135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[17:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mér þótti ræða hv. þm. Jóns Gunnarssonar athyglisverð og reyndar prýðileg fyrir margra hluta sakir. Ég ætla að láta liggja á milli hluta að hann sé í ofurlítilli mótsögn við sjálfan sig að því leyti að hann skrifar undir nefndarálit frá fagnefnd þar sem þessar tilfæringar innan Stjórnarráðsins eru samþykktar án fyrirvara en setur síðan stífa fyrirvara fram í ræðu á þingi.

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja eða hafði í huga þegar ég segi að ræða hv. þm. Jóns Gunnarssonar hafi verið ágæt. Hann færði fyrir því rök að tilteknir þættir skógræktar og uppgræðslu væru betur komnir hjá landbúnaðarráðuneyti en hjá umhverfisráðuneyti. Hann fjallaði um þetta og færði fyrir málinu rök og vísaði í álitsgerðir frá hagsmunaaðilum. Prýðilegt, sannfærandi hygg ég fyrir ýmsa.

En hv. þingmaður hóf mál sitt á því að agnúast út í aðra ræðumenn. Hann kvaðst sakna þess mjög að ný þingskapalög hefðu ekki verið lögfest. Hvað hefði gerst ef það hefði verið búið að samþykkja lögin? Þá hefði hv. þm. Jón Gunnarsson þurft að klípa átta mínútur af ræðu sinni vegna þess að hann talaði í 23 mínútur. Ég lét kanna þetta, nánast til gamans en honum kannski til umhugsunar, (Gripið fram í: Örstutt ræða.) að þær eru fljótar að líða þessar 15 mínútur ef menn vilja koma rökum á framfæri og tala fyrir sannfæringu sinni eins og hv. þingmaður gerði ágætlega.

Við fjöllum hér um umfangsmiklar tilfæringar innan Stjórnarráðsins. Í athugasemdum sem fylgja frumvarpinu segir í upphafi, með leyfi forseta:

„Við myndun núverandi ríkisstjórnar var ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn.“

Þetta hljómar óskaplega vel. Menn ætla að einfalda stjórnsýsluna og rætt er um vandaða og heildstæða yfirferð yfir Stjórnarráðið almennt. En við teljum að þetta hafi gerst allt öðruvísi. Við í stjórnarandstöðunni teljum að breytingarnar innan stjórnsýslunnar hafi að hluta átt rót að rekja til verkaskiptingar stjórnarflokkanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá síðasta vori.

Mig langar, hæstv. forseti, að fara nokkrum orðum um vinnubrögðin við smíði þessa frumvarps. Ég er sannfærður um að hversu lengi sem við hefðum setið yfir þessu verkefni hefði aldrei náðst fullkomin sátt um niðurstöðuna vegna þess að sitt sýnist hverjum. Þannig er það bara.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar, varðandi það sem kallað hefur verið frumatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, að gott sé fyrir þá atvinnuvegi að hafa um sig umgjörð ráðuneyta. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það hafi verið styrkur fyrir landbúnaðinn á Íslandi að menntastofnanir landbúnaðarins heyri undir landbúnaðarráðuneyti. Þetta er mín skoðun. Í mínum flokki eru jafnframt önnur sjónarmið. Það segi ég til að leggja áherslu á að það er sama hver niðurstaðan hefði orðið, aldrei hefði orðið einhugur um hana.

Um hitt hefðu menn átt að sammælast, þ.e. vinnubrögðin, um á hvern hátt er ráðist í breytingar af þessu tagi. Nú vill svo til að á vegum ríkisstjórnarinnar hefur nýlega verið gefin út sérstök handbók um vinnubrögð við frágang stjórnarfrumvarpa. Mig langar til að lesa úr inngangsorðum hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes þar sem hann segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„„Með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða,“ er haft eftir Njáli Þorgeirssyni í Njáls sögu. Það má til sanns vegar færa að lögin skapa umgjörðina um samfélag okkar og mikilvægt er að hún sé sem einföldust og skýrust og leggi ekki óþarfa hömlur á athafnafrelsi borgaranna. Þótt Alþingi eigi lokaorðið um lagasetningu þá er það staðreynd að stór hluti samþykktra laga á rætur í stjórnarfrumvörpum. Það hvílir því mikil ábyrgð á ráðuneytunum að búa frumvörp sem best úr garði og skapa forsendur fyrir því að löggjöfin verði sem vönduðust.

Á undanförnum árum hefur ýmislegt verið gert til að vanda betur til verka á þessu sviði. Hefð er fyrir því að skjaladeild nefndasviðs Alþingis lesi frumvörp yfir og gefi góð ráð um framsetningu og málfar.“

Síðan heldur hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde áfram og talar síðar í þessum texta almennt um vinnubrögðin og þörfina á gátlistum til að auðvelda ríkisstjórn og ráðherrum að ganga úr skugga um að gætt hafi verið að tilteknum lykilatriðum við undirbúning lagasmíðar. Hæstv. forsætisráðherra fjallar nánar um þennan bækling sem gefinn var út í síðasta mánuði og ég tek undir það sem fram kemur í máli hans.

Í innganginum að bæklingnum er aftur vikið að vinnubrögðum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Markmiðið er meðal annars að þingmál sem koma frá ríkisstjórninni séu sem best undirbúin og kynnt, sem ætti að auðvelda Alþingi afgreiðslu þeirra og stuðla að vandaðri lagasetningu. Ljóst er að kröfur um vandaðri vinnubrögð þýða að einhverju marki að ætla þarf lengri tíma til undirbúnings en áður hefur tíðkast. Enn fremur þarf að huga sérstaklega að því að efla sérfræðikunnáttu í ráðuneytum á þessu sviði.“

Hér er talað um mikilvægi þess að menn gefi sér góðan tíma við undirbúning þingmála. Í þessum ágæta bæklingi segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Að jafnaði ætti ekki að hefjast handa við samningu frumvarps fyrr en farið hefur fram mat á nauðsyn lagasetningar.“

Jú, það fór fram mat á nauðsyn lagasetningar í vor þegar ríkisstjórnin var mynduð á Þingvöllum. Það tók ekki langan tíma. En það mat var fyrst og fremst pólitískt og laut að skiptingu ráðherrastóla. Síðan segir enn fremur í þessum bæklingi, með leyfi forseta:

„Með fyrrgreindum vinnubrögðum er stuðlað að því að ákvörðun ráðherra um að frumvarp skuli samið sé byggð á sem bestum upplýsingum um forsendur. Oft getur verið gagnlegt að efna til óformlegs samráðs við hagsmunaaðila og sérfróða aðila áður en tillaga ásamt mati á nauðsyn er lögð fyrir ráðherra. Þannig má afla fyllri upplýsinga um mismunandi leiðir og afleiðingar þeirra. Sérfróðir aðilar gætu til dæmis komið auga á efnisleg eða lagatæknileg atriði sem betur mættu fara. Hagsmunaaðilar gætu bent á einfaldari leiðir að settu marki sem fælu t.d. í sér minni kostnað fyrir atvinnulífið án þess að markmiðum væri stefnt í hættu.“

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að ætla nægilegan tíma til samningar frumvarps, samráðs, mats á áhrifum og annarra atriða sem huga þarf að við undirbúning framlagningar þess á Alþingi. Raunhæf tímaáætlun stuðlar að því að útkoman verði sem best og mál nái fram að ganga.“

Ég ætla ekki að vitna frekar í þennan athyglisverða bækling. En óskandi væri að samræmi væri á milli orða og athafna. Hér er sagt á hvern hátt eigi að standa að lagasmíð að mati sömu ríkisstjórnar og hefur unnið þessi frumvörp um miklar breytingar á Stjórnarráði Íslands nánast á handarbakinu. Síðastliðið vor var á fáeinum dögum var verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins breytt með lögum til að tryggja að réttir stólar væru undir réttu fólki. Það sem gerist núna er að löggjafinn færir verkefni til ráðherra í samræmi við þær breytingar sem þá voru áður gerðar. Skyldi það hafa verið gert í samráði við hagsmunaaðila, í samráði við þá sérfræðinga sem handbókarhöfundarnir vísa til? Nei. Eftir því sem best verður séð er þetta frumvarp og þessar breytingar algjörlega komnar ofan frá og ekki leitað til hagsmunaaðila.

Ég vísa t.d. í álitsgerð frá Bandalagi háskólamanna. Þar er talað um óvissu starfsfólksins og hvatt til að þeirri óvissu verði eytt, vísað til þess að fólk með börn á grunn- og leikskólaaldri muni ekki sætta sig við flutning stofnana. BHM segir ljóst að það sé komið los á margt starfsfólk sem býst við að það verði flutt vegna þessara breytinga.

Mín skoðun og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er að þegar stofnanir eru á annað borð fluttar — við skulum ekki gefa okkur neitt í þeim efnum, stundum getur það verið æskilegt — á það tvímælalaust að gerast á mjög löngum tíma, helst fjórum til sex árum. Það er ekki langur tími í lífi stofnana en það getur skipt sköpum fyrir fjölskyldufólk þannig að það geti gert upp við sig hvort það vilji flytja og ef svo er lagað sig að breyttum aðstæðum og fái góðan tíma til þess. Þau vinnubrögð hafa því miður ekki verið ástunduð í Stjórnarráðinu og alls ekki með því frumvarpi sem ræðum um.

Samræmið á milli orða og athafna, enn um það. Formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, hefur mikið talað um nauðsyn samræðunnar. Samræðustjórnmál, held ég að það heiti. Hún hefur lagt áherslu á að menn ræði saman og ræði sig að niðurstöðum, ræði sig inn á niðurstöðu í málum. Nú höfum við fengið svolítinn smjörþef af því hvernig þessi samræðustjórnmál eru í reynd ástunduð. Tvö dæmi:

Í fyrsta lagi var okkur sagt að efnt til yrði til samráðsvettvangs og samræðu við stjórnarandstöðu um mótun utanríkisstefnu. Það hefur ekkert bólað á þessum samræðuvettvangi. Hvað gerðist síðasta vor? Jú, þá var efnt til mikillar fundaherferðar utanríkisráðuneytisins í samráði við háskóla í landinu og þar átti að ræða, að því er við héldum, stefnumótun og efna til gagnrýnnar umræðu, lýðræðislegrar umræðu úti í þjóðfélaginu. Mjög gott, virðingarvert. Ég mætti á einn slíkan fund, fyrsta fundinn hér í Reykjavík, þar sem oddvitar ríkisstjórnarinnar voru báðir komnir, hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég ætlaði að nýta borgaralegan lýðræðislegan rétt minn og bera fram spurningar um stefnumótun á sviði utanríkismála. Hæstv. forsætisráðherra svaraði með því að ganga á dyr, strunsaði út úr fundarsalnum og sagðist ekki mega vera að því að taka þátt í slíkri umræðu og hæstv. utanríkisráðherra svaraði ekki spurningum mínum. Þannig eru nú samræðustjórnmálin.

Hér er síðan annar vitnisburður um vinnubrögðin sem ríkisstjórnin ástundar, sem eiga ekkert sammerkt með samræðu heldur eru valdboð, ákvörðunum sem koma ofan frá og eru gerðar með reglustiku að vopni.

Fjöldi athugasemda hefur borist nefndum þingsins sem um frumvarpið hafa fjallað. Ég vísa þar í nefndarálit minni hluta allsherjarnefndar sem reifar álit einstakra aðila. Í þau hefur verið vitnað fyrr við þessa umræðu. Ég ætla ekki að endurtaka það sem sagt hefur verið en ég legg áherslu á þá gagnrýni sem fram kemur í áliti minni hlutans á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.

Það er einmitt vísað í þann bækling sem ég vék að áðan í minnihlutaálitinu, með leyfi forseta:

„Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á ýmsum lögum um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands brýtur gegn öllum meginsjónarmiðum og viðmiðunum sem þar eru reifuð um vandaða frumvarpssmíð. Leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá og það unnið á nýjan leik í samræmi við þær leiðbeiningareglur sem handbókin mælir fyrir um og ný lög um verkefni innan Stjórnarráðs Íslands taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2009.“

Hér eru til umfjöllunar einhverjar umfangsmestu tilfæringar innan Stjórnarráðsins sem lögfestar hafa verið í langan tíma. Við ræddum anga þessara breytinga fyrr í dag þegar fjallað var um tilfærslu á verkefnum, aðallega frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Í því frumvarpi er eitt hrikalegasta dæmið um óvönduð vinnubrögð í öllum þessum mikla lagabálki sem snýr að Stjórnarráði Íslands. Það er sú grein sem kveður á um heimild til handa hæstv. heilbrigðisráðherra til að ráða forstjóra stofnunar, sérstakrar sölumiðstöðvar fyrir sjúklinga, að ráða forstjóra og stjórn yfir stofnun sem er ekki til. Hann á að ráða stjórn og forstjóra yfir stofnun sem er ekki til.

Í umræðu um málið kemur síðan fram að það er ekki gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til þessa verkefnis. Samkvæmt umsögn fjármálaráðuneytisins eiga þessar breytingar ekki að kosta neitt en um leið upplýsir hæstv. heilbrigðisráðherra að hann hyggist á næstunni ráða forstjóra stofnunarinnar. Á hann að starfa kauplaust? Og hvað með stjórnina, fimm manna stjórn?

Við höfum lagt til að þessari breytingu, þessum óútfyllta tékka til hæstv. heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins verði skotið á frest, að sú frumvarpsgrein verði einfaldlega sett á ís. Við teljum að það yrði málinu til góðs.

Hæstv. forseti. Ég hef í hyggju að taka tvisvar til máls við 2. umr. um þennan mikla lagabálk. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína mikið lengri núna. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem notaði hluta ræðu sinnar í að gagnrýna okkur sem höfum haft langt mál um þessa óvönduðu lagasmíð og harmaði að ný þingskapalög væru ekki þegar samþykkt, talaði lengur, þremur eða fjórum mínútum lengur en sá sem hér hefur talað og reynt að færa rök fyrir máli sínu.