135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:31]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir formanns nefndarinnar sem hann flutti áðan til samnefndarmanna sinna í fjárlaganefnd og starfsfólks og annarra þeirra sem hafa aðstoðað fjárlaganefnd við störf sín við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið sem er nú komið til 3. umr. og senn er lokið þeirri miklu vinnu.

Hv. formaður kom inn á það í ræðu sinni að ég hefði tekið þar sæti síðustu dagana, hlaupið þar í skarðið fyrir formann Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. Satt er það. Ég átti satt að segja ekki von á því þegar ég lauk störfum í fjárlaganefnd fyrir hartnær áratug að ég ætti eftir að koma þangað aftur og hafði svo sem ekki heldur hug á því eftir fjögurra ára dvöl í fjárlaganefnd og þeirri vinnu sem þar hvílir á mönnum alla jafna, þó sérstaklega á haustþingi. Það er auðvitað mikil reynsla en afar bindandi og menn sem sitja í nefndinni eru síðustu vikurnar fyrir lokaafgreiðslu meira og minna í sínum eigin heimi að störfum við að ljúka þeim viðfangsefnum sem þar þarf að ganga frá áður en umfjöllun fjárlagafrumvarpsins lýkur.

Ég get skilið að formaður nefndarinnar og aðrir fastir nefndarmenn séu fegnir því núna að sjá hilla undir lok þessarar umræðu og þeir geti farið að sýna sig úti í þjóðfélaginu á nýjan leik. Það er gleðilegt fyrir þá að geta séð þennan heim sem er fyrir utan þessa vinnu og það er líka skemmtilegt að þeir tínast þá til mannheima á svipuðum tíma og aðrir sveinar eru á leiðinni þangað úr sínum óbyggðum. Kannski eru þetta að vissu leyti óbyggðir, þ.e. að vera bundinn yfir störfum í fjárlaganefnd, sérstaklega hjá þeim sem leiða það starf í nefndinni.

En svona án gamans, virðulegi forseti, þá tók ég nú eftir því þessa fáu daga sem ég sat í nefndinni að sumt hefur breyst verulega í störfum nefndarinnar og mér finnst til betri vegar. Annað er með sama sniði og áður var og verður trúlega þannig. Ég sé ekki fram á að það sé hægt að breyta hlutunum þannig að veruleg breyting verði á þeim þáttum starfsins nema ef farið verður út í það að gera fjárlög til tveggja ára í senn sem ég hef nú alltaf verið frekar hallur undir að yrði gert. Ég held að það væri skynsamlegt vinnulag í þessari miklu vinnu að ákveða rammann til lengri tíma, alla vega tveggja ára, og síðan kæmi þá á milli útfærsla á heildartölum innan málasviða sem væru þá viðfangsefni að fara yfir á milli nýrra fjárlaga. Ég held að það mundi létta álaginu af nefndinni og dreifa því líka og það yrði að mörgu leyti betra vinnulag. Ég held að það væri meira að segja hægt að þróa starf nefndarinnar á þann veg að hún geri meira af því að taka fjárlögin fyrir eftir málaflokkum og að umræða í þinginu gæti farið fram með þeim hætti í stað þess að vera bundin við það form sem við höfum haft af lagafrumvörpum í þremur umræðum um allt málið, að það væri hægt að brjóta upp að minnsta kosti þá eina umræðu málsins eftir málasviðum og taka stuttar umræður um til dæmis heilbrigðismál eða efnahagsmál og annað slíkt, sem gætu staðið kannski nokkra klukkutíma hver umræða. Það held ég að yrði miklu markvissari umræða. Flokkarnir mundu koma á framfæri sjónarmiðum sínum í viðkomandi málaflokki í tiltölulega samþjöppuðu formi og þá væru skýrari línurnar á milli flokkanna og áherslnanna sem þeir legðu í viðkomandi málaflokki. Þetta er mögulegt. Það þarf ekki að breyta þingsköpum til þess að stíga þessi skref. Menn geta fikrað sig áfram eftir þessari hugsun ef áhugi er á því.

Annað sem ég tók eftir að hafði breyst er meira samráð en áður var á milli nefndarmanna, sérstaklega milli nefndarmanna minni hlutans og meiri hlutans um frágang og tillögugerð í einstökum fjárveitingum. Ég held að það sé til verulegra bóta og að þau breyttu vinnubrögð séu líklegri til að stuðla að meiri samstöðu um afgreiðslu málsins og endurspegla meira óskir þeirra sem á bak við þingmenn standa, þ.e. kjósendur og umboðsmenn þeirra vítt og breitt um landið.

Virðulegi forseti. Framhaldsnefndarálit fyrsta minni hluta sem skipaður er fulltrúa Frjálslynda flokksins og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar græns – framboðs er að finna á þingskjali 457. Ég vil byrja á því, með leyfi forseta, að lesa upp fyrsta kaflann í því framhaldsnefndaráliti sem fjallar um efnahagsmál.

„Umrót og óvissa einkenna horfur í efnahagsmálum eins og rækilega var bent á í nefndaráliti 1. minni hluta fyrir 2. umræðu fjárlaga. Helsta verkefni stjórnvalda er að koma á jafnvægi og stöðugleika í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgunni niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Fram undan eru kjarasamningar og aðilar vinnumarkaðarins auk stjórnvalda hljóta að vinna að því að gera samninga sem stefna að þessu markmiði. Það er ávinningur allra í þjóðfélaginu, sérstaklega þeirra skuldsettu, að hemja verðbólguna.

Fjármálaráðuneytið spáir því að verðbólgan á næsta ári verði 3,3% sem er liðlega fjórðungi yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það yrði þá fimmta árið í röð sem verðbólgan er meiri en 2,5%. Greinilegt er að há verðbólga er að festast í sessi öllum almenningi til tjóns. Ríkisstjórnin ber mikla ábyrgð á þessari þróun og skortir greinilega nægilegan vilja til ábyrgrar efnahagsstjórnar. Verðbólgutölur undanfarinna ára bera það með sér og nýleg varnaðarorð frá ýmsum aðilum, svo sem alþjóðagjaldeyrissjóðnum, um hættuna á snöggu og skyndilegu falli íslenska gjaldmiðilsins um allt að 25% og verðbólguöldu í kjölfarið. Slík atburðarás, sem stundum er kölluð hörð lending efnahagslífsins, mundi leika skuldsett heimili landsmanna grátt, ekki hvað síst fyrir tilverknað verðtryggingar lánsfjár.

Hlutverk stjórnvalda er að hafa þá stjórn á efnahagsmálum, meðal annars með fjárlögum ríkisins, að sæmilegt jafnvægi sé og að verðbólga sé innan settra marka. Horfurnar fyrir næsta ár eru ekki góðar þegar litið er til forsendna fjárlagafrumvarpsins. Umsvifin næstu tvö ár, 2008 og 2009, verða of mikil á sviði einkaneyslu og fjármunamyndunar til þess að nokkur von sé til þess, að óbreyttu, að ná verðbólgunni niður í 2,5%, sem er markmið Seðlabankans. Líta verður til þess að fjármálaráðuneytið gerir ekki ráð fyrir því að ráðist verði í nýjar stóriðjuframkvæmdir á þessum árum, en hins vegar er unnið að því hörðum höndum að jafnvel verði af þremur til fjórum nýjum framkvæmdum á næstu árum. Gangi það eftir verður þenslan mun meiri og enn líklegra en áður að verðbólgan verði viðvarandi og langtum hærri en stjórnvöld stefna að.

Greinilegt er að miklar breytingar hafa orðið í íslensku efnahagslífi frá árinu 2003. Umfang þess hefur aukist gríðarlega. Verg landsframleiðsla jókst um 46% á aðeins fjórum árum, frá 2003 til 2007 og að magni til um nærri 400 milljarða kr. miðað við verðlag hvers árs. Þegar tekin er saman einkaneysla og fjármunamyndun á þessu tímabili kemur í ljós að útgjöldin hafa verið á fjórum árum sem svarar sex ára útgjöldum ársins 2003. Voru útgjöldin þó ekki í neinni lægð það ár heldur þau mestu frá 1996 að árinu 2000 undanskildu, þar sem einkaneysla og fjármunamyndun var örlítið hærri að magni til [en árið 2003]. Í fjárhæðum talið var aukningin þessi ár svo mikil að hún ein og sér jafngildir landsframleiðslu í heilt eitt ár og fjórum mánuðum betur. Það er gríðarleg aukning á aðeins fjórum árum, sem hefur kostað ójafnvægi í efnahagslífinu með tilheyrandi sveiflum í gengi og verðbólgu.

Áform um margvíslegar stóriðjuframkvæmdir liggja fyrir, fjárfesting í íbúðarhúsnæði verður áfram mikil, miklar opinberar framkvæmdir eru fram undan og stór verkefni á vegum einkaaðila. Efnahagskerfið hefur stækkað og segja má að alþjóðavæðingin og EES-samningurinn hafi stuðlað að því sérstaklega með frjálsu flæði vinnuafls. Á þessum fjórum árum hefur fjöldi fólks af erlendum uppruna á vinnumarkaði tvöfaldast, farið úr liðlega 10.000 manns í rúmlega 21.000 í júlí síðastliðnum og nam þá um 10% vinnuaflsins. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram og að stór hluti útlendinga sem hingað hafa flust muni taka hér upp fasta búsetu. Áhrifin verða varanleg stækkun hagkerfisins og aukin framleiðslugeta og ætla má að jafnvægi sem að er stefnt muni taka mið af því. Þessu mun fylgja aukin eftirspurn á fasteignamarkaði og aukin útgjöld við hina nýju landsmenn sem stjórnvöld verða að gera ráð fyrir meðal annars í skólakerfinu. Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar lýsir nokkrum áhyggjum yfir því að verulega skortir á að lagt sé nægilegt fjármagn í fjárlagafrumvarpið til þess að mæta þessum samfélagsbreytingum.“

Virðulegi forseti. Þetta er sá kafli nefndarálits 1. minni hluta sem fjallar um efnahagsmál og ég vil bæta við nokkrum orðum við það sem fram kemur í álitinu. Það er ljóst, eins og þar er skrifað, að horfurnar fyrir næstu ár eru býsna fjarri því að stefna að stöðugleika í efnahagslífinu. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir því sjálft að verðbólgan verði fjórðungi hærri en að er stefnt að hámarki, fjórðungi yfir þeim 2,5% sem er það hámark sem stjórnvöld hafa sett sér fyrir verðbólguna og það er staðan sem miðast við að ekki verði af neinum stóriðjuframkvæmdum.

Nú eru horfurnar þannig að unnið er að því að koma á fót nýjum stóriðjuframkvæmdum. Það er unnið að því í Helguvík, Keilisnesi, Þorlákshöfn og Húsavík auk verkefna sem við getum kallað stóriðju en eru ekki á sviði álvera, eins og í Eyjafirði sem ég held að sé kallað aflþynnuverksmiðja.

Þetta eru allt út af fyrir sig ágæt verkefni og örugglega, miðað við verðlag í dag, þjóðhagslega hagkvæm þannig að ávinningur er fyrir þjóðfélagið að ráðast í þau burt séð frá áhrifum af umhverfi sem við skulum taka út til hliðar í umræðu um (Gripið fram í.) efnahagsmál. Aðilar, einkaaðilar, opinberir aðilar, vinna að því að koma þessu á. Þeir hafa mikinn stuðning stjórnmálamanna, ekki alveg einróma, en mikinn stuðning stjórnmálamanna og ég sé ekki fyrir mér að ríkisstjórnin fari leynt eða ljóst að leggja stein í götu þessara áforma. Í besta falli sýnist mér að ríkisstjórnin gæti beitt sér fyrir því að seinka þeim. En ég sé ekki fyrir mér að það sé unnið að því að koma í veg fyrir þau. Og ég gef mér það, virðulegi forseti, að það náist árangur á næstu tveimur árum að einhverju leyti í þessum áformum þannig að það verði ráðist í eitt eða tvö álver á árunum 2008 og 2009.

Gangi það eftir þá gjörbreytist efnahagsspáin. Þá verður framkvæmdamagnið á þessum tíma miklu meira en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlagafrumvarpsins í þjóðhagsspánni og er það þó býsna mikið sem gert er ráð fyrir að verði í gangi á næstu tveimur árum. Mér sýndist á tölunum að gert væri ráð fyrir því að það væri vel á sjötta hundrað milljarða króna sem ætti að fara í framkvæmdir á árunum 2008 og 2009. Þar af ætlar ríkið sjálft að standa fyrir framkvæmdum upp á liðlega 100 milljarða kr. á aðeins tveimur árum. Það er mikið fé.

Ef það bætist við sem svarar einu álveri og þar af leiðandi virkjunarframkvæmdum líka og þó það verði ekki allt fullunnið á árunum 2008 og 2009 þá eru það kannski framkvæmdir upp á 150–250 milljarða kr. Og það má búast við því að einhver hluti, jafnvel verulegur hluti þess, falli til á árunum 2008 og 2009 og bætist þá við það framkvæmdamagn sem er forsenda efnahagsspár fjármálaráðuneytisins. Það eitt hleypir upp þenslunni frá því sem spáð er. Það hleypir upp einkaneyslunni og það mun hækka stýrivextina sem aftur eykur innstreymi lánsfjár og hækkar gengið. Það mun líka gera það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að að muni gerast, þ.e. að gengið mun falla. Gengið féll um 20% á mjög skömmum tíma snemma árs 2006. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að gengið sé yfirskráð í raun miðað við aðstæður um 15–25%. Það kemur að því, alveg eins og vatnið leitar niður á við undan hallanum og fyrr eða síðar kemst niður, að þá mun gengið falla. Það bara mun gerast. Það er ekki valkostur í stöðunni að hægt verði að koma í veg fyrir það. Eini valkosturinn sem stjórnvöld hafa er að láta það gerast, ef þau geta stjórnað atburðarásinni með þeim hætti, að verðbólguskriðan sem fylgir gengisfellingunni verði sem minnst og skaði almenning sem minnst. Það er í raun eina valið sem stjórnvöld hafa, þ.e. að reyna að milda áhrifin af væntanlegri gengisfellingu þannig að hún gerist ekki í einu lagi heldur á einhverjum tíma og svo framvegis. Um það mun efnahagsstjórn stjórnvalda snúast á næstunni, á næsta ári, að koma í veg fyrir hörðu lendinguna, brotsjóina sem munu rísa ef menn ná ekki tökum á því að komast í gegnum þennan skafl án þess að bíða skaða af.

Í þessu samhengi eru kjarasamningar við opinbera starfsmenn og almenna vinnumarkaðinn lykilatriði. Í þeim kjarasamningum verður ríkisvaldið að leggja sitt af mörkum til þess að fá launþega til að una tiltölulega lítilli kauphækkun. Mér sýnist á kröfugerð verkalýðsfélaganna að þau geri sér grein fyrir því að við þessa samningagerð sé verkefnið að verja það sem hefur áunnist í kaupmáttaraukningu á undanförnum árum fremur en að sækja fram til viðbótarkaupmáttaraukningar á samningstímanum vegna þess sem menn sjá, að gengisfellingin er fram undan. Hún rýrir kaupmátt fólks. Verkefnið er sem sé að koma í veg fyrir að hann rýrni sem minnst og helst auðvitað ekki neitt ef menn eru lánsamir að komast í gegnum þetta viðfangsefni með þeim hætti.

En til þess að verkalýðshreyfingin geti unað tiltölulega lágri kauphækkun í kjarasamningum á næstu tveimur til þremur árum þá verður ríkisstjórnin að leggja sitt af mörkum. Það sem hún þarf að leggja fram er trúverðug áætlun sem tryggir stöðugleika í efnahagsmálum, sem tryggir lága verðbólgu vegna þess að lág verðbólga er kjarabót fyrir launþegana. Ef verðbólgan heldur áfram — og nýjustu mælingar sýna að verðbólga þessa árs sé 6%. Það er mjög hátt yfir takmarkinu um 2,5. Það er um 150% hærra en raunverulegt markmið ef maður tekur það í hlutfallinu. Það er mjög há verðbólga. Það kostar launþega mikla peninga ef verðbólgan er svona há þannig að besta kjarabótin er að ná verðbólgunni niður. Þegar hún er búin að vera fimm ár í röð yfir verðbólgumarkmiðunum og sum árin mjög langt yfir þeim þá verða stjórnvöld að leggja sig öll fram um að ná niður verðbólgunni. Það er þeirra skylda í stöðunni og þeirra verkefni og ríkisfjármálin eru eitt af stjórntækjunum í því skyni. En auðvitað hafa stjórnvöld eða ríkisstjórnin yfir fleiri tækjum að ráða sem hafa áhrif á þróun efnahagsmála og auðvitað þar með talið hafa þau lagasetningarvaldið sín megin þar sem þau styðjast við meiri hluta þingsins og geta komið fram stefnu sinni í þeim efnum sem þau kjósa að leggja fyrir þingið.

Ábyrgðin hvílir fyrst og fremst á herðum stjórnvalda á því að fá verkalýðshreyfinguna til að sætta sig við skynsamlega kjarasamninga og stjórnvöld þurfa að leggja inn í það efnahagsstefnu sem tryggir lága verðbólgu. Að festa hana svona uppi eins og hún hefur verið síðustu fimm ár er eitur í allra beinum sem fylgjast með efnahagsmálum því það er svo erfitt að ná því niður sem einu sinni hefur farið upp í þeim efnum. Það er mikið átak sem þarf að leggja á til þess að ná verðbólgunni niður þegar hún er farin að festast í þessum hæðum. Þá er líklegra að hún fari upp heldur en niður.

Í öðru lagi þurfa stjórnvöld að leggja fram umbætur í skattamálum og lífeyrismálum sem tryggja láglaunafólki landsins, hvort sem það eru lífeyrisþegar eða fólk á vinnumarkaði, umtalsverðar kjarabætur í gegnum breytingar á sköttum eða lífeyrisgreiðslum. Það verður að bæta kjör láglaunafólks á Íslandi. Það liggja fyrir þinginu tillögur í þeim efnum frá þingflokki Frjálslynda flokksins sem eru komnar til efnahags- og skattanefndar og lúta að því að setja upp sérstakan persónuafslátt til að tryggja að fólk með lágar tekjur borgi ekki skatt af þeim tekjum eins og það gerir í dag. Það yrði mikil kaupmáttaraukning ef slík breyting næði fram og hún mundi ekki bara gagnast fólki á vinnumarkaði heldur líka elli- og örorkulífeyrisþegum. Fyrir þessari tillögu var gerð ítarleg grein í framsöguræðu 1. minni hluta fyrir 2. umr. fjárlaga og ég þarf ekki að endurtaka það hér. En þetta tvennt er á ábyrgð stjórnvalda. Verkefni stjórnvalda á næstunni eru að ná niður verðbólgunni og tryggja hófsama og skynsamlega kjarasamninga og það verður ekki gert nema umtalsverðar réttarbætur verði fyrir láglaunafólk og elli- og örorkulífeyrisþega á næstunni.

Virðulegi forseti. Ég vil segja líka eitt til viðbótar um efnahagsmálin. Það sem að mínu mati hefur kannski leitt til þess að menn misstu dálítið tökin á efnahagsmálunum í þessari stækkun efnahagsumsvifanna sem orðin er og gerð er grein fyrir í framhaldsnefndarálitinu, var að gengið var býsna langt í að auka peningamagn í umferð og Seðlabankinn ber þar mikla ábyrgð. Það var ákvörðun Seðlabankans í desember 2003 að lækka bindiskylduna úr 4% í 2% sem gerði það að verkum að bankarnir fengu skyndilega 20 milljarða kr. eða svo lausa til útlána og það er hægt að lána í bankakerfinu sömu krónuna út oftar en einu sinni. Það er athyglisvert að Kaupþing sagði frá því í greinargerð sinni um efnahagsmál hálfu ári eftir að þessi ákvörðun var tekin og komst að þeirri niðurstöðu þar að þá hafði peningamagn í umferð vaxið um 100 milljarða kr. Fræðikenningar segja að þess sé að vænta þegar allt er komið fram að það geti aukið peningamagn í umferð um 1.000 milljarða kr. að lækka bindiskylduna úr 4% í 2% og losa um 20 milljarða. Menn sjá því að þessi aðgerð hafði gríðarleg áhrif sem undanfari þess að lækka vexti á almennum húsnæðislánum sem bankarnir gerðu. Þeir höfðu skyndilega nóg af peningum til útlána og brugðu á það ráð í samkeppni sinni við ný lög um útlán Íbúðalánasjóðs. Síðan er það stóriðjan sem fór í gang á þessum árum eftir 2003 og síðan almenn lækkun skatta. Allt þetta verkaði sem olía á þann eld sem hefur kynt upp efnahagslífið síðan þá.

Ég vil bæta því við, virðulegi forseti, að ég tel að eitt af því sem ríkinu beri að gera til að reyna að ná hér stöðugleika í efnahagslífinu og stuðla að skynsömum kjarasamningum, sé að leggja á hilluna alla vega um sinn öll áform um almenna lækkun skatta. Það kom afar óheppileg yfirlýsing frá ríkisstjórninni hér fyrir skömmu síðan þar sem boðuð var almenn skattalækkun í því efnahagsástandi sem við búum við nú. Það er einfaldlega yfirlýsing til fólks um að það muni hafa fram undan meira ráðstöfunarfé en það hefur núna og það einfaldlega leiðir til aukinnar einkaneyslu sem ýtir upp verðbólgunni o.s.frv. Það var mjög óskynsamleg yfirlýsing og mér heyrist á síðustu fregnum um það að ríkisstjórnin hafi eitthvað dregið í land með hana og boðað að því verði slegið eitthvað á frest. Ég held að ríkisstjórnin verði að tala alveg skýrt í þeim efnum og læra af mistökunum frá því í vetur þegar ráðist var í lækkun á virðisaukaskatti í aðdraganda kosninga sem var auðvitað fyrst og fremst aðgerð gagnvart kjósendum en ekki aðgerð gagnvart verðlaginu. Það er ekki heppilegt þegar stjórnmálamenn standa það ekki af sér að standast óskynsamlegar aðgerðir, þ.e. óskynsamlegar á þeim tímapunkti sem ráðist var í þær eins og var í vetur. Þar var enginn flokkur undanskilinn í þeim efnum því að sú skattalækkun var afgreidd hér með öllum greiddum atkvæðum. Enginn treysti sér til að segja það sem allir vissu, að þetta var óskynsamleg aðgerð á þessum tíma enda hefur það komið á daginn sem menn vita nú. Menn verða bara að læra af þessari reynslu og hætta að kaupa sér tímabundnar vinsældir með því að boða almennar skattalækkanir. Það er ekki veður í íslenskum efnahagsmálum til slíkra spádóma eða slíks boðskaps. Hins vegar á að ráðast í sértækar breytingar í skattkerfinu sem ég nefndi gagnvart lágtekjufólki til þess að fá verkalýðshreyfinguna til að sætta sig við hófsama kjarasamninga.

Virðulegi forseti. Ég vil þá víkja að næsta kafla í nefndaráliti 1. minni hluta. Sá kafli fjallar um almannatryggingar og hljóðar svo, með leyfi forseta.

„Nú liggja fyrir tillögur stjórnarmeirihlutans um hækkun á framlögum til almannatrygginga. Stærstu atriðin eru að lagt er til að afnema að fullu skerðingu tryggingabóta vegna tekna maka frá og með 1. apríl 2008 og að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára verður 100 þús. kr. á mánuði frá 1. júlí 2008. Að auki eru tillögur um að innlausn séreignarlífeyrissparnaðar muni ekki skerða lífeyrisgreiðslur eftir 1. janúar 2009, að vasapeningar vistmanna á stofnunum muni hækka um 30% um mitt ár og boðaðar eru aðgerðir til þess að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta. Kostnaður vegna tillagnanna verður á næsta ári um 2.700 millj. kr. og 4.300 millj. kr. árið 2009 þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda.

Fyrsti minni hluti fagnar framkomnum tillögum stjórnarflokkanna og telur þær til bóta, en bendir þó á að þær virðast gagnast að nokkru marki tiltölulega litlum hluta ellilífeyrisþega. Nákvæmar upplýsingar um áhrif breytinganna hafa hins vegar ekki verið lagðar fram. Rétt þykir að minna á að aðeins er ár liðið frá því að Alþingi samþykkti viðamiklar breytingar til þess að rétta hlut elli- og örorkulífeyrisþega. Talið var þá að kostnaðarauki vegna þeirra breytinga yrði um 6 milljarðar kr. á þessu ári og um 7 milljarðar kr. frá og með árinu 2008. Samanlögð áhrif af þessum tveimur breytingum verða nærri 10 milljarðar kr. á næsta ári og ríflega 11 milljarðar kr. frá og með árinu 2009. Í ljósi þess að lífeyristryggingar eru áætlaðar um 43 milljarðar kr. á næsta ári má sjá hversu kjör elli- og örorkulífeyrisþega hafa verið orðin ófullnægjandi. Um fjórðungs hækkun lífeyrisgreiðslna á aðeins tveimur árum segir sína sögu. Vísað er til þingsályktunartillögu á þskj. 3 á 133. löggjafarþingi, um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, sem flutt var af öllum þingmönnum þáverandi stjórnarandstöðu og til ítarlegrar umfjöllunar um velferðarmál í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar á þskj. 345 á yfirstandandi þingi til þess að lýsa almennt áhersluatriðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins í málefnum elli- og örorkulífeyrisþega.

Sérstaklega er minnt á nauðsyn þess að bætur almannatrygginga fylgi almennri launavísitölu og nægi til framfærslu svo að ekki komi til þess á nýjan leik að kjör elli- og örorkulífeyrisþega rýrni í samanburði við aðra þjóðfélagshópa. Í tillögu þingmanna þáverandi stjórnarandstöðu, sem minnt er á að framan, er meðal annars lagt til að skilgreind verði neysluútgjöld lífeyrisþega sem myndi viðmiðun fyrir grunnlífeyri og tekjutryggingu. Viðmiðunin hækki síðan í samræmi við neysluvísitölu og hækki launavísitala umfram neysluvísitölu verði tekið mið af henni og þannig verði lífeyrisþegum tryggð hlutdeild í auknum kaupmætti í samfélaginu. Þá er einnig sérstaklega minnt á áherslur 1. minni hluta á hækkun persónuafsláttar þeirra sem hafa lágar tekjur og auka með þeim hætti kaupmátt þess hóps í þjóðfélaginu. Slík aðgerð mundi að sjálfsögðu gagnast vel elli- og örorkulífeyrisþegum.

Vakin er athygli á því að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja kemur ekki fram hvernig öryrkjum verði skilað sambærilegum ávinningi og ellilífeyrisþegar fá en með frítekjumarki vegna atvinnutekna og að lágmarki 25 þús. kr. á mánuði frá lífeyrissjóði. Greinilegt er að þetta mikilvæga atriði er í óvissu og ríkisstjórnin hefur ekki komið sér niður á lausn fyrir öryrkja. Þess er krafist að sem fyrst verði allri óvissu eytt um hvort og hvernig loforð ríkisstjórnarinnar verði efnt. Annað atriði í yfirlýsingunni er líka þess eðlis að frekari skýringa er þörf, en það varðar boðaðar sérstakar aðgerðir til þess að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta frá og með 1. apríl 2008. Ekkert er látið uppi um það hverjar þessar sérstöku aðgerðir kunna að vera. Af hálfu 1. minni hluta er sett fram sú skoðun að eina færa leiðin, sem sjáanleg er til þess að komast hjá hinum árlegu hvimleiðu kröfum Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslur frá tugum þúsunda lífeyrisþega, eða hið gagnstæða, sé að ákveða að greiddar bætur séu endanlegar og breytingar á bótafjárhæð lífeyrisþega vegna þess að aðstæður hafa breyst gildi aðeins fram í tímann en hafi ekki áhrif á þegar greiddar bætur.“

Virðulegi forseti. Þannig eru áhersluatriði 1. minni hluta hvað varðar almannatryggingarnar og þær breytingar sem boðaðar hafa verið á næsta ári í sérstöku lagafrumvarpi um bætur elli- og örorkulífeyrisþega. Um þetta er kannski ekki mikið fleira að segja en það sem fram kemur í nefndarálitinu. Ég vil þó benda á að við höfum verið að reyna að gera okkur grein fyrir því hvað yfirlýsingin sem kom frá ríkisstjórninni 5. desember virkar á stóran hluta lífeyrisþega, elli- og örorkulífeyrisþega, sem eru um 40 þúsund manns. Við getum ekki lagt nákvæmt mat á það, við höfum ekki nægilegar upplýsingar til að slá fram með sæmilegri nákvæmni hjá hve stórum hópi kjör munu batna og hversu mikið að jafnaði. Eftir því sem ég kemst næst mun þetta fyrst og fremst hafa áhrif á um tvö þúsund ellilífeyrisþega af um 28–29 þúsund ellilífeyrisþegum. Ég hef ekki matið fyrir örorkulífeyrisþega, þeir eru um 13 þúsund, ég mundi halda að þar finni mun stærri hópur fyrir jákvæðum áhrifum af þessari breytingu, þeir eru almennt yngri og eiga yngri maka sem fleiri eru með atvinnutekjur en hvað varðar maka ellilífeyrisþega. Ef þetta er rétt nálgun eða rétt mat eru það kannski um 10% ellilífeyrisþega sem njóta góðs af breytingunni að einhverju marki, ég tel ekki ástæðu til að gera lítið úr því. En það er líka rétt að það liggi þá fyrir að það er skásta matið sem við getum lagt á áhrif breytinganna á þessu stigi. Ég mundi gjarnan vilja að þetta væri rangt mat, að breytingarnar hefðu áhrif á stærri hóp, en það kemur alla vega ekki í ljós í þessari umræðu, en vonandi með lagafrumvörpunum þegar þau verða lögð fram á nýju ári.

Til þess að allrar sanngirni sé gætt væri rétt að meta áhrifin af báðum breytingunum, í desember 2006 og nú á þessu ári, í desember 2007, samanlagt á lífeyrisþegahópinn. Eins og fram kemur í nefndarálitinu er hækkunin um þriðjungur af heildargreiðslunni þannig að þessar tvær breytingar samanlagt hljóta að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega býsna mikið, a.m.k. að meðaltali, þegar svo mikil hækkun verður á útgreiðslum ríkissjóðs og við gleðjumst yfir því. Við bendum hins vegar á það augljósa í því að þetta undirstrikar hvað kjör þessara þjóðfélagshópa voru orðin slæm eins og kom fram í mikilli ókyrrð sem var í þessum hópum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Ég vildi aðeins til samanburðar rifja upp þingsályktunartillögu, um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, sem stjórnarandstaðan lagði fram á síðasta haustþingi fyrir rúmu ári. Hún var um aðgerðir í sex liðum og segja má að fjórir liðir séu að miklu leyti komnir fram í þeim tveimur aðgerðum sem síðan hefur verið ráðist í, annars vegar í desember 2006 og hins vegar núna. Þáverandi stjórnarandstaða var greinilega að móta stefnu eða kröfur sem hafa verið markvissar því að þær hafa mikið til gengið eftir vegna þrýstings frá þeim sem í hlut eiga og auðvitað frá stjórnmálaflokkunum líka.

Það sem mér sýnist að hafi gengið fram að miklu leyti er að hin nýja tekjutrygging, sem var til og var boðuð, hækkaði. Það var krafa um frítekjur vegna atvinnutekna sem væri 900 þúsund á ári og það næst fram með þessum breytingum núna og ríflega það. Það er í þriðja lagi um 50% hækkun á ráðstöfunarfé þeirra sem dvelja á stofnunum og það er að miklu leyti að ganga eftir. Í fjórða lagi eru afnumin að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka. Um áramótin verður skorið á tengsl lífeyrisþega við lífeyristekjur maka og með frumvarpinu sem boðað er verða atvinnutekjur maka líka teknar frá og skerða ekki lengur lífeyrisgreiðslur til lífeyrisþega.

Tvö atriði standa út af þessari stefnumörkun. Annars vegar sú krafa að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót sinni þegar þeir verða ellilífeyrisþegar, sem í dag fellur niður, og hins vegar, sem ég held að sé aðalatriðið, að neysluútgjöld lífeyrisþega verði skilgreind sem myndi viðmiðun fyrir grunnlífeyri og tekjutryggingu og að sú viðmiðun haldi verðgildi sínu og bæturnar séu í samræmi við það.

Ég held að aðalskýringuna á því hversu illa fór í kjörum elli- og örorkulífeyrisþega megi rekja til ákvörðunar árið 1996 þegar ákveðið var á Alþingi að skerða tengingu sem var í almannatryggingalögum fram að þeim tíma, tengingu bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu. Það var skorið á þau tengsl og það hefur leitt til þess að bæturnar lækkuðu í samanburði við verkamannakaupið og verðgildi á árunum þar á eftir. Það er upp úr þeim öldudal sem er verið að ná kaupmætti bótagreiðslnanna með þessum tveimur stóru breytingum, lagafrumvarpinu í desember í fyrra og boðuðu frumvarpi með yfirlýsingu ríkisstjórnar nú 5. desember. Ég held að það sé höfuðatriði að ná fram, til viðbótar því sem boðað er, þessari tengingu, viðmiðun og fastri tengingu við hana, þannig að tryggt sé að í náinni framtíð haldi kaupmáttur bótanna sér, óháð verðþróun eða launaþróun að öðru leyti, þannig að ekki dragi í sundur á milli lífeyrisþega og almenna vinnumarkaðarins.

Virðulegi forseti. Ég vil víkja aðeins að nefndarálitinu og lesa 3. kafla þess sem fjallar um heilbrigðismál, með leyfi forseta:

„Rík ástæða er til þess að gera sérstaka grein fyrir áformum í fjárlagafrumvarpinu um verulega hækkun sértekna í heilbrigðiskerfinu sem lýsir einfaldlega áformum um hækkun á hlut sjúklinga. Samtals verða þessar sértekjur um 5,1 milljarður kr. og hækka um 34% en þær voru 3,8 milljarðar kr. í fjárlögum yfirstandandi árs. Heilbrigðisráðuneytið mun afla með sértekjunum tekna sem standa undir um 3,3% af útgjöldum ráðuneytisins. Það er hækkun úr 2,6% eða um fjórðung. Þetta ber að skoða í því ljósi að sjúklingar eða notendur heilbrigðisþjónustunnar greiða um 17% af heildarkostnaði og ríkið 83% samkvæmt síðustu tölum. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að komugjöld hækki um 160 millj. kr. og gert er ráð fyrir hækkun á viðmiðunarmörkum afsláttarkorta í heilbrigðisþjónustunni. Hækka á greiðslur frá vistmönnum á öldrunarheimilum um 90 millj. kr. en í frumvarpinu segir að það sé vegna aukinna tekna vistmanna. Tæpur helmingur sérteknanna kemur Landspítalanum, rúm 25% frá heilsugæslu og heilbrigðisstofnunum og 11% frá öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimilum. Hækkun sérteknanna í fjárlögunum er greinilega til þess að auka hlut sjúklinganna. Ekki er gott að meta hve mikil hækkunin kann að verða en hún gæti orðið rúmlega 1% af heildarkostnaði í heilbrigðiskerfinu og yrði þá hlutur sjúklinga orðinn meiri en 18% af heildarkostnaðinum, sem er í dag um 17%.“

Þetta er þróun í öfuga átt. Ég held, virðulegi forseti, að menn ættu að staldra við. Hlutur sjúklinga í heildarkostnaði í heilbrigðisþjónustu hefur farið fremur vaxandi á undanförnum árum og var samkvæmt síðustu tölum 17% en ríkið greiddi um 83%. Það er hlutfall sem menn ættu að halda sig við og auka ekki við hlut sjúklinga frá því sem hann er kominn í. Ef miðað er við að heilbrigðiskerfið kosti um 100 milljarða kr. er hvert prósentustig um 1 milljarður kr. Það eru því um 17 milljarðar sem sjúklingar greiða af heildarkostnaði. Hann dreifist reyndar afar ójafnt niður á þá sem þurfa að nota heilbrigðiskerfið, ekki eftir efnum og ástæðum heldur fremur eftir sjúkdómum eða hvert lækning er sótt og jafnvel eftir meðhöndlun, kostnaður getur verið breytilegur eftir því hvernig meðhöndlunin er. Ég held að menn ættu frekar að skoða dreifingu á þessum kostnaði en að auka hlut sjúklinga frá því sem nú er. Það er líklegt að sú aukning verði fyrst og fremst sótt í vasa þeirra sem hafa lágar tekjur, a.m.k. að hlutfalli til.

Lokakaflinn í nefndaráliti 1. minni hluta fjallar um KADECO, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Málefni félagsins komu til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að tekjur og gjöld félagsins séu færð í gegnum ríkissjóð og gerir 1. minni hluti ekki athugasemd við þá skipan mála og telur hana eðlilega. Gerð er athugasemd við að ekki hefur verið orðið við beiðni sem fram kom í nefndinni um að þar yrðu lögð fram og kynnt öll tilboð sem borist hafa í eignir og allir samningar, bæði um sölu eigna og kaup félagsins á þjónustu. Nefndarmenn fjárlaganefndar fengu að kynna sér kaupsamninga, sem reyndar voru óundirritaðir, með skilyrði um að virða trúnað hvað varðar söluskilmála þar til kaupendur hefðu samþykkt að skilmálarnir yrðu opinberir. Sjálfsagt er að virða þann trúnað en 1. minni hluti telur að þeir sem annast sölu á eignum ríkissjóðs og þeir sem bjóða í þær verði að undirgangast það að samningar og tilboðin verði gerð opinber. Ríkið getur ekki átt í viðskiptum sem þola ekki dagsins ljós. Þess er vænst að sem fyrst verði uppfylltar fram komnar óskir í fjárlaganefnd um umbeðnar upplýsingar.

Ástæða er til þess að vekja athygli á þeirri gleðilegu þróun sem orðið hefur á Suðurnesjum í atvinnumálum svæðisins, þrátt fyrir brottför hersins, að íbúum heldur áfram að fjölga og atvinnulíf virðist styrkjast jafnt og þétt. Vel hefur gengið að skapa ný störf í stað þeirra sem hurfu með brottför hersins og mun betur gengur að koma húseignum á Keflavíkurflugvelli í ný not en búist hafði verið við. 1. minni hluti fagnar þessum góða árangri í atvinnuuppbyggingu til þessa.“

Lýkur þar að segja frá og mæla fyrir nefndaráliti 1. minni hluta.

Um málefni KADECO er kannski ekki mikið að segja á þessu stigi umfram það sem þegar hefur komið fram. Stjórn þróunarfélagsins hefur ákveðið að gera opinbera alla samninga sem það hefur gert og öll tilboð sem borist hafa í eignir. Almenningur getur því kynnt sér þá samninga á næstu dögum og tekið afstöðu til þess sem þeir hafa að geyma og hvort menn telji þá skilmála sem í þeim eru eðlilega eða óeðlilega. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig sú umræða þróast.

Eðlilegt er að menn velti fyrir sér söluverði eignanna sem þegar hafa verið seldar og hvort verðið hafi verið of lágt eða ekki. Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að gera stjórnsýsluúttekt á þróunarfélaginu og mun einmitt taka þessi atriði til skoðunar. Ég hygg að skynsamlegt sé að bíða með álit á þeim þætti málsins þar til mat Ríkisendurskoðunar liggur fyrir enda geri ég ráð fyrir að Ríkisendurskoðun hraði málinu svo sem verða má þannig að ekki verði óeðlilegur dráttur á því að almenningur og Alþingi geti metið málið út frá niðurstöðu hennar. Ég held hins vegar að nauðsynlegt sé að upplýsa málið sem best og skýra alla þætti þess sem kunna að vekja upp spurningar í hugum manna því að það er besta leiðin til að ná fram skynsamlegri niðurstöðu um það álitaefni hvort rétt hafi verið staðið að sölu eigna og hvort salan hafi verið á eðlilegum kjörum o.s.frv.

Á þessu stigi held ég að rétt sé að leggja fyrst og fremst áherslu á tilgang málsins sem er að bregðast við brottför hersins en við það hurfu af svæðinu u.þ.b. 900 störf nánast á einu bretti og það er mikið átak að bregðast við slíkum áföllum í atvinnulífi. Ríkisstjórnin, bæði núverandi og sú fyrrverandi, mátti leggja sig fram um að finna lausnir á því sviði og fá menn til að taka það að sér að reyna að bregðast við þeim breytingum. Eins og fram kemur í nefndarálitinu vill 1. minni hluti vekja athygli á því að þróunin hefur verið jákvæð þrátt fyrir allt, vel hefur gengið að skapa ný störf í stað þeirra sem hurfu. Íbúaþróun á svæðinu er jákvæð, fólki fjölgar, og það er mjög mikil uppbygging á almennum íbúðamarkaði og sennilega meiri en nokkru sinni fyrr þrátt fyrir að þessi fjöldi íbúða innan gamla vallarsvæðisins sé seldur á sama tíma.

Virðulegur forseti. Ég held að ég orðlengi ekki frekar um þessi málefni. Áhersluatriði okkar varðandi þessi mál koma fram í nefndarálitinu og þau tala sínu máli.

Ég vil að lokum minna á breytingartillögur 1. minni hluta sem hv. þm. Jón Bjarnason mun gera grein fyrir. Ég vil þó aðeins geta einnar tillögu sem ég stend að ásamt öðrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar, um fjárveitingu til háskóla á Vestfjörðum. Vænti ég þess að sú tillaga fái mikinn stuðning hér.

Loks vil ég mæla fyrir einni lítilli breytingartillögu sem ég flyt og er að finna á þskj. 461, um nýtt verkefni sem tekið var fyrir og lagt til í skýrslu nefndar um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum og fjallar um skráningu kirkjugripa í Sarp sem er gagnagrunnur minjavörslunar. Sú tillaga er upp á 3,7 millj. kr. á næsta ári. Í greinargerð með tillögunni í skýrslu Vestfjarðanefndar frá því í apríl 2007 segir um þessa tillögu að verkefnið beinist að því að auka atvinnuþátttöku landsbyggðarfólks á sviði minjavörslu við að skrá gripi í kirkjum landsins og færa upplýsingarnar inn í gagnagrunn minjavörslunnar. Þessi hugmynd kom fyrst fram frá minjaverðinum að Hnjóti í Ölfushöfn, sem var þar fyrir nokkrum árum en er því miður fallinn frá, en það var áhugamál hans að koma þessu verkefni áfram. Það er komið inn í skýrslu Vestfjarðanefndarinnar og ég leyfi mér að taka þessa hugmynd hér upp og flytja hana sem breytingartillögu við fjárlögin. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðuneytið annist framkvæmdina í samstarfi við Fornleifavernd ríkisins og hafi ábyrgð á verkefninu en það verði unnið á Vestfjörðum. Um er að ræða 80% stöðugildi og gert er ráð fyrir að verkefnið geti verið til þriggja ára. Tillagan er hins vegar um fjárveitingu fyrir næsta ár, 3,7 millj. Ég vænti þess að hv. alþingismenn íhugi þessa tillögu og komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að styðja hana, en við sjáum til með það, virðulegi forseti.

Ég þakka fyrir gott samstarf í nefndinni þá daga sem ég sat í henni í forföllum og sérstaklega við oddvita meiri hlutans sem ég átti auðvitað mest samskipti við á þeim tíma, svo og oddvita stjórnarandstöðuflokkanna tveggja, Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.