135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega fyrir tíu árum, upp á dag, flutti ég andsvar sem ég ætla að leyfa mér að endurtaka og staðfæra. Hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, hefur flutt hina árlegu skýrslu sem formaður fjárlaganefndar flytur og eins og alltaf áður minnir skýrslan mig á skýrslu framkvæmdarstjóra meðalstórs bandarísks hlutafélags, enda veltan svipuð.

Hér er verið að tala um alls konar framkvæmdir. Fyrst byrjaði formaðurinn að tala um útlitið fyrir fyrirtækið og svo eru ýmsar framkvæmdir sem ráðast á í. Ég ætla rétt að renna í gegnum þær.

Í fyrsta lagi ætlar Alþingi að stunda fornleifauppgröft, síðan á að kaupa minjasafn, þá á að gefa út fornbókmenntir, svo á að byggja upp skíðamannvirki á Siglufirði. Setja á hálfa milljón í ljósmyndasafn, svo á að vakta bleikju og urriða í Þingvallavatni ásamt því að stunda innflytjendarannsóknir og síðan ætla menn að setja pening í að styrkja kolefnisbindingu og rannsóknir á henni.

Það er allt saman eðlilegt og nauðsynlegt en það er verkefni framkvæmdarvaldsins en ekki löggjafarvaldsins. Með því að taka að sér framkvæmdarvald minnkar Alþingi ábyrgð framkvæmdarvaldsins. Ég minni t.d. á menntamálin. Hvernig getur hv. menntamálaráðherra borið ábyrgð á framkvæmdum sem Alþingi ákveður? Alþingi ber skylda samkvæmt 43. gr. stjórnarskrárinnar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Með því að fara svona inn á verksvið þess getum við ekki sinnt þeirri skyldu.

Auk þess vil ég minna á að nánast engin lög sem samþykkt eru á Alþingi eru samin af þingmönnum sjálfum. Við tökum því að okkur framkvæmdarvaldið í löggjafarsamkundunni og framkvæmdarvaldið tekur að sér löggjafarsamninguna. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Telur hann það rétta þróun og vill hann breyta henni?