135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Yfirskriftin á þessari utandagskrárumræðu er staða þjóðkirkjunnar. Það er því eðlilegt að spyrja fyrst: Hver er staða þjóðkirkjunnar? Svarið við spurningunni er ákaflega einfalt: 82% landsmanna eru í þjóðkirkjunni. Staða þjóðkirkjunnar er ákaflega sterk, hún hefur yfirburðastöðu yfir öll önnur trúfélög á landinu. Staða kristninnar er enn sterkari en staða þjóðkirkjunnar, um 95% landsmanna (Gripið fram í.) tilheyra kristnum söfnuðum hér á landi. Trúfrelsi er eitt og það ber að virða en að setja alla við sama borð, án tillits til stöðu þeirra í þjóðfélaginu, er fráleitt.

Ég er eindregið á þeirri skoðun að kristnin sem nýtur svona mikils stuðnings í íslensku þjóðfélagi og hefur gert í þúsund ár eigi ekki að sitja við sama borð og önnur trúarbrögð sem e.t.v. örfáir aðhyllast. Það er afskræming á trúfrelsinu. Við eigum að byggja á kristnu siðferði eins og við höfum gert, það á að vera samofið daglegu lífi og störfum okkar og það á erindi inn í skóla landsins. Það er fráleitt að úthýsa kirkjunni úr skólum landsins þegar kirkjan hefur svo sterka stöðu eins og raun ber vitni. Það endurspeglar ekki vilja þjóðarinnar að fara svoleiðis að, virðulegi forseti.

Hitt má líka segja að þjóðkirkjan þarf svolítið að gá að því hvernig hún gengur fram á hverjum tíma. Opinberar deilur sem gjósa upp innan þjóðkirkjunnar hafa ekki styrkt stöðu hennar. Þeir sem starfa innan þjóðkirkjunnar mega huga meir að því en verið hefur (Forseti hringir.) að gæta þess að leysa úr sínum málum innan kirkjunnar en ekki í opinberum fjölmiðlum.