135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

162. mál
[21:03]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér tala ég fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 51/1955, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið og kallaði á sinn fund nokkra aðila, Aðalstein Baldursson, sviðsstjóra matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands, Fjólu Pétursdóttur, lögfræðing frá Starfsgreinasambandi Íslands, og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félagsmálaráðuneyti. Einnig bárust nefndinni umsagnir frá Tryggingastofnun ríkisins, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum atvinnulífsins, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Félagi skipstjórnarmanna. Frumvarp þetta er lagt fram sem liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að styrkja atvinnulíf í sjávarbyggðum sem eiga í erfiðleikum vegna ákvörðunar stjórnvalda um samdrátt þorskveiðiheimilda. Lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks kveða á um rétt fyrirtækja sem starfrækja fiskvinnslu til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag sem fyrirtæki greiðir starfsmönnum sínum föst laun fyrir dagvinnu meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum. Í því skyni að koma til móts við þessi fyrirtæki vegna framangreinds samdráttar aflaheimilda er lagt til í frumvarpinu að greiðsludagar sem heimilt er að greiða fyrirtækjum í einni vinnslustöðvun verði 30 talsins í stað 20 samkvæmt gildandi lögum. Hvað varðar heildarfjölda greiðsludaga á ári hverju er jafnframt lagt til að heimilt verði að greiða fyrir allt að 60 vinnudaga til sama fyrirtækis í stað 45 vinnudaga áður. Um er að ræða tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að gilda til 31. desember 2009.

Eftir að hafa fengið gesti á sinn fund og rætt málið leggur nefndin til að á eftir 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða sem lagt er til með 2. gr. frumvarpsins komi ný málsgrein. Tilgangurinn með þeirri breytingu er að tryggja að þeir starfsmenn fiskvinnslustöðva sem þurfa að leggja niður störf í tímabundinni vinnslustöðvun vegna hráefnisskorts verði ekki verr settir á þeim tíma en hefðu þeir misst vinnuna með hefðbundnum hætti og fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Líkt og fyrrgreind fjölgun greiðsludaga á ári hverju er gert ráð fyrir að þetta sé tímabundin aðgerð til 31. desember 2009.

Lagt er til að kerfið samkvæmt lögunum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með síðari breytingum, haldi gildi sínu sem slíkt þannig að vinnuveitendur greiði starfsfólki sínu áfram föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamninga um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu og fái greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nema óskertum grunnatvinnuleysisbótum auk lífeyrissjóðsiðgjalds og tryggingagjalds atvinnurekanda í samræmi við ákvæði laganna. Þær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði halda jafnframt áfram að vera óháðar rétti einstakra starfsmanna til atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar enda greiddar beint til vinnuveitanda. Hins vegar er lagt til að þeir starfsmenn sem kunna að eiga frekari rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar geti sótt um mismun dagvinnulauna sem þeir fá frá vinnuveitanda í tímabundinni vinnslustöðvun og tekjutengdra atvinnuleysisbóta sem þeir hefðu ella átt rétt á skv. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefðu þeir skráð sig atvinnulausa á sama tíma og uppfyllt skilyrði III. kafla laganna að öðru leyti.

Þó er gert ráð fyrir að starfsmaður eigi ekki rétt á þessum mismun fyrir fyrstu 10 virku dagana sem hann hefur fengið greidd föst dagvinnulaun frá vinnuveitanda í tímabundinni vinnslustöðvun eftir 1. janúar 2008. Það er í samræmi við lög um atvinnuleysistryggingar en launamaður á ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum fyrr en frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur hafa verið greiddar í samtals 10 virka daga. Þannig er tryggt að starfsmaður sé jafnsettur í tímabundinni vinnslustöðvun eins og hann hefði misst atvinnu sína og hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Til hagræðingar við framkvæmd ákvæðisins er lagt til að greiðslurnar skuli inntar af hendi í einu lagi fyrsta dag mánaðarins eftir að tímabundinni vinnslustöðvun lýkur enda hafi vinnslustöðvun lokið og umsókn starfsmanns borist Vinnumálastofnun fyrir 23. dag mánaðarins á undan. Gert er ráð fyrir óverulegum kostnaði vegna þessarar breytingartillögu en þó má gera ráð fyrir auknum útgjöldum Vinnumálastofnunar vegna umfangsmeiri umsýslu við framkvæmd laganna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem lögð er til í sérstöku þingskjali þar sem gerð er nánari grein fyrir þessari málsgrein og hún tilgreind eins og ég las hana áðan.

Þetta kann að virka og virkar sem mjög flókinn texti en laust og fast var þetta þannig aðilar frá launþegum bentu á að miðað við ákvæðið eins og það var í breytingunum að frumvarpinu í upphafi mátti leiða að því líkur að einhverjir mundu óska eftir því að vera sagt upp í vinnustöðvun fremur en að vera áfram í tengslum við fyrirtækin, einfaldlega til að fá betri bætur. Það þótti óviðunandi bæði fyrir launþegann og eins fyrirtækið að rofin yrðu tengslin með þeim hætti og þess vegna var komið til móts við óskir um að breyta þessu ákvæði með þeim hætti sem hér var lýst.