135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[11:29]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit bera forsvarsmenn stofnana ábyrgð á rekstri sínum. Ég held að flestir, í það minnsta í þessum sal sem hafa tekið þessa umræðu, séu sammála um að það eigi að nýta kosti einkareksturs þar sem það er skynsamlegt — ef undan eru skildir einstaka bókstafstrúarmenn í Vinstri grænum. Það er það sem menn hafa gert, bæði hérlendis og annars staðar. En það að sá sem hér stendur hafi farið fram á það að einkavæða ætti allt sem hægt væri að einkavæða hefur aldrei verið sagt. Aldrei nokkurn tíma.

Það er þannig með hv. þingmann, því miður, að hann ákveður bara að segja ákveðna hluti og segir þá nógu oft. Hann hefur sagt hvað eftir annað í umræðunni að það sé búið að skera niður í fjárlögum. Hv. þingmaður veit að það er ekki rétt. Það er bara ekki rétt. Þetta hefur aukist jafnt á milli ára. Það var tekið sérstaklega — af því að hann var að vitna í ýmsar stofnanir — í fjáraukalögum og fjárlögum núna með því að bæta í. Samt sem áður segir hv. þingmaður aftur og aftur: Það er verið að skera niður. Oft og tíðum segir hann það mjög hátt — en það er bara ekki rétt.

Það hvarflar ekki að mér, virðulegi forseti, að hv. þingmaður viti það ekki. Hv. þingmaður segir að ég fái hér einhvern óútfylltan tékka. Hann samþykkti lög um heilbrigðisþjónustu þar sem ráðherra fær þetta umboð, samningaumboðið. Hann samþykkti lög þar sem landlæknir fær eftirlitshlutverk. Hér er ekkert að breytast í eðli sínu hvað það varðar. Alveg hreint og klárt er ekkert að breytast. Þetta allt veit hv. þingmaður en hann kýs (Forseti hringir.) að leggja málið upp með allt öðrum hætti.