135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi ríkissjóð er það að sönnu rétt að hann stendur vel, og það er ákaflega mikilvægt. Það skyldi nú ekki vera að við ættum talsvert eftir að þurfa á því að halda á næstu árum.

Þó að ríkissjóður standi jafnsterkt og raun ber vitni er engu að síður svo komið, virðulegi forseti, að lánshæfismat íslenska þjóðarbúsins er að lækka. Það lækkar eða því er breytt úr stöðugu í neikvætt af hálfu helstu greiningaraðila. Tveir af þremur stóru greiningaraðilunum hafa á undanförnum mánuðum breytt lánshæfismati þjóðarbúsins á þann veg. Það ætti að vera okkur alvarlegt umhugsunarefni að það hefur gerst þrátt fyrir að ríkissjóður standi þetta sterkt.

Ástæðan fyrir því að lánshæfismatið hefur hangið uppi er ríkissjóður. Það er alveg augljóst mál. Það er horft mjög til þess að hann standi sterkt — og það er vel — og sé nánast skuldlaus. Á því höfum við flotið en skuldir þjóðarbúsins sem slíks eru einfaldlega orðnar miklar og öll þau hlutföll svo öfug. Það fer auðvitað ekkert fram hjá þeim aðilum sem fylgjast með þessum hlutum og eru að vakta þá úti í hinum stóra heimi þegar við erum komin efst á listana hjá OECD og komin með skuldugustu heimilin, skuldugasta atvinnulífið og eitt skuldsettasta þjóðarbúið.

Varðandi sveitarfélög sem selja frá sér verðmætar eignir er í sjálfu sér aldrei neitt sérstakt gleðiefni ef afkoma þeirra byggir bara á slíku. En það er sérstaklega grátlegt ef sveitarfélög hrekjast til þess að láta frá sér undirstöðuþjónustu eða veitustarfsemi eða annað í þeim dúr sem að mínu mati ætti aldrei að láta úr opinberri eigu.

Og auðvitað var það hneyksli þegar sveitarfélögin á Vestfjörðum voru hrakin til að láta frá sér Orkubú Vestfjarða. Það var þyngra en tárum taki að þau skyldu þurfa að færa þá fórn bara til að lengja í snörunni í nokkur ár. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að taka beina afstöðu til þess sem Suðurnesjamenn hafa verið að gera. Mér sýnist nú að þeir séu sjálfum sér verstir.