135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

kjararáð.

237. mál
[21:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Ég get í sjálfu sér tekið undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni og einnig formanni skatta- og efnahagsnefndar, hv. þm. Pétri H. Blöndal, sérstaklega eftir að hann lét streyma frá eigin brjósti eftir að greinargerð hans fyrir hönd nefndarinnar lauk.

Ég er þeirrar skoðunar að lögin þurfi að vera skýrari, tek undir þær ábendingar sem fram hafa komið um það efni, og auk þess að það eigi að takmarka þann hóp eins og kostur er sem heyrir undir kjararáðið. Almenna reglan er sú að þeir sem hafa staðið ofarlega í stjórnsýslunni hafa sóst eftir því að komast undir kjararáð, kjaradóma og sambærilegar stofnanir sem hafa haft launaákvarðanir með höndum í tímans rás, vitandi að þar er yfirleitt skilningur á stöðu þeirra sem hafa best kjörin innan hins opinbera. Þetta er bara staðreynd.

Kjararáð hefur átt í erfiðleikum allar götur frá því að lögunum var breytt sumarið 2006 — það er ekki langur tími síðan — en það er fyrst og fremst á þann veginn að hópar hafa sóst eftir að komast undan kjarasamningum og inn undir vængi kjararáðs. Sú hefur verið stefnan. Við þekkjum presta, við þekkjum óskir prófessora í þeim efnum. Síðan eru það skrifstofustjórar sem óska eftir því að komast undir valdsvið kjararáðs. Ég hef ákveðnar efasemdir um það, sé ekki hvers vegna þeir geti ekki fengið kjör sín ákvörðuð samkvæmt kjarasamningum og þá er ég að vísa í verkalýðsfélögin, samtök launafólks almennt, en ekki þá tegund samninga sem ég hjó eftir að hv. formaður nefndar, Pétur H. Blöndal, vék að, samningum við stjórnir fyrirtækja. Ég vek athygli á því að það er að færast í vöxt, sérstaklega innan fjármálageirans, að stjórnendur í opinberum fyrirtækjum sem sýsla með peninga eru settir í þá stöðu að semja við eigin stjórnir.

Nýsköpunarsjóður var nefndur til sögunnar. Forstjórinn þar heyrir ekki undir kjararáð vegna þess að hann semur við sína stjórn. Við þekkjum þetta hjá ýmsum öðrum opinberum aðilum en það er fyrst og fremst hjá þeim sem sýsla með peninga. Þar þykir mönnum það mikið réttlætismál að koma mönnum út úr samfélagi við annað starfsfólk. Það á að lúta einhverjum öðrum reglum þegar peningar eru viðfangsefnið en ekki manneskjan.