135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:08]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur varpað fram nokkrum spurningum til talsmanna Samfylkingarinnar. Nú er ég ekki talsmaður Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum þó að ég hafi að vísu víðtæka reynslu í málaflokknum eftir að hafa verið formaður heilbrigðis- og trygginganefndar í fjögur ár.

Almennt um efni frumvarpsins er það að segja að það er lagt fram eftir að hafa verið samþykkt í ríkisstjórn Íslands og sömuleiðis eftir að um það hefur verið fjallað í þingflokki Samfylkingarinnar. Það liggur algjörlega klárt fyrir að Samfylkingin er ekki með einkavæðingu en hún gerir skýran greinarmun á einkavæðingu annars vegar og einkarekstri hins vegar. Samfylkingin segir það alveg klárt og kvitt að þær breytingar sem kynnu að verða gerðar á rekstrarformi einhverra hluta heilbrigðisþjónustunnar mega ekki hafa það í för með sér að sjúklingar geti ekki notið þjónustunnar vegna þess að efnahagur meini.

Það er grundvallarskilyrði, að við höfum áfram þann opna aðgang að heilbrigðisþjónustunni sem er hér á Íslandi. Þar um breyta engar stofnanir eða annað slíkt. Þetta er bara prinsippafstaða. Henni fylgir Samfylkingin og hv. þingmaður ætti að vera búin að læra það á sex mánuðum að Samfylkingin fylgir því sem hún segir og væri hægt að rifja upp mörg mál, t.d. umhverfismál því til staðfestu. Ekki fer ég í það hér.

Að því varðar svo spurningarnar um niðurskurð á heilsugæslu hér í Reykjavík, þá liggur það einfaldlega fyrir að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að það verði ekkert af þessum 550 millj. kr. niðurskurði. Í öðru lagi liggur fyrir að þar var um að ræða hugmyndir sem aldrei hafa verið samþykktar af stjórn heilsugæslunnar og ekki einu sinni ræddar í stjórn heilsugæslunnar.

Ekki veit ég hvaðan þær hugmyndir hafa komið en í öllu falli þá var á þeim mikill flautaþyrilsbragur og sá sem hefur komið því til fjölmiðla hafði ekkert umboð til þess að halda því fram að þarna væri um stefnu stjórnvalda að ræða. Svo er ekki.