135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi andsvör eru til þess að ég fái svör frá hv. þingmanni varðandi hugleiðingar hans. Ég get hins vegar sagt að það er verið að færa inn í Landspítalann með fjáraukanum 1,8 milljarða kr. Í fjárlögum er verið að auka fjármagn til Landspítalans um 1 milljarð kr. (Gripið fram í.) Já. (Gripið fram í.) Nei, við 2. umr.

Síðan er verið að styrkja bæði sjúkrahúsið á Akureyri og hin svokölluðu kragasjúkrahús til þess að taka við verkefnum af Landspítalanum, til að létta álagi af Landspítalanum þannig að honum verði gert kleift að sinna þeim sérhæfðu verkefnum sem hann einn getur sinnt. Það er það sem hefur verið að gerast, hafi það farið fram hjá hv. þingmanni.

Hins vegar eru þær breytingar sem hv. þingmaður ræðir um og telur vera mjög djúpstæðar ekki djúpstæðari en svo að Tryggingastofnun ríkisins hefur um árabil haft með höndum samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Heilbrigðisráðuneytið hefur gert þjónustusamninga við hinar ýmsu stofnanir þannig að með hinni nýju stofnun erum við að færa þessa sérþekkingu og þessi verkefni yfir til nýrrar stofnunar.

Ég hef hvorki orðið vör við að hv. þingmaður hafi haft á móti því að Tryggingastofnun hafi haft á höndum þessi verkefni né það að heilbrigðisráðuneytið geri samninga við ýmsa aðila um verkefni fyrir heilbrigðisþjónustuna.

Ég átta mig ekki á því hvað veldur því að hv. þingmaður fer svona hátt í andstöðu sinni gagnvart því að sett verði á laggirnar ný stofnun sem yfirtaki þessi verkefni. Er það bara gamla prinsippið að vera á móti sem gerir það að verkum að hv. þingmaður hefur svona á móti þessari stofnun?