135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

samgönguáætlun.

292. mál
[22:18]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eitt atriði sem kemur fram í þessu frumvarpi, og þá sérstaklega í greinargerðinni, sem ég hef áhuga á að spyrja hæstv. samgönguráðherra út í og vel að nota andsvarsformið til þess að stytta hér þennan næturfund.

Í 2. gr. er fjallað um vinnuna við gerð samgönguáætlunar og í greinargerðinni með henni kemur fram, með leyfi virðulegs forseta:

„Með þeim breytingum sem orðið hafa með því að flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónusta er nú komin í hendur opinbers hlutafélags í eigu ríkisins er nauðsynlegt að kveða á um aðkomu slíks fyrirtækis að samgönguáætlun. Gildir það sama um fyrirtæki sem hugsanlega kunna að verða stofnuð um aðra þætti samgangna í framtíðinni.“

Ég hefði áhuga á að heyra hjá hæstv. samgönguráðherra hvort einhver áform séu um að koma slíkum fyrirtækjum á stofn varðandi þætti í samgöngum í landinu, hvort einhver slík er vinna í gangi. Ef svo er ekki hef ég líka áhuga á að heyra hjá hæstv. samgönguráðherra á hvaða sviði menn gætu hugsanlega í framtíðinni viljað stofna svona fyrirtæki ef hæstv. ráðherra gæti nefnt þau fyrirtæki. Þessi setning í greinargerðinni truflar mann aðeins.