135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að keppikeflið hjá Landspítalanum nú um stundir sé að fá meira fjármagn. Landspítalinn hefur sætt ítarlegum úttektum af hálfu Ríkisendurskoðunar. Heilbrigðisráðuneytið hefur átt í samningaviðræðum við Landspítalann og forsvarsmenn hans hafa sýnt fram á að lengra verður að sinni ekki haldið áfram á niðurskurðarbrautinni.

Framleiðniaukning, eins og ég vék að í máli mínu áðan og vísaði í úttekt Ríkisendurskoðunar frá 2005, hefur verið viðvarandi ár frá ári og nú segja forsvarsmenn sjúkrahússins að lengra verði ekki gengið, nú fari þetta að ganga út yfir sjúklinga og að álagið á starfsfólk sé orðið óviðunandi.

Er hv. formaður heilbrigðisnefndar, Ásta Möller, ekki sannfærð um að þessi málflutningur sé réttur hjá sjúkrahúsinu, forsvarsmönnum spítalans? Stöndum við ekki frammi fyrir því núna að reyna að sannfæra Alþingi og stjórnarmeirihlutann um að veita meira fjármagn til sjúkrahússins? Er það ekki stóra og brýnasta málið núna?

Ég fagnaði því þegar hv. þingmaður kvaddi sér hljóðs í gær og tók undir með þeim sem ekki vilja láta skerða heimahjúkrun. Það var gott. En vill hún ekki taka undir með forsvarsmönnum Landspítalans núna? Það er það brýnasta sem þeir standa frammi fyrir núna, hvernig sem við förum að því að semja síðan við sjúkrahúsið, að fá meira fjármagn. Hver er afstaða hv. þm. Ástu Möller, formanns heilbrigðisnefndar Alþingis, til óska Landspítalans um meira fjármagn á komandi fjárlagaári? Get ég fengið svör?