135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:57]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Væri ekki reynandi fyrir hv. þingmann að koma vitinu fyrir þennan Sjálfstæðisflokk, fara eins og eina ferð inn í þingflokkinn þar sem menn eru grútfúlir, vondir út í flokk sinn yfir meðferðinni, bæði á landbúnaðarráðuneyti og þessum stóru verkefnum? Væri ekki rétt reyna að koma því í kring að menn vöknuðu til að snúa þessu við? Þetta eru náttúrlega engin vinnubrögð. Skógrækt um allan heim er, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns, landbúnaður. Það eru íslenskir bændur sem rækta skóginn á Íslandi, þessa nýju auðlind.

Skógræktarfélögin eru á því að þetta þurfi að vera á einni hendi og vilja hafa það undir landbúnaðarráðuneyti. Væri ekki ráð að fara inn í þessa miklu frelsishreyfingu sem segir að málfrelsi sé mikið og allir hafi skoðanir, þessa stóru regnhlíf sem er utan um allt og ekkert, og koma vitinu fyrir Sjálfstæðisflokkinn? (Gripið fram í: Það er ekki hægt.) Það er kannski ekki hægt, eins og hér er kallað fram í, að koma vitinu fyrir þann flokk. En óskaplega væri það nú gott ef menn létu það ekki eftir hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde að ganga í skrokk á íslenskum landbúnaði og höggva af íslenskum landbúnaði gróskumiklar nýjar greinar eins og skógræktina.

Mógilsárfólkið, vísindafólkið, sinnir bændum um allt og skógræktarfélögum. Ég skora á hv. þingmann að reyna eina ferðina enn að fara inn í þessa hreyfingu og tala við fólkið. Hann á sér skoðanabræður sem að vísu hafa ekki þorað að koma fram enn þá, þeir eru ekki farnir að tala í þessari umræðu. Þeir láta ekki heyra í sér. Þeir bölsótast frammi í kaffistofu og þykjast vera frjálsir. Þeir munu fara um landið og segja að þeir hafi ekki verið sammála þessu og láta mikinn. Hér er eini háttvirti þingmaður flokksins, Jón Gunnarsson, sem hefur þorað að tala út frá samvisku sinni í ræðustólnum. Hinir munu leika þennan leik sem Sjálfstæðisflokkurinn alltaf gerir, að honum sé leyfilegt að hafa allar skoðanir og þeir munu þykjast hafa verið á móti og fara mikinn þegar þeir koma á bændafundi (Forseti hringir.) og þykjast frjálsir, (Forseti hringir.) allir í handjárnum íhaldsins.