135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[11:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fagna þessari lagasetningu. Enn á vissulega eftir að breyta þeirri löggjöf sem við erum að gera nú endurbætur á með það fyrir augum að treysta betur kjör og réttarstöðu langveikra barna og aðstandenda þeirra enda þarf löggjöf af þessu tagi stöðugt að vera í endurskoðun.

Ég vil vekja athygli á því sem hreyft hefur verið af hálfu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að okkur ber að íhuga hvort ívilna beri í skattalegu tilliti aðstandendum langveikra barna vegna greiðslna sem þau fá. Það hefur verið vísað í skattalegar ívilnanir sem fyrri ríkisstjórn ákvað til foreldra barna sem ekki nýta sér leikskólaúrræði. Við höfum vakið athygli á því misræmi sem þarna er.

Meginástæða þess að ég kveð mér hljóðs, eins og ég sagði í upphafi, er að fagna þessari lagasmíð.