135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns og þakka fyrir gott samstarf í fjárlaganefnd eins og ég gat um í ræðu minni. Þar voru allir eftir því sem tök voru á samstiga um að vinna sem best að þeim málum sem að nefndinni sneru hvað þetta varðaði þó að pólitískar leiðir skildi að vísu í nálgun stærri mála. Þess vegna er okkur jú skipt í stjórnmálaflokka og við tökumst á út frá því.

Ég vildi í fyrsta lagi taka undir með hv. þingmanni um stuðning við störf stjórnmálaflokka og þingmanna í landsbyggðarkjördæmum sem var hluti af sáttmála á bak við síðustu kjördæmabreytingu, kjördæmabreytingu sem ég tel í sjálfu sér hafa verið arfavitlausa. Ég var ekki sammála henni á sínum tíma og legg áherslu á að í umræðunni og í fjárlaganefnd var þessi fjárauki sem settur var inn einmitt vegna þessa en algjörlega óháður eða ótengdur frumvarpinu um þingsköpin. Ég man að ég spurði einmitt um það og við ræddum það sérstaklega. Hv. formaður fjárlaganefndar gat þess að þetta væri ætlað til þeirra verkefna sem þarna væri talað um en væri óháð þingskapafrumvarpinu. Þess vegna studdi ég þessa upphæð.

Hv. þingmaður minntist á bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og beinar upphæðir sem þeir telja að vanti inn í frumvarpið. Það er í sjálfu sér utan við samkomulag, eru bara tölurnar harðar á borðinu, en við flytjum hér, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tillögurnar beint upp úr bréfi (Forseti hringir.) Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nú spyr ég hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort hann styðji ekki þessar tillögur (Forseti hringir.) sem eru komnar þar innan úr húsi.