135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við tökum til við að ræða á nýjan leik bandormsfrumvarpið sem svo er kallað, stóra bandorminn um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Þetta mál á sér forsögu, eins og allir þekkja. Hæstv. ríkisstjórn varð til á giska skömmum tíma, sérstaklega ef taka á trúanlegt að ekki hafi verið búið að undirbúa fæðinguna bak við tjöldin. En hvað sem því líður varð ein af niðurstöðum stjórnarflokkanna við að mynda ríkisstjórn sú að boða breytingar á Stjórnarráðinu. Síðan hefur komið á daginn að það var harla lítið útfært. Menn gáfu sér niðurstöðuna fyrir fram og fóru síðan að skoða leiðir til að komast að því marki. Vinnulag af því tagi er aldrei mjög farsælt.

Þar urðu einfaldlega valdapólitísk hrossakaup í fámennri klíku stjórnarflokka og aðallega munu formenn flokkanna hafa vélað um þau, a.m.k. heldur hv. þm. Guðni Ágústsson því stíft fram og telur sig hafa heimildir fyrir því að þetta hafi verið kokkað í ákaflega þröngum hóp og inn á milli kossanna á Þingvöllum hafi samkomulagið orðið til milli þeirra tvímenninga, formanns Samfylkingar og formanns Sjálfstæðisflokks, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra.

Þetta er nokkuð athyglisvert af þeim sökum að í gegnum tíðina hafa menn litið svo á að málefni Stjórnarráðsins, verkaskipting og skipulag þar, væri tiltölulega miðlægt í stjórnskipun okkar og lagasafni. Því hafa menn ógjarnan farið á flot með slíkt nema að reyna að undirbúa það vel og skapa um það eins mikla pólitíska samstöðu og mögulegt hefur verið.

Það má upplýsa, enda opinbert, að nokkrum mánuðum fyrir síðustu þingkosningar þreifaði hæstv. forsætisráðherra á því að þingflokkarnir sem þá sátu á þingi og flokkarnir á bak við þá gætu hugsað sér að gera tilteknar breytingar á skipan Stjórnarráðsins fyrir kosningar, m.a. með þeim rökum að gott gæti verið að ganga frá slíku og það lægi fyrir, vonandi í góðri sátt allra stjórnmálaflokka í landinu, þannig að það gerðist ekki sem nú hefur gerst, að skipan mála innan Stjórnarráðsins yrði viðfangsefni í stjórnarmyndunarviðræðum, bitbein í hrossakaupum flokka um ráðherrastóla, völd og tignarsæti.

Það reyndust ekki forsendur til þess enda fannst mönnum málið viðameira en svo að hægt væri að klára það á skömmum tíma, rétt fyrir kosningar. Hins vegar komu fram ýmis gagnleg sjónarmið. Ég ætla ekki að taka að mér að rekja það fyrir annarra hönd en sjálfs mín, sem átti nokkra fundi með formönnum hinna stjórnmálaflokkanna á þessum tíma þar sem ýmislegt var undir, m.a. sú löggjöf sem nú hefur verið sett um fjármál flokka sem var tvímælalaust framfaraskref í lýðræðisþróun okkar, til að fyrirbyggja að stjórnmálin væru jafnberskjölduð fyrir þrýstingi og áhrifum utan frá, peningaafla sem gætu róið á þau mið að gera stjórnmálin sér háð í gegnum fjárstuðning. Þess vegna voru þau ágætu lög sett og í kringum þau mál áttu formenn flokkanna ágætt samstarf. Málið var auk þess undirbúið af þverpólitískri nefnd með fulltrúum allra flokka og það starf sýndi og sannaði að um slík mál getur tekist gott samkomulag. Það getur verið til farsældar og góðs fyrir alla að vinna þannig að málum.

Hins vegar varð minna úr aðgerðum þegar kom að öðru, svo sem endurskoðun stjórnarskrárinnar sem mikið hafði verið unnið að. Sama gilti um þetta mál, að fara út í uppstokkun á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Fljótlega kom í ljós að menn töldu það mál þurfa meiri tíma, það væri stærra mál en svo. Gamalkunn hugmynd eins og að sameina málefni atvinnuveganna í eitt ráðuneyti, sem er falleg hugmynd sem hljómar vel og er í grunninn rétt nálgun að flestra dómi, er um leið gríðarstórt verkefni, eigi að gera það vandlega, faglega og yfirvegað. Þess vegna er það dæmalaust dapurleg og sorgleg niðurstaða að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skuli leggja upp með eitt af sínum stóru viðfangsefnum á þann hátt sem raun ber vitni, að þvinga inn á dagskrá Alþingis í vor, með afbrigðum gegn mótmælum stjórnarandstöðunnar, breytingu á þingskapalögum og rjúfa hefðir um að leita a.m.k. fyrst eftir samstarfi og láta reyna á möguleika flokkanna til að ná saman um þessa hluti. Það á auðvitað að vera algerlega sjálfsögð og ófrávíkjanleg regla.

Að mínum dómi eiga grundvallarleikreglur eins og stjórnarskráin sjálf, kosningalög í landinu, þingsköpin og að mörgu leyti einnig skipan Stjórnarráðsins að kalla á að menn leggi mikið á sig til að ná samstöðu um breytingar. Það er ekki nýtt að á það sé bent og menn hafa gegnum tíðina jafnan talið sjálfgefið að þannig ætti að standa að málum.

Það sem mér finnst einna nöturlegast fyrir Sjálfstæðisflokkinn er hvernig hann fer með arfleifð sína og fyrri foringja sinna í þeim efnum, hvernig vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins og hæstv. forsætisráðherra, sem hefur forgöngu um málið, eru í hrópandi mótsögn við það sem miklir leiðtogar þess flokks á síðustu öld lögðu grunninn að. Þá tala ég auðvitað fyrst og fremst um Bjarna Benediktsson, fyrrv. hæstv. forsætisráðherra sem, eins og kunnugt, er átti góðan hlut að máli þegar málefnum Stjórnarráðsins var komið í fast og skipulegt horf upp úr miðbiki síðustu aldar. Það var gert með því að Bjarni Benediktsson flutti tillögu á þingi 1958 um endurskoðun löggjafar um Stjórnarráð Íslands og fékk hana samþykkta. Hvernig lagði hann til að farið yrði í málið? Jú, með því að Alþingi kysi hlutfallskosningu fimm menn til að endurskoða lög um Stjórnarráðið og gera tillögur um skipan ráðuneyta og skiptingu starfa á milli þeirra. Niðurstaðan varð löggjöfin um Stjórnarráðið sem við búum enn við í öllum aðalatriðum. Festa komst á nýjan leik í málefni Stjórnarráðsins og menn hættu þeim handahófskennda flutningi verkefna og viðfangsefna fram og til baka innan Stjórnarráðsins við ríkisstjórnarmyndanir eins og orðinn var plagsiður áður en lögin voru sett á sínum tíma, einmitt vegna þess að menn sáu að slíkt var ófæra. Miklu meiri festa þarf að vera í málefnum stjórnsýslunnar en svo að hún megi verða bitbein og viðfangsefni í valdapólitískum kapli eða hrossakaupum við stjórnarmyndun en það er nákvæmlega það sem gerst hefur nú, því miður. Lögin um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, hafa ekki tekið neinum umtalsverðum breytingum fyrir utan það að umhverfisráðuneyti var stofnað. Þeim var breytt með lögum nr. 197 á vorþinginu síðasta og aðalefnisbreytingin þá var að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin voru sameinuð frá og með 1. janúar nk. og Hagstofu Íslands var breytt úr ráðuneyti í ríkisstofnun. Síðan kemur sú sortering viðfangsefna sem þingið er með í höndunum nú og leiðir af hinu.

Öll vinnan að málinu hefur þann ljóta svip á sér að hún er ákveðin með þeim hætti sem ég hef farið yfir. Engin minnsta tilraun er gerð til að kalla alla stjórmálaflokka og alla þingflokka að borði til að láta á það reyna hvort einhver samstaða gæti verið um slíkar breytingar. Um stóran hluta þessara mála gæti annars skapast ágæt sátt. Til dæmis hefur ekki verið tekið vel í að færa málefni aldraðra til félagsmálaráðuneytisins. Margoft áður hefur komið fram að verkefni heilbrigðisráðuneytisins væru ærin þótt tryggingamálin væru þar ekki með, hinn almenni hluti. Reyndar hefur sá sem hér stendur iðulega flutt um það tillögu að skoðað yrði sérstaklega að sameina í einu ráðuneyti öll almannatrygginga-, lífeyrisréttinda- og atvinnuleysistryggingamál sem yrði þá að vísu víðtækari og meiri sameining en hér er lögð undir. Það hefði augljósa kosti sem ég held að allir sjái þegar kemur að því að skoða víxlverkun kerfanna og leita leiða til að draga úr jaðaráhrifum og annað í þeim dúr. Ég mun fara aðeins betur yfir það síðar í máli mínu hvaða hugmyndir einkum ég og flokkur minn höfum haft í þeim efnum því að auðvitað er okkur skylt að koma því á framfæri um leið og við gagnrýnum það sem við erum ósátt við í málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar.

Athyglisvert er að þegar Bjarni Benediktsson flutti tillögu sína 1958 var hann í stjórnarandstöðu. Þó voru menn nógu stórir á þeim tíma til að láta málið ekki gjalda þess að frumkvæðið kom frá stjórnarandstæðingi og tillagan var samþykkt, endurskoðunarstarfið fór af stað og skilaði lögunum árið 1969. Ekki var kastað til höndunum, menn tóku sér áratug í endurskipulagningu Stjórnarráðsins sem þarna varð að veruleika. Flutningsmaður og framsögumaður með tillögunni, Bjarni Benediktsson, lagði m.a. áherslu á hversu mikilvægt það væri að skapa samstöðu um viðfangsefnið. Hann fór yfir það í framsögu sinni að sá hringlandaháttur og los sem verið hafði á málunum væri skaðlegt. Bjarni sagði að þarna vantaði heildarlöggjöf og að tímabært væri, eftir að innlent ráðuneyti væri búið að vera við lýði í meira en hálfa öld, að slík heildarlöggjöf væri sett. Hann dró ekki dul á að ákaflega mikilvægt væri að öll vinnan væri vönduð og reynt væri að skapa um hana sátt, eins og þarna segir. Hann taldi líklegra til árangurs að taka málið upp í samstarfi allra flokka en að ríkisstjórn á hverjum tíma þröngvaði fram sínum vilja. Síðan kæmi næsta stjórn sem gerði breytingar í takt við pólitískar þarfir eða af einhverjum hagkvæmnisástæðum sem þá kynnu að koma upp.

Ég held því fram að hvað vinnubrögðin og aðdraganda málsins varðar sé augljóst að lítið fer fyrir arfleifð Sjálfstæðisflokksins í þessum málum og hann er ekki metnaðarfullur gagnvart sögu sinni að því leyti. Hvað efnisatriði frumvarpsins varðar held ég að sú opna heimild til að sameina ráðuneyti án atbeina Alþingis sé ekki skynsamleg. Ég tel að ákveða eigi hlutina á Alþingi með lögum og að ekki sé eðlilegt að menn geti stofnað eða sameinað ráðuneyti öðruvísi en atbeini Alþingis komi til. Með það á ekki að hringla, það þarf að vera stjórnfesta í þeim efnum. Vanda á undirbúning allra breytinga og vinna þær faglega en ekki með þeim hætti sem nú á að fara að gera. Það er ákaflega dapurlegt að horfa upp á að málið kemur í bútum og pörtum, byrjað var á því í fyrravor, svo koma einhver atriði fram hér og í þessum plöggum eins og frumvarpið sem var til umræðu fyrr í dag. Beinlínis er sagt að málið sé ekki tilbúið, það muni taka mestallan hluta næsta árs, ef ekki lengur, að undirbúa breytingarnar. Þær komi svo til framkvæmda í áföngum eftir atvikum. Í staðinn fyrir að byrjað sé á algerlega öfugum enda þarf að leggja grunninn með vandaðri undirbúningsvinnu og þeir hafðir með í ráðum sem við eiga að búa. Málið er unnið ofan frá og niður eftir tveggja manna ákvörðun, tveggja manna fundi, og síðan á að reyna að koma því til framkvæmda. Málið er sem sagt ekki unnið úr grasrótinni með og af því fólki sem síðan á að vinna störfin samkvæmt hinu nýja skipulagi. Það er dapurlegt að fullyrðingar í athugasemdum með frumvarpinu um að frumvarpið sé unnið á grundvelli víðtæks samráðs við þær stofnanir sem eiga í hlut, reynast vera fleipur eitt. Maður veltir fyrir sér hvort það fari að verða lenska að mönnum sé alveg sama hvað þeir setja í greinargerð með stjórnarfrumvarpi. Bera megi þar á borð hvaða þvætting sem er sem afsannast rækilega í umfjöllun Alþingis um málið. Menn eru ekki mjög metnaðarfullir gagnvart lögskýringargögnum sem þeir leggja á borðið með sér í greinargerðum stjórnarfrumvarpa. Það hefur svo sem áður komið fyrir að staðið hafa hlutir sem ekki hefur verið gert mikið með og svikin loforð í slíkum plöggum. Mér finnst bíræfið að fullyrða að allt sé gert á grundvelli víðtæks samráðs og með því er auðvitað verið að reyna að gefa í skyn að góð sátt sé um málið þegar allt annað kemur á daginn. Ekki er haft samráð við þær fjölmörgu stofnanir sem ganga munu gegnum heilmiklar breytingar hvað snertir viðfangsefni og stjórnskipulega stöðu. Nægir þar að vísa til fjölmargra umsagna sem hér hafa komið inn og reyndar hefur þegar verið farið yfir í umræðunni að einhverju leyti af framsögumanni minni hlutans, hv. þm. Atla Gíslasyni.

Stólaskiptamál Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ber sem sagt að með þessum hætti og ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs, það sé ekki til farsældar, það muni ekki teljast mikil tímamótabreyting, enda er það hálfkarað á ýmsan hátt. Það er farið hálfa leið í áttina að því að stofna atvinnuvegaráðuneyti með því að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Margir upplifa það þannig að fyrst og fremst sé verið að leggja landbúnaðarráðuneytið niður. Til að bjarga því fyrir horn var að vísu ráðinn ákaflega mætur ráðuneytisstjóri inn í ráðuneytið sem hefur góða þekkingu á landbúnaðinum en það dregur skammt ef menn upplifa það að öðru leyti þannig að landbúnaðurinn sé settur algerlega til hliðar.

Af hverju þurfti hæstv. ríkisstjórn að gera þetta svona úr því að hún var orðin til? Var það virkilega vegna þess að Samfylkinguna vantaði ráðherrastóla? Jafna þurfti pólitískt á klyfjunum milli stjórnarflokkanna og eru menn þá komnir — hvað eigum við að segja — 45–50 ár aftur í tímann og farnir að leika sér með viðfangssefni Stjórnarráðsins af pólitískum geðþótta og hentugleikum sem kapli í stjórnarmyndun? Það er spurningin. Dýr mundi Hafliði allur, þau verða býsna dýr, ráðherrasætin undir þá sem söguðu stólinn í tvennt og sitja hvor á sínum helmingnum, hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson og hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin Sigurðsson. Í raun og veru er það svo langt frá því að vera sú faglega og heildstæða endurskipulagning á Stjórnarráðinu sem maður hefði vonast til að ráðist yrði í, færu menn að hreyfa þessa hluti til á annað borð.

Einnig er dálítið umhugsunarefni að ríkisstjórnin sagði í stefnuyfirlýsingu sinni — það vantar ekki að hún er býsna fallega orðuð, það er ýmislegt mjög göfugt sett þar á blað, þar á meðal vilji stjórnarflokkanna til þess að rækta gott samstarf í allar áttir. Lofað er lýðræðislegum og faglegum vinnubrögðum og samráði um ýmsa hluti, t.d. um öryggis- og varnarmál. Búið er að lofa samráðsvettvangi í á annað ár og í stjórnarsáttmála er það tekið fram en ekkert bólar á efndunum. Nú er forsætisráðherra kominn á harðahlaupum frá loforðunum og farinn að skjóta sér á bak við að einhvern tíma í framtíðinni muni verða sett á fót stofnun eða rannsóknarstöð og þá sé upplagt að efna loforðið í leiðinni, einhvern tíma í fyllingu tímans. Ef minni mitt svíkur ekki — ég játa það fúslega að ekki kann ég stjórnarsáttmálann utan að — þá er á einhverjum stað lofað góðu samstarfi við stjórnarandstöðu og þingræðislegum og lýðræðislegum vinnubrögðum. Maður skyldi þá ætla að það ætti ekki síst við í tilvikum sem þessum. Það stendur einmitt hér á fyrstu síðu, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess.“

Það hljómar fallega en okkur finnst ýmsum að við höfum upplifað ýmislegt annað í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar strax frá fyrstu dögum. Það byrjar illa með stjórnarráðsfrumvarpinu sem knúð var á dagskrá Alþingis með afbrigðum sem ríkisstjórnin og meiri hluti hennar geta veitt sér sökum fjölda síns inni á þingi. Ekki stóð í þeim að taka ákvörðun um að beita þeim afbrigðum í fyrsta sinn, mér liggur við að segja í þingsögunni. Ég held að þess séu ákaflega fá dæmi nema þegar hér sat þjóðstjórn, að menn hafi haft svo sterkan meiri hluta að þeir hafi í krafti hans getað vikið þingsköpum til hliðar og afgreitt mál á færibandi í gegnum þingið án tilskilins tímafrests milli umræðna og annars í þeim dúr.

Hvar eru efndir á því fallega fyrirheiti um gott samstarf við alla flokka á Alþingi þegar kemur að stjórnarráðsmálinu? Þær eru minni en engar. Lagt var upp með málið frá byrjun sem algerlega einhliða leiðangur ríkisstjórnarinnar, hluti af myndun hennar og ekki rætt við aðra flokka með neinum hætti. Það er þvert á góðar venjur og hefðir og meira að segja þvert á arfleifð a.m.k. Sjálfstæðisflokksins í þeim málum. Samfylkingin á að sjálfsögðu ekki sams konar sögu með beinum hætti en hefur þó oft talað fjálglega um lýðræði, lýðræðisást, samræðustjórnmál og hvað það allt heitir þegar vel liggur á Samfylkingunni, t.d. ef hún er stödd í Borgarnesi eða einhverjum öðrum vel völdum stað þar sem þykir við hæfi að flytja miklar ræður.

Lagði Samfylkingin eitthvað af mörkum í þeim efnum? Nei, ekki hefur orðið vart við það. Samfylkingin lötrar götuna á eftir forsætisráðherra sem hefur frumkvæði í málinu og ber það inn í þingið eins og það er búið, eða vanbúið öllu heldur, og óunnið á ýmsan hátt, frumvörp ekki komin fram einu sinni, sum þeirra sem tengjast breytingunum, og önnur eru hálfköruð til umfjöllunar. Engin fagleg greining, heildarúttekt eða þarfagreining er á því hvernig best væri að endurskipuleggja Stjórnarráðið með hliðsjón af nútímaaðstæðum í stjórnmálum. Það er varla von því að það var ákveðið á örfáum klukkutímum af tveimur manneskjum. Það hefur varla byggt á mjög djúpri skoðun, rannsókn eða dreifingu á málinu. Að sumu leyti held ég að menn séu því miður fastir í gömlum hugmyndum, jafnvel áratuga gömlum hugmyndum, um hvað gæti verið æskilegt að gera í sambandi við breytingar á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Aðrar hugmyndir sem ég hefði viljað sjá eru ekki teknar hér með.

Það er t.d. mjög merkilegt að í utanríkis- og alþjóðamálum, þeim málaflokki sem að mörgu leyti hefur vaxið umfram alla aðra á síðustu árum og Alþingi, Stjórnarráðið og framkvæmdarvaldið fara ekki varhluta af, eru engar breytingar lagðar til. Ég hefði t.d. haldið að ekki síst væri þörf á að fara vandlega yfir það. Kalla gjörbreyttar aðstæður í utanríkis- og alþjóðamálum, frá því sem var fyrir um hálfri öld síðan, ekki á rækilega greiningu á því hvort endurskipuleggja eða stokka þurfi upp öll þau fjölþættu og miklu viðfangsefni, sem núna heyra undir utanríkisráðuneytið eða það málasvið? Það er sjálfsagt ekki óskaplega vinsælt og menn halda trúlega að þeir fái ekki mörg atkvæði út á að tala um að fjölga ráðuneytum því að hin tískan hefur verið mjög uppi, að fækka ráðuneytum. Ef til vill á að telja mönnum trú um að í því felist einhver stórkostlegur þjóðhagslegur sparnaður, eins og það muni eitthvað um laun tveggja til fjögurra ráðherra til eða frá í 400–500 milljarða veltu ríkisins, það er eins og hver annar brandari.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki sé tímabært að skipta utanríkisráðuneytinu upp, einfaldlega vegna þess að það er orðið svo gríðarlega viðamikið málasvið. Einn ráðherra á að sinna öllum þeim fjölmörgu og krefjandi verkefnum sem fylgja starfinu í hnattvæddum heimi nútímans og stóraukinni alþjóðasamvinnu af öllu tagi og því held ég að alveg tímabært sé að ræða skiptingu ráðuneytisins. Til greina koma tvær leiðir, annaðhvort að skipta ráðuneytinu beinlínis upp, að stofna embætti vara- eða aðstoðarutanríkisráðherra eða einfaldlega, eins og sumar aðrar þjóðir hafa gert, að setja tvo menn til verka í ráðuneytinu og þeir skipti með sér verkum. Það er gert í stórum ráðuneytum í nágrannalöndunum sem við berum okkur saman við, á hinum Norðurlöndunum. Þar er ekki óalgengt að í tveimur, þremur viðamestu og þyngstu ráðuneytunum séu tveir menn, t.d. tveir fjármálaráðherrar, eins og ég hygg að hafi verið í Finnlandi. Annar fer þá meira með ríkisfjármál og hreina fjárlagagerð, hinn fer meira með efnahagsmál og skattamál og þætti því tengda. Utanríkisráðuneyti er sums staðar skipt upp. Alþekkt er að tveir eða jafnvel fleiri ráðherrar með ráðherrastöðu í alþjóðasamskiptum fari með þau mál. Þannig hefði mjög gjarnan mátt hugsa sér að hin klassísku utanríkismál væru hér, utanríkisþjónustan og þess vegna utanríkis- og öryggismál saman. Síðan væru málefni þróunarsamvinnu, þróunarhjálpar, samskipti við alþjóðastofnanir, alþjóðasamningagerð, utanríkisviðskiptaþátturinn og fleira í þeim dúr annaðhvort í höndum annars ráðherra eða í öðru ráðuneyti. Ætli það væri ekki ærið verkefni fyrir tvo fullfríska ráðherra að sinna því og öllum þeim utanferðum og verkefnum sem því tengjast.

Skiptingin sem ég talaði um er mér ekkert sérstakt kappsmál og ég legg hana ekki til með beinum hætti hér. Þetta svið virðist hins vegar ekki hafa verið skoðað. Þess vegna segi ég að mér finnst að sumu leyti vera forneskjulegur blær á þeim tillögum sem hér komu inn.

Með atvinnuvegaráðuneytið held ég að ekki sé gott að fara þar hálfa leið og kannski varla það, stoppa þar og setja atvinnugreinarnar í þær aðstæður sem þær verða. Í einu tilviki er í raun og veru um hreint atvinnuvegaráðuneyti að ræða þar sem landbúnaður og sjávarútvegsvandi eru en svo fá aðrar burðaratvinnugreinar í landinu eins og ferðaþjónustan allt aðra meðhöndlun. Þeim er bara hent á milli, skutlað inn í nýtt ráðuneyti. Jú, segja má að þær geti ágætlega átt þar heima en fá ekki samt titil, sem ég held að önnur til þriðja stærsta gjaldeyrisatvinnugrein landsmanna verðskuldaði alveg, grein sem er farin að vega jafnþungt í þjóðarbúskap okkar og ferðaþjónustan gerir. Hún hefur sennilega meiri vaxtarmöguleika inn í framtíðina en velflest, ef ekki allt annað, sem við horfum til sem mögulegra undirstöðugreina í atvinnumálum á komandi árum og áratugum.

Ég held að heildstæð úttekt, greining og fagleg nálgun úr grasrótinni með því fólki sem vinnur störfin, hefði dregið fram í dagsljósið allt aðrar áherslur en tveggja manna samkomulag á örfáum klukkutímum á Þingvöllum gat nokkurn tíma búið til. Þar var byrjað algerlega ofan frá og pólitískar ákvarðanir teknar um hlutina. Svo er farið að reyna að skoða það í framkvæmd og það gengur eins og raun ber vitni. Því er ranglega haldið fram og hrakið að um það hafi verið haft víðtækt samráð og þar fram eftir götunum.

Það er einnig til marks um hversu hrátt það er, að allt sem heitir kostnaðarmat eða kostnaðargreining er út í loftið, að hlutirnir þurfi ekki að kosta neitt. Dæmi um það eru hinn viðamikli sundurdráttur á verkefnum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og tilkoma nýrrar innkaupastofnunar, verslunarmiðstöðvar um heilbrigðismál, verslunarmiðstöðvar um sjúklinga sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að koma á fót. Það er alveg með endemum að einhverjum skuli detta í hug að reyna að telja okkur trú um að það muni ekki kosta neitt, að hægt sé að gera það einungis með tilfærslu. Ég veit ekki hvar meiri hlutinn er á vegi staddur í skoðun sinni á þeim málum. Til dæmis væri fróðlegt að vita hvað fjárlaganefnd — sem auðvitað hefur verið önnum kafin við fjárlagagerðina fyrir komandi ár, en það ætti að hafa verið uppi á borðum þar og trúlegt að menn hafi reynt að líta á það. Gaman væri að vita hvað hún treystir sér til að segja um kostnaðarmat fjárlagaskrifstofunnar á heilbrigðis- og tryggingafélagsmálafrumvarpinu sem var til umræðu fyrr í dag. Hefur fjárlaganefnd tekið það fyrir? Hefur hún farið yfir hvort hún sé sammála fjármálaráðuneyti um að hægt sé að gera þetta fyrir ekki neitt? Ég hef aldrei heyrt um að hægt væri að stofna heila ríkisstofnun, ráða forstjóra og setja stjórn og ráða þangað starfsmenn og það þyrfti ekki að kosta neitt. Jafnvel þó að ætlunin væri að hún tæki við verkefnum frá öðrum þá hef ég aldrei vitað annað en að slíkar mannabreytingar þýði alltaf kostnað vegna þess að menn eiga tiltekinn rétt í slíkum tilvikum. Sumir eru þannig staddir á sinni starfsævi að þeir eiga kannski rétt á því að láta af störfum, fá biðlaun og annað í þeim dúr og þau verða ekki greidd af engu.

Auðvitað vita allir að þegar að því kemur að leysa húsnæðismál, allt sem lýtur að tölvum og búnaði og annað í þeim dúr, er óumflýjanlegt að því fylgi kostnaður. Það er til marks um hversu fullkomlega hrátt, vanbúið og illa unnið málið er og eru góð rök fyrir því að fresta afgreiðslu þess. Ég held að hæstv. ráðherrar ættu að láta sig hafa það að sitja eins og þeir sitja, a.m.k. í hálft ár ef ekki eitt ár í viðbót. Það væri miklu skárri kostur heldur en reyna að klúðra þessu saman. Hver er virðingin sem menn sýna viðfangsefnunum sem að baki liggja ef staðið er þannig að málum? Hún er ekki mikil. Við vitum t.d. alveg að sveitarstjórnarmálin hafa verið munaðarlaus síðan í vor. Mér er sagt að það hafi nánast ekki sést ráðherra neins staðar á þeim vettvangi þar sem venjan er að ráðherrar sveitarstjórnarmála láti sjá sig, bæði innan lands og utan af því að málaflokkurinn munaðarlaus. (BÁ: Er ekki rétt klára málið?) Fráfarandi ráðherra sveitarstjórnarmála. Ef legið hefði fyrir að breytingin gerðist ekki fyrr en að vönduðum undirbúningi undangengnum á tilteknum tímapunkti inni í framtíðinni hefðu menn væntanlega sinnt hlutunum betur og ekki hefði komið til þess ruglástands sem núna hefur verið uppi. Það eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem skapa það og menn líta svo á að veigamiklir málaflokkar eins og sveitarstjórnarmál geti bara legið einhvers staðar munaðarlausir á meðan. Auðvitað er það fyrir neðan allar hellur. Það eru ekki rök, hv. þingmaður, sem gleður mig með smáframmíkalli, hv. þm. Birgir Ármannsson, að klára málið bara vegna þess að ríkisstjórnin er búin að koma því í þvílík óefni sem raun ber vitni. Það er svo sem alveg skiljanlegt að önnum kafnir ráðherrar sem sjá á eftir einhverjum viðfangsefnum út úr ráðuneytum sínum slíti sér ekki beinlínis út við þau á lokasprettinum. Nýi ráðherrann sem á að fá þau til sín er umboðslaus þangað til breytingin er gengin í gegn þannig að það er ekki heppilegt ástand.

Ég lofaði, herra forseti, að gera aðeins grein fyrir því hvað við í þingflokki Vinstri grænna höfum verið að skoða í þessum efnum. Bæði höfum við gert það sameiginlega og eins hafa sumir einstakir þingmenn haft um það meiningar og flutt tillögur þess efnis. Ég vitnaði til þess að ég hef af og til á undanförnum tveimur, ef ekki þremur kjörtímabilum flutt ósköp hógværa tillögu sem gengur ekki lengra en að vönduð fagleg greining og úttekt færi fram á því hvort ekki væri skynsamlegt að sameina á einum stað í Stjórnarráðinu viðfangsefnin öll sem tengjast almannatryggingum. Þar með væru á einum stað lífeyristryggingar eða lífeyrisréttindi, atvinnuleysistryggingar og aðrir slíkir þættir sem spila mjög saman þegar kemur að réttarstöðu manna og tryggingum og öryggi í okkar velferðarsamfélagi. Ástæða þess að ég fór af stað með það á sínum tíma var sú að ég var þá mjög upptekinn af því að skoða svokölluð jaðaráhrif í kerfinu og óhóflegar tekjutengingar á tekjutengingar ofan, bæði á greiðslum og jafnvel útgjöldum eða þáttum eins og afborgunum námslána. Þegar ég fór að skoða það á sínum tíma komst ég að þeirri niðurstöðu að málin væru í miklum ólestri hjá okkur og jaðaráhrifin voru og eru svo sem sumpart enn þá alveg gríðarleg í kerfinu þegar hlutirnir leggjast svona saman.

Ég man að einhvern tíma flutti ég tekjuskattsfrumvarp um að setja þak á jaðaráhrifin þannig að þegar þau rækjust upp undir þakið þá hætti skerðingin þannig að menn héldu þó a.m.k. alltaf 45 kr. af hverjum 100 sem greiðslukerfið ætti að tryggja þeim. Þannig var ástandið ekki og skerðingarnar og jaðaráhrifin gátu verið alveg ískyggileg, allt upp í 100% í vissum tilvikum og hlutir þá skertir um krónu á móti krónu. Það leiddi mig aftur að því að skipulag Stjórnarráðsins, sundrung málaflokkanna og ráðuneyti voru þröskuldur í vegi þess að takast almennilega á málin, það rak maður sig á. Sumt var hjá heilbrigðisráðuneytinu, sumt hjá félagsmálaráðuneytinu, sumt hjá fjármálaráðuneytinu og jafnvel enn annars staðar. Þess vegna held ég að útgangspunkturinn eigi alltaf að vera viðfangsefnið, málefnið, málaflokkarnir sem í hlut eiga og aðstæður hvers tíma til að takast á við þá hluti sem þar eru.

Þess vegna höfum við í þingflokki Vinstri grænna mikið skoðað stjórnsýslu umhverfismála. Ég geri ekki ráð fyrir að mönnum þyki það nein sérstök tíðindi. Við höfum verið að reyna að átta okkur á því hvernig vænlegast væri að endurskipuleggja stjórnsýslu málasviðsins í heild sinni og útgangspunktur okkar er sá að við viljum styrkja umhverfisráðuneytið. Við viljum styrkja skipulega stöðu þess, að það verði að raunverulegu umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem hafi stjórnskipulega stöð og tæki í sínum höndum, lög og starfsmannafla og stofnanir og hvað það nú er til að hægt sé að sinna því gríðarlega mikilvæga verkefni mynduglega. Umhverfisráðuneytið er yngsta ráðuneytið, að verða 20 ára. Um það voru reyndar deilur á sínum tíma sem ég geri ráð fyrir að andstæðingar málsins hafi engan sérstakan áhuga á að rifja upp. Ég geri því ekki skóna að Sjálfstæðisflokkurinn mundi halda til streitu þeirri afstöðu sinni í dag að ekki sé þörf á að stofna umhverfisráðuneyti. Ég held að það hafi rækilega sannað sig og að öll viðfangsefni nútímans, það sem fram undan er í þeim efnum, æpi á að umhverfisráðuneytið og það málasvið sé að verða eitt það allra mikilvægasta í okkar samtíma. Mér finnst að það ætti að endurspeglast í því að málefni umhverfisráðuneytisins væru tekin þar sérstaklega til skoðunar og þau endurskipulögð þannig að til gæti orðið öflugt umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það er líka mjög viðamikið viðfangsefni og á margan hátt flókið að leggja grunninn að því. Við vitum að oft verða landamæradeilur, núningur og árekstrar þegar farið verður að endurskipuleggja hlutina því að menn eru oft býsna bundnir af sögulegum ástæðum og einhverju sem fest hefur sig í sessi. Stofnanauppbyggingin og nálgunin á viðkomandi sviði mótast af því. Sterkar hefðir og venjur myndast og menn verða stundum svolitlir kóngar, hver í sínu ríki eins og vill verða, þannig að auðvitað er ákaflega mikilvægt að hafa það allt í huga þegar tekist verður á við málin.

Ég held að langbesta leiðin sé að setja þá sem við eiga að búa niður og segja: Góðan daginn. Nú ætlum við að fara í þennan leiðangur. Við förum í vandaða úttekt og greiningu á viðfangsefnunum eins og þau liggja fyrir í samtímanum og við viljum fá ykkur með, starfsfólkið sem sinnir verkefnum í mismunandi stofnununum, í stjórnsýslunni, ráðuneytunum og úti á akrinum. Við þurfum að draga samtök starfsmanna og aðra slíka að einu borði og segja: Getum við komist að samkomulagi, endurskipulagt í góðri sátt, látið það gerast svona og svona? Það hlyti að sjálfsögðu að taka sinn tíma, það er óumflýjanlegt. Það þýðir ekki að hver og einn smákóngur eigi að hafa neitunarvald en sjálfsagt er að leyfa öllum sjónarmiðum að koma fram, leyfa öllum upplýsingum og gögnum að liggja fyrir, gefa því tíma og vita hvort ekki getur smátt og smátt vaxið fram skynsamlegt skipulag í þokkalegri sátt þeirra sem við eiga að búa. Það er alltaf óheppilegt að þvinga fram breytingar ofan frá án tillits til hvernig þeim sem vinna eiga verkin líst á þær og án þess að þeir hafi haft tíma til að búa sig undir þær og vera þátttakendur í ferlinu sem leiddi til breytinganna.

Ég get lofað mönnum því, miðað við það sem ég þekki til skandinavískrar stjórnsýslu og skandinavískra hefða, að svona mundu menn aldrei standa að breytingum þar. Norska þingið mundi aldrei láta bjóða sér að fara svona með málefni norska stjórnarráðsins. Það sem norska þingið mundi gera væri að það tæki málið í sínar hendur og segði við ríkisstjórn og framkvæmdarvald: Þetta er löggjafarmál. Hvernig vinna menn þá? Menn setja yfirleitt af stað þriggja til fimm ára ferli sem er undir stjórn þingsins. Síðan kemur niðurstaðan með þingsályktun eða ákvörðun þingsins þar sem oftast heitir þá á norskunni stortingsmelding og þannig leggur þingið sjálft línurnar eftir vandaðan, faglegan undirbúning og það lætur ekkert bjóða sér neitt annað. Ég hygg að svipað yrði uppi á teningnum a.m.k. í Svíþjóð þar sem hefðir eru býsna sterkar og líkar þeim sem eru í Noregi. Ég veit ekki alveg með frændur okkar Dani. Það kann að vera að þeir mundu vera svolítið frjálslyndari í þeim efnum, mér býður það í grun, en þó held ég að menn mundu vanda hlutina þar miklu betur en gert er hér.

Ég hef fylgst talsvert með því hvernig norska þingið hefur mótað stefnu á hinum einstöku málasviðum. Mjög fróðlegt var að sjá hvernig það mótaði stefnu á sviði orkumála. Það var einnig mjög fróðlegt að sjá hvernig það mótaði stefnu varðandi eignarhald ríkisins á fyrirtækjum. Við Íslendingar mættum hugleiða hvort við hefðum kannski betur farið þá leið. Hvað gerði norska þingið þá? Áhugi var á því í ýmsum flokkum að einkavæða ýmis ríkisfyrirtæki, til að mynda hjá hægri ríkisstjórninni sem sat um tíma í Noregi undir stjórn Kåre Willochs, að ég hygg. Var þá bara skipuð einkavæðingarnefnd úti í bæ eins og hér með einhverjum gæðingum og vinum ráðherranna, forsætisráðherra eða einhverra? Nei. Norska þingið tók málið í sínar hendur og vönduð og ítarleg greining fór fram á öllu saman. Niðurstaðan varð síðan ákvörðun Stórþingsins um að það skyldi gert með ákveðnum hætti, ákveðnar reglur giltu ef menn seldu hluti í stórum fyrirtækjum, það skyldi það gert í skrefum. Það skyldi gert í kauphöllinni til þess að verð myndaðist og þar af leiðandi held ég að þeir hafi komist hjá miklum deilum, núningi og átökum sem urðu hér vegna óvandaðra og handahófskenndra vinnubragða þegar einkavæðingarfárið brast á upp úr 1990.

Ég er búinn að nefna umhverfisráðuneytið og hvernig við vildum standa að málefnum þar, í aðalatriðum þannig að styrkja stöðu þess og fá því aukið hlutverk hvað varðar auðlindaþáttinn, sem sagt undirstöðustjórnun þar og verndun, þannig að það yrði raunverulegt umhverfis- og umhverfisverndarráðuneyti.

Annar kostur sem við höfum rætt, eins og sjálfsagt flestir sem um stjórnarráðsmálin hafa fjallað, er spurningin um atvinnuvegaráðuneyti. Vissulega eru ýmis rök fyrir því og við værum alveg tilbúin til að skoða það ef unnið væri að því með faglegum og eðlilegum hætti, að taka atvinnugreinarnar saman í eitt ráðuneyti og mismuna þeim þá ekki. Það yrði að vísu mjög stórt ef þær kæmu þar allar saman á einn stað, sjávarútvegur, landbúnaður, ferðaþjónusta og önnur þjónusta, iðnaður, hátækni og þekkingargreinar og allt hvað það er en rök gætu verið fyrir að fara þá leið. Það er þó ekki einboðið og við sjáum í löndunum í kringum okkur að menn hafa farið mismunandi leiðir í þessum efnum. Danir fóru aðra leið, þ.e. þá að horfa á málið út frá hinum líffræðilegu undirstöðuþáttum frekar en spurningunni um atvinnugreinar og stofnuðu matvælaráðuneyti. Það er önnur nálgun sem kæmi mjög sterklega til greina, að sameina alla þættina sem lúta að hinni lifandi náttúru og nýtingu hennar í formi atvinnugreina tengdum matvælum, hollustuháttum og fæðuöryggi og öðru í þeim dúr, í eitt ráðuneyti og gera sambærilegar breytingar á nefndaskipan Alþingis o.s.frv. Þessir tveir kostir kæmu að mínum dómi báðir til greina og væru alveg fullrar skoðunar virði. Hér er hvorug leiðin farin. Hér fara menn hálfa leið og varla það í að stofna atvinnuvegaráðuneyti en hreyfa ekkert við hinum þættinum og það er hálfvandræðalegt þegar verið er að henda atvinnugreinum á milli eins og ferðaþjónustunni. (Gripið fram í: Er þetta ekki hin leiðin?) Það er ekki einu sinni almennilega hin leiðin, það er einhver niðursoðin útgáfa af henni.

Ég verð að segja alveg eins og er, sem gamall fyrrverandi ferðamálaráðherra, að mér er mjög annt um ferðaþjónustuna og mér þykir miður ef hún fær ekki verðugan og myndugan sess sem hún hefur fyrir löngu áunnið sér rétt til að fá í okkar stjórnskipan og stjórnsýslu. Ég upplifði það þegar ég kom fyrst að ferðamálunum að þau voru varla meðhöndluð sem atvinnugrein. Það var t.d. alveg með endemum hversu lítið var til af þjóðhagslegum upplýsingum um ferðaþjónustu þegar ég fór að skoða þau mál og setti í gang vinnu til að reyna að kortleggja þau og átta mig á því fyrir hvað greinin stæði. Ég held flestum hafi komið á óvart þegar farið var að taka saman þjóðhagslegar upplýsingar um ferðaþjónustuna hversu stór hún var orðin í landsframleiðslunni. Til var talning á ferðamönnum inn í landið og einhver talning á gistináttum og öðru slíku, en ótrúlega litlar upplýsingar voru t.d. um hvað ferðamennirnir skildu eftir sig í landinu og yfirleitt um hversu stór þáttur ferðaþjónustan var orðin í þjóðarbúskapnum.

Annað sem kom á daginn var hversu gífurlega mikilvæg ferðaþjónustan er sem stoðgrein við ýmsa aðra starfsemi í landinu. Menn geta t.d. velt því fyrir sér hvernig innanlandssamgöngur, flutningar, matvælaframleiðsla og margt fleira væri á vegi statt í dag ef það hefði ekki grunninn sem ekki síst ferðaþjónustan leggur. Ég er ansi hræddur um að minni tíðni væri í flugi og flutningar væru óhagkvæmari og að margt væri með öðrum hætti. Minni framleiðsla væri og minni þjónustuiðnaður af ýmsu tagi sem ferðaþjónustan geymir þannig að ég held að það sé miklu meira en tímabært að hún fái sess á sínum stað. Mér finnst að nafn ferðaþjónustunnar ætti að koma fyrir í því ráðuneyti sem hún heyrir undir. Ef hún er ekki í einu stóru atvinnuvegaráðuneyti þá ætti það ráðuneyti sem hún á að færast í, sem mun vera iðnaðarráðuneytið, að heita ráðuneyti ferðamála og iðnaðar, eða hvað það nú væri.

Ég var aðeins búinn að nefna utanríkismálin en ég ætla að fara yfir þau aftur. Skoða mætti enn eitt sviðið, hið stóra málasvið utanríkis- og alþjóðamála. Af hverju voru þau mál ekki tekin og skoðuð í þessu samhengi? Var það af því að utanríkisráðherra var annar ákvörðunaraðilinn og vildi halda öllu hjá sér? Farið hafa sögur af sársaukafullum fundum út af flugstöðinni í Keflavík og einhverju fleiru sem löngu var tímabært og átti aldrei að heyra undir annað ráðuneyti en samgönguráðuneytið. Sú fáránlega staða var búin að vera allan þennan tíma, að mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar sem flugstöðin í Keflavík er, skuli ekki hafa heyrt undir samgönguráðuneytið. Mér fannst það algerlega fráleitt á þeim tíma sem ég var samgönguráðherra en ekki var við það komandi að taka það á dagskrá og því réð stöð ameríska hersins í landinu og viðkvæmnin sem uppi var gagnvart honum, að ekkert mátti snerta þarna suður frá.

Ekki er ég að gagnrýna þann þátt málsins, svo mikið er víst, en mér finnst skrýtið að utanríkis- og alþjóðamálin skuli ekki fá hér neina greiningu og því sé þá t.d. svarað hvort allt eigi að vera óbreytt eða hvort til greina kæmi að gera þar breytingar. Hér er ekki farið í hlutina og staðið að þeim með þeim hætti sem maður skyldi ætla.

Eins og ég sagði er ýmsu fögru lofað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar á meðal miklu og góðu samstarfi og samráði við alla flokka á Alþingi og standa á vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess. Við skulum sjá hvernig það fer allt saman. Svo mikið er víst að alla vega í þessu máli hafa menn ekki staðið við stóru orðin og eru í raun og veru að gera alveg hið gagnstæða, knýja málið áfram í ákaflega óheppilegum farvegi sem ég held að muni leiða til þess að núningur og vandræðagangur verði í framkvæmdinni. Hversu lengi los verður á hlutum í framhaldi af þessu, ef þessu verður troðið í gegn um áramótin, skal ég ekki segja, en það skyldi ekki vera að ríkisstjórnin eigi eftir að reynast sjálfri sér verst í þessu eins og kannski fleiru, þ.e. þetta muni síðan þvælast mest fyrir ráðherrunum sjálfum og ríkisstjórninni. Af hverju er gerir hún það þá svona ef það verður verst fyrir hana sjálfa? Að vísu er því miður ekki hægt að útiloka að ýmis málefni muni verða fyrir talsverðum skakkaföllum á meðan þetta los og umrót gengur yfir því að það er vont að hafa lausung og lausatök á viðkvæmri stjórnsýslu. Sérstaklega þarf að huga að mannlega þættinum, muna eftir að þegar upp er staðið snýst það fyrst og fremst um fólk. Það eru verðmætin í þessu, ekki byggingarnar, ekki nöfnin og titlarnir, það er fólkið, því að ekki er hægt að gera það nema með starfsfólkinu sem vinnur verkin. Það er misskilningur að hægt sé að leysa það einhvern veginn ofan frá og að starfsfólkið sé eins og lömb sem hægt er að reka á milli dilka. Þannig er það ekki og má aldrei verða.

Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn hafi einnig að þessu leyti fallið á prófinu. Ekki þarf annað en að skoða fjölmargar umsagnir sem komið hafa frá stofnunum sem kvarta undan því að ekkert samráð hafi verið við þær haft, ekki einu sinni við yfirmennina þar, hvað þá við almennt starfsfólk eða félög þess. Málið er því einnig illa undirbúið og vanreifað að því leyti. Þess vegna er ég alveg eindregið sammála því, og ég held að það sé miklu meira en nægilega vel rökstutt, að vísa eigi málinu frá og byrja upp á nýtt. Senda á ríkisstjórnina heim með afsprengi sitt og það er sennilega henni sjálfri fyrir bestu, (Gripið fram í.) það er umhyggjan. Maður er alltaf að hugsa um vini sína, koma fyrir þá vitinu og forða þeim frá ófæru. Að sjálfsögðu á að setja niður þverpólitískan samráðsvettvang sem vinnur með þeim sem í hlut eiga að skoðun, greiningu og vönduðum undirbúningi að þeim breytingum á Stjórnarráðinu sem menn vilja þá sennilega gera. Ég hugsa að langheppilegast væri að lögtaka þær ári fyrir lok kjörtímabils með gildistöku fram í tímann þannig að ný ríkisstjórn komi að hreinu borði og þá taki ný og vönduð endurskipulagning á Stjórnarráðinu gildi. Það er heilmikið til í þeim sjónarmiðum sem hæstv. forsætisráðherra setti fram, því miður fyrir alþingiskosningar og var svo búinn að gleyma þeim eftir þær. Gott væri að vera búinn að ganga frá slíkum málum áður í góðu pólitísku samkomulagi þannig að það blandaðist ekki inn í hræringar að loknum kosningum. Það er heilmikið til í því og það væri hægt að gera svona. Breytingar af þessu tagi, eins og breytingar á stjórnarskrá, sem út af fyrir sig ætti að vera hægt að gera hvenær sem mönnum býður með sjálfstæðri kosningu — og mikil eftirsjá er af því að menn skyldu ekki taka í gegn breytinguna sem þó var samstaða um í stjórnarskrárnefnd, að opna þá leið að gera breytingar á stjórnarskránni óháð alþingiskosningum. Þá hefði maður getað bundið vonir við að ný og endurskoðuð heildstæð stjórnarskrá gæti tekið gildi, kannski um mitt kjörtímabilið og það hefði verið vel. Það hefur ekki bein áhrif á málið nema menn kjósi svo. Það kynni auðvitað að koma til greina að tengja það saman, t.d. í tilviki alþjóðamálanna og samninga og þjóðréttarlegrar stöðu gagnvart samningum við önnur ríki og annað í þeim dúr. Það gæti verið skynsamlegt að það tæki mið af verkaskiptingu mála innan Stjórnarráðsins en mál af þessu tagi er í raun fáránlegt að lögtaka í byrjun kjörtímabils á grundvelli hrossakaupa af því tagi sem áttu sér stað sl. vor. Farið er algerlega öfugt í hlutina og þess vegna væri það mikið gæfuspor ef hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar á Alþingi sæi að sér og frestaði afgreiðslu málsins og ekki bara í nokkra mánuði eða eitt ár. Vænlegast væri auðvitað að setja málið í alveg nýjan vinnufarveg og stefna að niðurstöðu í málinu 2010 sem væri þá lögtekin og lægi fyrir með gildistöku fram í tímann. Verði ekki kosið fyrr en á reglulegum tíma til Alþingis næst, sem maður getur enn gert sér vonir um að kunni að verða, maður veit aldrei, yrði málið klárt þegar þar að kæmi.