135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[21:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um svokallaða upprunaábyrgð á raforku eða það sem einnig hefur verið kallað græn vottorð og tengist raforku sem er framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og skapa skilyrði fyrir viðskipti með græn vottorð vegna raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Með grænum vottorðum er í reynd staðfest að raforka sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. vindorku, sólarorku, vatnsorku, jarðvarmaorku, og reyndar líka öldu- og sjávarfallaorku sem aðeins er byrjað að framleiða líka, orku úr lífmassa, lífgasi, gasi frá skólphreinsistöðvum og hauggasi, sem sagt flestum tegundum af orku sem ekki eru úr jarðefnaeldsneyti.

Um þetta frumvarp gildir, eins og svo mörg önnur, að með því göngumst við Íslendingar undir þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum þar sem teknar verða upp í hinn íslenska rétt viðeigandi ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 77/2001/EB frá 27. september 2001 sem miða að því að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum sem brúkast skulu á hinum innri raforkumarkaði. Tilskipunin var hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2005.

Í frumvarpinu er lagt til að Landsneti verði falið hlutverk þess sem fer með vottunina og á að hafa eftirlit með útgáfu grænna vottorða hér á landi. Hlutverk Landsvirkjunar yrði samkvæmt frumvarpinu þá sambærilegt hlutverki kerfisstjóranna, þeirra sem stýra flutningi og miðlun rafmagns á hinum Norðurlöndunum í þessu tilliti. Á hinum íslenska raforkumarkaði hefur Landsnet sem kerfisstjórinn yfirsýn yfir framleiðslu á raforkukerfinu og þess vegna felst gott hagræði í því að fela fyrirtækinu hlutverk þess sem fer með vottunina hér á landi.

Ég undirstrika sérstaklega að sjálfstæði Landsnets gagnvart innlendum raforkuframleiðendum er tryggt með sérlögum um fyrirtæki og með sérstökum ákvæðum raforkulaga sem einmitt voru rifjuð upp og rædd í fyrirspurnatíma í síðustu viku. Í ákvæðum raforkulaga er jafnframt kveðið á um bókhaldslegan og stjórnunarlegan aðskilnað gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda framleiðslu, dreifingu eða sölu á raforku.

Ég vil að það komi alveg skýrt fram til upprifjunar, að stjórn Landsnets, sú sem nú situr, var skipuð af iðnaðarráðherra en ekki fjármálaráðherra sem aftur á móti fer með handhöfn eignarréttar fyrir hönd ríkisins gagnvart Landsvirkjun og þar með Landsneti.

Hin grænu vottorð gefa þeim sem framleiða raforku, sem hafa hátt hlutfall af endurnýjanlegum orkugjöfum, færi á að selja slík vottorð vegna raforkuframleiðslunnar. Kaupendur vottorða eru þeir sem sjá hag sinn í því að styðja við framleiðslu á grænni raforku og sem vilja líka sýna fram á í bókhaldi sínu að hlutfall endurnýjanlegrar raforku af orkukostnaði þeirra sé sem því nemur hærra. Ýmis fyrirtæki sem vilja tileinka sér græna ímynd styðja við framleiðslu á endurnýjanlegri orku með því að kaupa sér græn vottorð.

Nú þegar stunda innlend orkufyrirtæki viðskipti með græn vottorð og má geta þess, þótt það kunni að hljóma undarlega í eyrum margra, að Landsvirkjun hefur t.d. umtalsverðar tekjur af því að selja græn vottorð. Eftir rosknu minni mínu þá minnir mig að fyrirtækið hafi fast að 100 millj. kr. á ári í tekjur fyrir sölu á grænum vottorðum.

Hingað til hafa íslensku fyrirtækin sem selt hafa græn vottorð hins vegar þurft að leita til erlendra fyrirtækja sem hafa vottunargetu samkvæmt opinberum stöðlum til þess að staðfesta uppruna raforkunnar. Í stuttu máli má segja að fyrirtæki úti í Evrópu sem framleiða græna orku hafi í reynd möguleika á þrenns konar tegundum viðskipta við sína viðskiptavini. Í fyrsta lagi geta þau selt þeim græna endurnýjanlega orku. Í öðru lagi geta þau selt þeim orkuna ásamt grænu vottorðunum. Í þriðja lagi geta þau selt vottorðin ein og sér.

Við Íslendingar erum að sjálfsögðu ekki tengdir raforkuneti Evrópu þannig að við erum ekki í þeirri aðstöðu að geta selt inn á innri raforkumarkaðinn endurnýjanlega orku sem er framleidd hér á Íslandi. Við getum hins vegar selt græn vottorð og það eru menn byrjaðir að gera í nokkrum mæli.

Tilskipunin sem ég reifaði áðan hefur ekki að öllu leyti verið tekin upp til framkvæmda innan landa Evrópusambandsins. Nokkur lönd hafa gert það og hafa löndin að tekið það upp í vaxandi mæli. Sá háttur var tekinn upp af hálfu ESB í reynd til þess að gefa atvinnulífinu færi á að niðurgreiða framleiðslu einkafyrirtækja og annarra fyrirtækja sem framleiddu græna orku.

Mér sýnist að aðferðin sé að ryðja sér til rúms úti í Evrópu í töluvert ríkari mæli þannig að hugsanlegt er að við stöndum við upphaf nýs skeiðs þar sem eftirspurn eftir íslenskum grænum vottorðum verður miklu meiri en hún hefur verið. Ég greindi frá því áðan að þegar væru hafin viðskipti sem skipta máli fyrir íslensk fyrirtæki með græn vottorð og mjög líklegt er að það aukist töluvert á næstu árum.

Þetta er hið efnislega innihald frumvarpsins. Ef ég vík aðeins að köflum frumvarpsins þá er í I. kafla þess að finna ákvæði um markmið þess sem stuðlar að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og skapa skilyrði fyrir viðskipti með græn vottorð. Í þeim kafla er einnig að finna skilgreiningar á hugtökum sem skipta máli varðandi frumvarpið.

Í II. kafla frumvarpsins eru ákvæði sem varða grænu vottorðin sjálf. Þar er kveðið á um að Landsnetið annist eftirlit með útgáfu grænna vottorða og það fyrirtæki skuli líka ganga úr skugga um áreiðanleika erlendra vottorða sem eru gefin út á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er í kaflanum kveðið á um umsóknir og útgáfu og hvað beri að tilgreina í slíkum vottorðum.

Þar á m.a. að koma fram hvort um er að ræða stóra eða litla framleiðslueiningu. Það er af ástæðum sem ekki beinlínis varða Ísland en rétt er að benda á að í vottorðum kemur fram hvers eðlis viðkomandi virkjun er.

Í III. kafla frumvarpsins er síðan líka kveðið á um viðurkenningu erlendra vottorða hér á landi en þá er um leið lögð sú skylda á herðar Landsnets að leita staðfestingar á útgáfu slíkra vottorða í viðkomandi útgáfulandi. Að sama skapi er Landsneti líka skylt að veita erlendum vottunarfyrirtækjum upplýsingar um græn vottorð sem gefin eru út hér á landi.

Í IV. kaflanum er síðan kveðið á um stjórnsýslu og eftirlit vegna vottorðanna. Í V. kafla eru lagðar til breytingar á raforkulögum, lögum um stofnun Landsnets þar sem Landsneti verði heimilað að annast útgáfu grænna vottorða. Að óbreyttu hefur Landsnet ekki heimild í framangreindum lögum til að annast hlutverk sem því er hins vegar heimilað með frumvarpinu ef samþykkt verður.

Ég vil líka taka fram að við undirbúning frumvarpsins var leitað umsagnar Samorku, Orkustofnunar og Landsnets og tekið hefur verið tillit til athugasemdanna sem bárust frá þeim. Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum er mat fjárlagaskrifstofunnar hjá fjármálaráðuneytinu að það muni ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Herra forseti. Með þeim tillögum sem lagðar eru fram í frumvarpinu er ætlunin að bregðast við þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands á grundvelli EES-samningsins og innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins sem ég vísaði til áðan og fjallar um að auka framleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum. Með aðild Íslands að hinum sameiginlega innri raforkumarkaði í Evrópu má segja að opnast hafi ný tækifæri sem í því felast fyrir íslenska raforkuframleiðendur. Með frumvarpinu er verið að setja á fót kerfi til að tryggja og sannreyna upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnaðarnefndar og 2. umr.