af þessum toga eins og heyra hefur mátt í þessari umræðu.

Í ljósi þessa stöndum við ekki að því að leggja til að málinu verði vísað frá. Við teljum það ekki rétta málsmeðferð. Við styðjum málið í öllum aðalatriðum og munum ekki styðja frávísunartillögu, jafnvel þótt nokkuð sé til í því að undirbúningi málsins hafi að sumu leyti verið áfátt og ekki sé alltaf ljóst hvað gera eigi varðandi skipulag hinnar nýju stofnunar. Reyndar er líka dálítið óljóst um skilin á milli heilbrigðisþjónustu og umönnunarþjónustu. Það er tekið fram í greinargerð með frumvarpinu og það eru vissulega annmarkar á málinu. En þeir eru ekki slíkir, að okkar mati, að ástæða sé til þess að leggjast gegn málinu í heild sinni. Við gerum einna helst athugasemdir við þessa tilteknu breytingu sem varðar hjúkrunarheimilin. Ég get tekið undir álit minni hluta heilbrigðisnefndar sem lýtur að þeim þætti málsins og vísa til umsagnar frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem að mér sýnist undirstaðan í áliti minni hlutans, um hvaða vandkvæði geta leitt af því að færa hjúkrunarheimilin yfir til félagsmálaráðuneytisins.

Það er dálítið sérstakt að ætla heilbrigðisráðherra að hafa forræði á heilbrigðisþjónustunni og hvernig hún verði veitt en allt frumkvæði um byggingu nýrra hjúkrunarheimila verði ekki á hans hendi heldur á hendi félagsmálaráðherra. Framkvæmdasjóður aldraðra er fluttur yfir til félagsmálaráðherra og verður þar á forræði þess ráðherra þannig að nýjungar og breytingar eru utan við valdsvið heilbrigðisráðherra, sem þó fyrst og fremst á að bregðast við breytingum og þörfum á þessu sviði. Mér finnst úrræðin of mikið dregin úr hendi heilbrigðisráðherra þegar kemur að því að veita heilbrigðisþjónustu, eins og gengið er frá því í frumvarpinu.

Ég held að ýmis vandamál muni leiða af því. Það eru líka vandamál sem leiða af því að sum hjúkrunarheimili munu áfram heyra undir heilbrigðisráðuneytið en önnur hjúkrunarheimili heyra undir félagsmálaráðuneytið. Það er ekki til að einfalda málið að tveir ráðherrar reki hvor um sig sambærilegar stofnanir. Á fund heilbrigðisnefndar komu fulltrúar þeirra sem reka fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu og þeir kvörtuðu einmitt undan því að þeir sæju fyrir sér að málin yrðu flóknari en ekki einfaldari. Þeir mundu þurfa að gera þjónustusamninga við tvo aðila, annars vegar við heilbrigðisráðherra um heilbrigðisþjónustuna, hins vegar við félagsmálaráðherra um aðra þjónustu, aðra starfsemi og fasteignina. Það er óvíst að endurgjaldið eða daggjöldin fyrir hvorn þátt um sig spili saman.

Allir sem stjórna opinberum rekstri eða veita þjónustu fyrir hið opinbera sjá í hendi sér að það er ekki til að einfalda málið að þurfa að leita til tveggja aðila sem eru hvor um sig sjálfstæður á sínu sviði og þurfa ekki að vera sammála um hvernig málin skuli leyst eða hvaða daggjöld skuli ákvörðuð á hvoru sviði fyrir sig. Út úr þessu geta komið vandkvæði sem engin leið er að greiða fram úr og engin ástæða til að flækja málin frá því sem er. Hins vegar er mikil ástæða til að gera þjónustusamninga við þá sem veita þjónustu á þessu sviði.

Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á því að það vanti algjörlega þjónustusamninga við þá sem reka hjúkrunarheimili. Þá vantar meira og minna. Það er því ekki skilgreint hvaða þjónustu ríkið borgar fyrir og eðlilega er lakara eftirlit með því að sú þjónusta sé veitt sem ríkið ætlast til að veitt sé. Þetta eru margir milljarðar. Mig minnir að það séu um 15 milljarðar á ári sem ríkið borgar til rekstraraðila án þess að neinir samningar séu um það. Það er fráleit staða. Ég styð það markmið sem felst í 18. gr., að koma á fót þessari nýju stofnun, koma einmitt þessum samningum á að svo miklu leyti sem það á við um heilbrigðisráðuneytið. Það þarf auðvitað að gera bragarbót á að þessu leyti.

Virðulegi forseti. Ég held að ég fari að segja þetta gott um afstöðu okkar til frumvarpsins og breytingarinnar í því. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni í félagsmálanefnd en þar var málið sent til umsagnar. Ég sendi umsögn þaðan til heilbrigðisnefndar sem því miður er ekki gerð grein fyrir, hvorki í meirihluta- né minnihlutaáliti en ég hef farið efnislega yfir sjónarmið mín og menn geta nálgast umsögnina í skjalasafninu til að samlesa þá umsögn við þetta mál. Þar er rakið það sem ég hef farið yfir í málinu.