135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:39]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek mjög afdráttarlaust undir orð hæstv. ráðherra um ágæti þess fólks sem starfar og þeirrar starfsemi sem fer fram á heilbrigðisstofnunum þessa lands. Og ég fullyrði að fólkið sem þar vinnur gerir það af því það langar til og vill gera það, og gera það vel, en ekki í anda kaupskapar eða markaðsbúskapar eins og þetta frumvarp hér boðar. Það gerir það ekki vegna þess að það sé að spekúlera í hvað það fái í krónum og aurum fyrir hvert viðvik sem það gerir. Það gerir það vegna þess að þetta er heilbrigðisþjónusta, það gerir það af því að við erum öll sammála um að halda uppi öflugri, metnaðarfullri heilbrigðisþjónustu sem við gerum án þess að horfa til kaups og sölu.

Hvað stendur í þessari ágætu grein sem ég var að segja frá? Ég skora á hæstv. ráðherra að kalla hana aftur því að ég held að það sé meira í anda þess sem hann sagði hér áðan.

Hér stendur einmitt, með leyfi forseta:

„Starfrækja skal stofnun undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem hefur m.a. það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu …“

Hvað orð er sett fyrst? Kaup, markaðsbúskapinn í heilbrigðisþjónustuna.

Ég vara við þessari nálgun. Hún er galopnun á hliðinu til einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni. (Iðnrh.: … þjónustu í stað …) Já, en það er ekki sama hvaða hugarfar er að baki. Hugarfarið í heilbrigðisþjónustunni er ekki kaup og sala, það er heilsugæsla og metnaður fyrir öflugri og góðri heilsugæslu til lengri tíma, grunnheilsugæslu, en ekki lögmál markaðarins eins og á að fara að leiða inn í (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustuna með þessari grein.