135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:50]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar, eins og reyndar fleiri hv. fjárlaganefndarmenn hafa gert í sínum fyrri ræðum, að þakka kærlega öllu starfsfólki sem unnið hefur með okkur baki brotnu að undanförnu fyrir vinnuframlag þess. Einnig þakka ég að sjálfsögðu meðnefndarmönnum mínum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið sem hefur oftast nær verið afar gott. Ég vil líka í upphafi máls míns þakka sérstaklega formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnari Svavarssyni, fyrir góða verkstjórn á þessu hausti. Ég hygg að það hafi ekki verið einfalt fyrir hann sem nýjan þingmann að koma hér inn og taka við þessu stóra verkefni sem er að stýra gerð fjárlagafrumvarpsins, ekki síst vegna þess að nú hefur verið ákveðið, eins og margoft hefur komið fram hér úr þessum ræðustól að undanförnu, að breyta vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Það hefur að vissu leyti tekist þegar núna í haust en auðvitað er enn þá margt sem má laga og verður lagað við gerð næstu fjárlaga.

Venjan hér hefur verið sú að mestöll vinna fjárlaganefndar hefur farið fram á haustmánuðum og mér er sagt af reyndara og eldra fólki að fjárlaganefnd hafi svo nánast ekkert fundað fyrstu mánuði ársins. Nú er boðað af formanni fjárlaganefndar, hv. þingmanni, að á þessu vinnulagi verði breyting og nefndin komi til með að starfa með jafnari hætti yfir árið en verið hefur, enda ekki vanþörf á vegna þess að nú þarf að fara í rammafjárlagagerð og langtímaáætlanir. Ég þakka formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnari Svavarssyni, kærlega fyrir að hafa haldið utan um þessa vinnu með eins góðum hætti og raun ber vitni.

Það sem einkennir fjárlagafrumvarpið núna er auðvitað gríðarlega góð afkoma, alls ríflega 39 milljarða kr. afgangur sem ég hygg að sé einsdæmi. Hækkun hins vegar milli 2. og 3. umr. í A-hluta ríkissjóðs er ríflega 2,6 milljarðar. Tekjurnar hækka reyndar líka, þar auðvitað munar mest um sölu eigna á fyrrum varnarsvæði í Keflavík en eins og ég segi verður tekjuafgangurinn um 39 milljarðar.

Við búum núna við mikið góðæri og höfum gert um nokkurn tíma en á sama tíma og þetta góðæri ríkir er það þannig í samfélagi okkar að enn eru því miður allt of margir sem lifa undir fátæktarmörkum og finna ekki fyrir þessu góðæri sem flestallir aðrir landsmenn finna fyrir. Það er verkefni þessarar ríkisstjórnar að jafna kjörin með ákveðnum aðgerðum á kjörtímabilinu en um leið og það er gert eru auðvitað líka ýmis teikn á lofti nú um stundir varðandi íslenskt efnahagslíf og ljóst að stjórnvöld verða að hafa styrka stjórn á efnahagsmálunum. Þá eru auðvitað komandi kjarasamningar lykillinn að því að vel takist til hér á næstu árum og þá reynir á alla. Það reynir á ríkisvaldið, sveitarfélögin, atvinnurekendur og verkalýðshreyfinguna.

Mér finnst satt best að segja miðað við þann tón sem heyrst hefur hingað til frá þessum aðilum að hugsanlega geti verið hægt að ná einhvers konar samstöðu um að taka réttan kúrs næstu mánuðina. Það skiptir miklu máli, ekki síst tekjulægsta hópinn og það fólk sem lifir ekki við það góðæri sem við hin lifum við, að hlutur þess verði réttur í næstu kjarasamningum og að aðrir verði þá hugsanlega að gefa pínulítið meira eftir en gert hefur verið á umliðnum árum í kjaraviðræðum og einbeita sér að þeim hópi sem hefur það hvað verst.

Ég held að sú ríkisstjórn sem nú situr — maður þarf ekki nema að líta til stjórnarsáttmálans til að sjá að þar er mikil áhersla lögð á hin félagslegu gildi, ef svo má að orði komast, á félagsmálin, heilbrigðismálin og menntamálin. Það var sögulegt samstarf sem tókst milli þessara tveggja flokka við myndun síðustu ríkisstjórnar, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, samstarf tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins og þar með gríðarlega sterkur meiri hluti hér á Alþingi.

Eins og ég sagði áðan snýst rauði þráðurinn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um lífsgæði. Þegar ég segi lífsgæði á ég auðvitað við heilbrigðismálin, félagsmálin og menntamálin að ógleymdum samgöngumálunum. Í félagsmálunum er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gerð í framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar grein fyrir gríðarlegum viðbótum milli 2. og 3. umr., viðbótum sem felast í aðgerðum sem fyrst og fremst gagnast eldra fólki og lífeyrisþegum. Það eru aðgerðir sem felast í því að draga úr tekjutengingum við bætur, afnema tekjutengingu við tekjur maka, að ríkissjóður tryggi 25 þús. kr. lífeyrissjóðsgreiðslu á mánuði, aðgerðir um að hækka vasapeninga og draga úr of- og vangreiðslum almannatrygginga. Það er einnig gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum fyrir örorkulífeyrisþega vegna örorkumats og starfsendurhæfingar.

Auðvitað má alltaf deila um það hvort nóg sé að gert. Það hefur vakið athygli mína í þessum umræðum að margir hv. þingmenn hafa því miður runnið þá leið að sjá ekkert jákvætt í þessum hugmyndum og vilja bara gera enn þá meira fyrir enn þá fleiri hópa. Þetta er fyrsta skrefið og þetta er viðleitni sem ber að fagna, þetta eru aðgerðir sem munu koma stórum hópum ákaflega vel og við eigum að fagna því. Þetta er, eins og ég segi, í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og stefnuyfirlýsingu.

Ég vil líka nefna hér þátt sem ég gerði að umtalsefni við 2. umr. og lýtur að Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þar eru settir inn umtalsverðir fjármunir, um 75 millj. ef ég man rétt, og þetta skiptir verulega miklu máli fyrir stóran hóp fatlaðra, ekki síst kannski geðfatlaða svo að einhver hópur sé nefndur, en þessir fjármunir eiga auðvitað að nýtast öllum þessum hópum án tillits til þess hvernig fötlunin er skilgreind.

Þegar ég er farin að ræða hér um félagsmálin vil ég einnig nefna aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna sem hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir kynnti á Alþingi í sumar. Það hefur vakið athygli mína við fyrri umræður um þetta fjárlagafrumvarp að minni hlutinn á þinginu hefur helst horft til þess að engir fjármunir séu inni í aðgerðaáætluninni. Ég hef gjarnan svarað því þannig í þeirri umræðu að ég hef bent á þá fjármuni sem fara í Barna- og unglingageðdeild en þegar ég var að undirbúa mig undir 3. umr. þræddi ég mig í gegnum allt fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir og mig langar að fara hér yfir þau atriði þar sem fjármunir eru veittir með beinum hætti sem framhald af samþykkt aðgerðaáætlunarinnar í málefnum barna og ungmenna.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hyggst nú gera matarhlé á þingfundi. Forseti getur ekki heyrt annað en að hv. þingmaður eigi nokkuð eftir af ræðu sinni og vill því bjóða hv. þingmanni að gera hlé á henni þangað til matarhléi lýkur um klukkan átta. Er það viðunandi?)

Frú forseti. Ég er rétt að hefja ræðu mína þannig að ég skal bíða hér í klukkustund.