135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:35]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt er að mikil nauðsyn er á að skilgreina þjónustuna, kostnaðargreina hana og gera um hana skýra samninga. Við sjáum hvað á sér stað í öldrunarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, vinsælasti staðurinn er Eir þar sem fyrir liggur skýr samningur um hvaða þjónustu á að veita, hvernig á að veita hana og annað sem því tengist. Eftirsóttast er að komast þar inn og á Sóltún vegna þess að þar þykir greinilega best að vera. Annars staðar eru hlutirnir ekki eins afmarkaðir eða skýrir af hálfu ríkisins og við sjáum að mjög margir sækjast frekar eftir því að komast inn á Sóltún en á aðrar stofnanir. Það er jafnframt umhugsunarefni að hér eru aðilar sem veita hjúkrunarþjónustu eða öldrunarþjónustu án nokkurs samnings við ríkið, fá greitt samkvæmt daggjöldum eða einhverjum slíkum ákvörðunum. Þeir geta stundum safnað í sjóði og þegar ráðist er í nýbyggingar eiga þessar stofnanir eða fyrirtæki mikla peninga í sjóði. Það hlýtur að vekja upp spurningar um hvort það séu þá ekki peningar sem áttu að fara í þjónustu við vistmennina og hvort vistmenn hafi fengið alla þá þjónustu sem ríkið borgaði fyrir? Þær spurningar eru auðvitað áleitnar, virðulegi forseti, og ég held að stofnunin í 18. gr. sem hefur það hlutverk að annast samningana, hljóti að vera framfaraspor.