135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[17:08]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að þegar menn skipa málaflokkum niður á milli ráðuneyta sé það ekki gert á þeim forsendum sem hv. þingmaður Siv Friðleifsdóttir nefndi, að það sé gert að einhvers konar kvótaúthlutun, þ.e. ef málaflokkar eru færðir frá einu ráðuneyti þá verði eitthvað að koma í staðinn. Ég held og vona að þegar (Gripið fram í.) sest er yfir slíkar breytingar, ég treysti því að í þessari ríkisstjórn sé það þannig, sé unnið á málefnalegum forsendum og með það að markmiði að það verði viðkomandi málaflokkum fyrir bestu.

Ég er aftur ekki sammála því hvað varðar skógrækt og landgræðslu í þessu frumvarpi. En hvernig þetta hefur verið gert áður, hvort kaupin hafa verið alltaf með þessum hætti, í einhverjum kvótaúthlutunum, að ef tekið er eitt verkefni frá einu ráðuneyti verði það, sama hvað á dynur, að fá annað í staðinn — ég vona það og treysti að menn nálgist málin ekki með þeim hætti og á þeirri forsendu heldur á málefnalegri forsendum.

Hvað tekur langan tíma að laga þessar breytingar og hverjar verða afleiðingarnar? Ég sé það ekki fyrir, virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því að þetta verði málaflokkunum ekki til framdráttar. Það verður að koma í ljós hvernig til tekst og hvort farið verði út í einhverjar frekari breytingar í framtíðinni.