135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:54]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með svar hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar. Ég er mjög ánægður með að hann vilji sjá breytingar. Þess vegna lagði ég þetta til fyrir nákvæmlega tíu árum þegar ég gerði athugasemd við að fjárlaganefnd vinnur nánast eins og framkvæmdastjóri í fyrirtæki í staðinn fyrir að setja rammana utan um fjárveitingarnar. Segja mætti t.d. að til safnamála fari svo og svo mörg hundruð milljónir og svo framkvæmir ráðherrann og má leggja línurnar um að setja eigi svo og svo mikið út á landsbyggðina og þess háttar. Ráðherrann á að framkvæma og bera ábyrgð gagnvart Alþingi. Hann skiptir fénu skynsamlega út um allt land og í mismunandi verkefni.

Ég er mjög ánægður með að menn hugi að breytingum þannig að hv. fjárlaganefnd eyði ekki hálfu ári í að taka á móti hálfri þjóðinni með betlistaf og taka afstöðu til fjárveitinga án þess að vita mjög gjörla um einstök atriði sem framkvæmdarvaldið er miklu betur í stakk búið til að fylgjast með.

Ég er líka mjög ánægður með að hv. þingmaður vilji fara í meira eftirlit með fjárveitingum því að það hefur nánast ekki verið neitt á Íslandi. Við gusum út peningum og enginn spyr hvort viðkomandi starfsemi sem er verið að styrkja hafi yfirleitt átt sér stað né heldur er neitt eftirlit með því að það sé gert með skynsamlegum hætti og hagkvæmum þannig að ég er mjög ánægður með að hv. þingmaður vilji breyta þessu.