135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að mæla fyrir nokkrum af þeim breytingartillögum sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum og mun þá hefja ræðu mína þar.

Á þskj. 472 eru breytingartillögur við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008, flutt af Jóni Bjarnasyni, Álfheiði Ingadóttur og Atla Gíslasyni. Þar er fyrsti liður, að brott falli liður 5.1 í fjárlagafrumvarpinu sem er heimild til handa ríkissjóði, fjármálaráðherra, til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Deildartunguhver sem er hluti af þeirri eign. Inni í fjárlagafrumvarpinu er nú opin heimild fyrir ríkissjóð til að selja hlut sinn í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Ríkissjóður á um 21% í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar á móti Orkuveitu Reykjavíkur sem viðkomandi sveitarfélög létu hlut sinn inn í og eiga svo hlut í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar í gegnum eignarhlut sinn í Orkuveitunni.

Við erum andvíg því að söluheimildin sé inni. Við erum minnug þess hvernig fór með Hitaveitu Suðurnesja. Þar var tilsvarandi söluheimild inni á fjárlögum, að ríkið mætti selja 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja sem það nýtti sér og seldi. Samkvæmt útboðsskilmálum gátu sveitarfélögin eða orkuveitur í eigu sveitarfélaga ekki gert tilboð í það. Síðan var Hitaveita Suðurnesja seld og við fengum einkavæðingarferil sem teygir anga sína víða. Það leiddi að síðustu til þess að borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll. Það er svo sem gleðilegt í sjálfu sér en við viljum að hið opinbera eigi afdráttarlaust þessar eignir, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Deildartunguhver, og erum andvíg því að það verði sett á sölulista eins og þarna er heimilað.

Við leggjum til að ríkið hafi heimild til að kaupa aftur hlut sem það seldi í Hitaveitu Suðurnesja, 15% hlutinn, og við teljum að staða málsins sé þannig að ríkið geti þess vegna tekið upp samninga við fyrri kaupendur á hlutnum. Við tökum þar með undir orð borgarstjórans í Reykjavík, Dags B. Eggertssonar, sem óskað hefur eftir fundi með hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde um að ríkið kaupi aftur hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Við tökum því undir sjónarmið oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavíkurborg um að teknar verði upp viðræður við ríkið um að ríkið kaupi aftur 15% hlutinn í Hitaveitu Suðurnesja og viljum að heimild sé á fjárlögum til þess að svo megi vera.

Ég vísa hér í mjög ítarlegt viðtal við borgarstjórann, Dag B. Eggertsson, miðvikudaginn 28. nóvember sl. í Viðskiptablaðinu. Þar er sú ósk er lögð fram og hefur síðan komið fram í öðrum fjölmiðlum þar sem borgarstjórinn í Reykjavík óskar eftir viðræðum við ríkisstjórnina m.a. um að ríkið komi að kaupum og kaupi hlutinn til baka. Ég geri ráð fyrir að þingmenn Samfylkingarinnar á Alþingi muni þá styðja sinn borgarstjóra hvað þetta varðar, enda er þetta mjög brýnt mál.

Í þriðja lagi leggjum við til að hlutafélaginu Matís, sem stofnað var um síðustu áramót um matvælaeftirlit og önnur slík störf og breytt var í hlutafélag, verði breytt aftur í ríkisstofnun. Breytingarnar reyndust hin mestu mistök, bæði voru þær gríðarlega kostnaðarsamar og leiddu til meiri óskilvirkni en áður og skildu starfsmenn eftir í óvissu. Þess vegna leggjum við til að heimilað verði að breyta Matís aftur í ríkisstofnun.

Sömuleiðis leggjum við til með Flugstoðir hf., sem einnig voru stofnaðar um sl. áramót um flugleiðsögn og rekstur á flugvöllum í landinu, verði breytt aftur í ríkisstofnun. Það hafa einnig reynst hin herfilegustu mistök að búa til hlutafélag um flugleiðsögn og rekstur á flugvöllum í landinu. Það hefur meira að segja reynst þannig að þeir hafa ekki einu sinni fengið virðisaukaskattsnúmer hjá skattstjóra, svo vitlaust var það. Við leggjum til að ríkinu verði heimilt að breyta Flugstoðum í ríkisstofnun þannig að flugleiðsögn og rekstur flugvalla í landinu verði hluti af opinberum rekstri. Það er ekki síst nauðsynlegt að gera nú þegar verið er að flytja með lögum flugumferðarstjórn frá Keflavíkurflugvelli undir samgönguráðuneytið. Þá er mjög mikilvægt að öll flugumferðarstjórn lúti sömu lögum og starfsmenn sem þar vinna. Starfsmenn á Keflavíkurflugvelli eru opinberir starfsmenn og mikilvægt er að hið sama gildi um alla. Því er mikilvægt að þeim fáránlega gjörningi að búa til hlutafélag úr flugleiðsögninni, verði snúið til baka og Flugstoðir verði ríkisstofnun. Þessar tillögur flytjum við hér, frú forseti.

Aðrar tillögur sem við flytjum hér, og ég mun gera grein fyrir, eru að við leggjum áherslu á jöfnun námskostnaðar. Eins og við vitum býr fólk við gríðarlega mismunun varðandi kostnað við að senda börn og unglinga í skóla, hvort sem er í framhaldsskóla eða háskóla. Í úttekt sem Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, gerði á Vestfjörðum, kostar það töluvert á aðra milljón kr. fyrir hverja fjölskyldu að senda ungling að heiman í framhaldsskóla þegar kostnaðurinn er tekinn með, húsnæðiskostnaður, námskostnaður, ferðakostnaður og þess háttar. Allir sjá hversu gríðarleg mismunun það er og við krefjumst þess að gripið verði til aðgerða þegar í stað til að jafna þennan kostnað og leggjum því til jöfnun á námskostnaði einmitt hvað þetta varðar.

Sömuleiðis vekjum við athygli á barnabótum. Barnabætur standa í stað, þær fylgja ekki einu sinni verðlagi eða launaþróun, þær standa í stað. Við gerum tillögu um að þær fylgi verðlagi og launaþróun og leggjum til um 800 millj. kr. til barnabóta.

Sömuleiðis vil ég tala um vaxtabætur sem áttu að létta undir með þeim sem kaupa sér húsnæði og hafa átt rétt á vaxtabótum. Vaxtabæturnar hafa engan veginn fylgt þróun húsnæðisverðs eða almennrar vísitölu í landinu þannig að fólk sem reiddi sig á vaxtabætur er nú í miklum vandræðum. Hús og íbúðir sem fólk hefur keypt hafa hækkað í fasteignamati og eign og við það missir fólkið rétt til vaxtabóta. Þótt íbúðin sé þeim nákvæmlega jafnmikilvæg og þótt tekjur þeirra séu nákvæmlega þær sömu þá skerðist réttur þeirra til vaxtabóta. Það er mjög óréttlátt og við leggjum til að vaxtabætur verði hækkaðar til að koma til móts við þó ekki sé nema bara þessa þróun og leggjum þar til 800 millj. kr.

Sömuleiðis leggjum við til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái sérstakt viðbótarframlag. Mörg sveitarfélög eru í miklum fjárhagslegum vanda, sérstaklega á ákveðnum svæðum á Vestfjörðum, Norðurlandi, Norðausturlandi, Suðausturlandi. Við leggjum til að framlag komi til þessara sveitarfélaga til að þau geti haldið uppi þjónustu þrátt fyrir að efnahagur og fjárhagur skerðist.

Sömuleiðis leggjum við til að framlag komi til fyrsta áfanga í gjaldfrjálsum leikskóla sem er eitt helsta hagsmunamál íbúa alls landsins. Brýnt er að ríkið komi með beint framlag inn í þann málaflokk til þess að hægt sé að taka á því með samræmdum hætti. Fátt er meiri kjarabót en að styrkja og efla leikskólann og að foreldrar geti sent börn sín á jafnræðisgrunni inn í leikskólana óháð tekjum.

Þá leggjum við áherslu á hækkun húsaleigubóta sem einnig hafa staðið í stað og ekki fylgt verðlagi eða hækkun á húsaleigu. Það kemur á óvart en af því að hv. þm. Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar er hér inni í þingsalnum þá vil ég segja að er ég mjög minnugur ræðnanna sem fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd fluttu einmitt um þessi mál, barnabætur, húsaleigubætur og vaxtabætur fyrir ári síðan. (HHj: Viltu ekki fara með þær?) Svardagarnir sem þingmenn Samfylkingarinnar voru þá með uppi um hvað bæri og þyrfti að gera — og nú er Samfylkingin komin í ríkisstjórn og þá rýrna þær meira að segja að verðgildi hlutfallslega. Það er dapurt hlutskipti en það var eins og við vissum, að ekkert mundi breytast þó að ný ríkisstjórn yrði mynduð með Samfylkingunni, hún gengi undir sængurver Framsóknarflokksins án þess að skipt væri um.

Við leggjum síðan til hækkun á jöfnun flutningskostnaðar. Í upphaflega frumvarpinu voru lagðar til 150 millj. kr. til jöfnunar á flutningskostnaði og voru merktar Vestfjörðum. Það var liður í einhverjum samningum eða loforðum sem ríkisstjórnin hafði gefið Vestfirðingum í svokallaðri Vestfjarðaáætlun. Því var jú breytt í meðförum við 2. umr. þannig að nú er það ekki lengur bundið Vestfirðingum heldur bara jöfnun flutningskostnaðar á landinu þar sem þörf er á en upphæðin stendur óbreytt, 150 millj. kr. Ég tel að eitt brýnasta verkefnið sé einmitt jöfnunaraðgerðir í flutningskostnaði og þetta er eitt af digrum kosningaloforðum margra stjórnmálaflokka og einmitt þeirra sem nú eru komnir í ríkisstjórn.

Ég minnist umræðu núverandi hæstv. samgönguráðherra sem var mjög ötull að tala fyrir jöfnun flutningskostnaðar hér á þingi og mældi í krónum hvað kexpakkinn væri dýr úr Reykjavík og austur á Þórshöfn eða Raufarhöfn og við áttum samleið í því að vilja aðgerðir í þeim efnum. Ekkert gerist. Hvernig á að standa við loforðin sem gefin voru Vestfirðingum ef þetta er orðið almennt? Við teljum að taka eigi á flutningskostnaðinum og leggjum til, og erum sammála í því, að það sé tekið heildstætt. Við leggjum til að lagðar verði 500 millj. kr. til að taka raunverulega á jöfnun flutningskostnaðar. Með hækkandi olíuverði og dýrari flutningum öllum verður það æ erfiðara og skekkir samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar og því er brýnt að taka á jöfnun flutningskostnaðar.

Fleiri breytingartillögur eru hér sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum sem aðrir þingmenn munu gera grein fyrir. Í lok fyrri ræðu minnar ítreka ég að breyta þarf vinnulagi við fjárlagagerðina þó að margt hafi þar verið gert eins vel og tök voru á af hálfu fjárlaganefndar innan þess skamma tíma sem nefndin fékk frumvarpið til meðferðar, það er frá 1. október og þar til nú. Það er ekki langur tími til þess að fara yfir bæði tekjur og gjöld, forsendur einstakra liða og ég vil að vinnulaginu sé breytt. Ég hef ítrekað lagt fram frumvarp á Alþingi um breytt vinnulag við gerð fjárlaga. Ég hef m.a. lagt til frumvarp um að lagður verði fram ákveðinn rammi að vori um fjárlög næsta árs, áherslur í veigamestu málaflokkum og mat á tekjuliðum o.s.frv. og ræddur á Alþingi. Það yrði rætt á vorþingi og færi í vinnslu yfir sumarið og fram á haust þar sem fjárlaganefnd væri lykilaðili í þeirri vinnu. Þegar frumvarpið kæmi fram 1. október, eða hvenær sem það gerðist, væru fjárlaganefndarmenn búnir að kynna sér það og vissu fyrir fram meginþætti þess en ekki eins og nú þegar farið er með það eins og mannsmorð fram á þingsetningardag og þá dreift. Það tel ég ekkert vinnulag.

Síðan tel ég mjög mikilvægt að öll gögn varðandi fjárlagagerðina og undirbúning hennar þurfi að liggja frammi og vera aðgengileg og að fjárlaganefnd þurfi að fá aukinn liðsstyrk varðandi fjárlagavinnuna. Ég hef flutt um það tillögu á undanförnum árum að sérstök efnahags- eða fjárlagaskrifstofa væri sett á fót og gæti verið þinginu til stuðnings varðandi mat og vinnu við fjárlagagerðina og við mat á stöðu efnahagsmála o.s.frv. Vinnan í haust undirstrikar enn frekar þörfina á því. Síðan tel ég að ýmislegt annað megi gera varðandi umfjöllun um fjárlögin inni á Alþingi þar sem hægt væri að knýja ráðherra til meiri virkni við að svara fyrir meðferð mála og stöðu þeirra.

Það tökum við upp í umræðunni um fjárlögin og ég tek undir orð hv. formanns fjárlaganefndar sem hefur sagt, og reyndar hefur það verið um rætt inni í nefndinni, að menn mundu freista þess að taka upp önnur vinnubrögð hvað varðar fjárlagagerðina og eftirlit með framkvæmd fjárlaga.

Ég vil þó segja að ég tel að nefndin hafi ekki farið nægilega vel ofan í forsendur ýmissa þátta þannig að margar stofnanir fari inn í næsta ár með fyrirsjáanlegan halla og rekstrarvanda. Ég nefni þar marga skóla, háskóla, framhaldsskóla. Mér finnst t.d. dapurt að senda landbúnaðarháskólana með verulegan halla á bakinu undir annað ráðuneyti, ef fram fer sem horfir, frá og með næstu áramótum. Það eru skólar sem verið hafa í miklum vexti á undanförnum árum og allir hafa verið stoltir af þeim vexti sem þar hefur átt sér stað en fjárveitingar hafa ekki fylgt þar eftir, ekki einu sinni með lagasetningum Alþingis. Mér finnst miður að þeir skuli vera sendir ekki aðeins með halla heldur líka fyrirsjáanlegan rekstrarfjárskort inn í nýtt ár. Sömuleiðis eru heilbrigðisstofnanirnar sendar með fyrirsjáanlegan rekstrarvanda eins og ég minntist á áðan. Elli- og hjúkrunarheimilin eru send út í næsta ár með fyrirsjáanlegan rekstrarvanda ef ekki verður mikill niðurskurður á skuldum.

Það er því margt sem mætti betur fara og ég vitna til ræðu minnar fyrr í dag og þeirra tillagna sem ég hef flutt. Einn alvarlegasti þáttur í þessum málum við fjárlagafrumvarpið er annars vegar hve skertar fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins eru miðað við þarfirnar. Hins vegar, og það sem er svo einkennandi fyrir fjárlögin að öðru leyti, er að nú skuli vera keyrðar inn sérstakar fjárveitingar til hermála til þess að setja á fót stofnun sem á að hafa umsjón með heræfingum á Íslandi. Ef litið er á árin 2007 og 2008 er hér um tvo og hálfan milljarð að ræða samtals á einu ári sem verja á til hermála. Það hefur aldrei verið gert áður í Íslandssögunni, í lýðveldissögunni, að stofnun sé sett á fót sem hafa á umsjón með heræfingum og reka hér heræfingar. Það væri nær að nota þennan tvo og hálfan milljarð kr. sem fer í þau málefni til þess að styrkja velferðarkerfið, til þess að láta fjármagn inn í heilsugæsluna, Landspítalann, elli- og hjúkrunarheimilin o.s.frv.

Frú forseti. Ég kem síðar og geri grein fyrir þeim þáttum frumvarpsins sem ég hef ekki gert í þessari ræðu.