135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[20:45]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og sjá má á nefndaráliti sem hv. formaður félags- og tryggingamálanefndar hefur kynnt, hefur fulltrúi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Ögmundur Jónasson, skrifað undir það. Við teljum mjög mikilvægt að tryggja foreldrum mánaðarlegar grunngreiðslur þegar þannig stendur á að þeir þurfa að vera heima og sinna börnum sínum, langveikum eða alvarlega fötluðum. Við styðjum það heils hugar.

Ég er hingað komin til þess að vekja athygli á að fyrir tveimur árum þegar gerðar voru breytingar á skattgreiðslum foreldra sem fá svokallaðar heimgreiðslur frá sveitarfélögum vegna þess að þeir kjósa ekki að setja börn sín á leikskóla, að njóta þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á, þá flutti hæstv. þáverandi og núverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen, tillögu til breytinga á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hún var þess efnis að styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima frá lokum fæðingarorlofs fram til þess að það hefur leikskólavistun eða grunnskólanám, teljist ekki til tekna hjá móttakanda. Inn í þá grein í tekjuskattslögum, sem er 3. töluliður a-liðar 7. gr. tekjuskattslaga, væri þá bætt greiðslum með skýrum hætti, að styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barna fá sem heimgreiðslur séu undanþegnar skatti.

Af þessu tilefni spurði ég á sínum tíma hæstv. fjármálaráðherra að því hvort hann hygðist láta hið sama gilda um foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna, þ.e. þann hóp foreldra sem ekki á þess kost að velja hvort hann dvelur heima hjá barni sínu eða ekki heldur verður að gera það vegna alvarlegra veikinda eða alvarlegrar fötlunar barnsins. Ég lagði fram á þingskjali 359 á 133. löggjafarþingi svofellda fyrirspurn til fjármálaráðherra um skattlagningu greiðslna til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með leyfi forseta:

Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp til samræmis við 2. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt (þskj. 286, 276. mál) þannig að umönnunarbætur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna teljist ekki til tekna hjá móttakanda?

Fyrirspurninni var ekki svarað. Ég var á þingi sem varamaður um hálfsmánaðarskeið, hygg ég, og náði ekki að koma fyrirspurninni á dagskrá og fékk þess vegna ekki svar frá þáverandi hæstv. fjármálaráðherra.

Mig langar til þess að varpa fyrirspurn fram til hv. formanns félags- og tryggingamálanefndar hvort menn hafi rætt þennan möguleika, að taka skattskyldu af greiðslum til þessa hóps foreldra til samræmis við þann hóp foreldra sem kýs að taka við heimgreiðslum og annast börn sín heima eftir fæðingarorlof í stað þess, sem flestir gera, að fara til dagforeldra eða á leikskóla.