135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:45]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum komin í 3. umr. um frumvarp til fjárlaga ársins 2008. Hv. þm. Dýrleif Skjóldal benti réttilega á að hér í þingsalnum, fyrir utan hæstv. forseta, eru þingmenn Norðausturkjördæmis og er það nú ekki slæmur félagsskapur. (SJS: Ritarinn er líka að norðan.) (KÞJ: Rétt)

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi nú ekki verið mikið svartnætti sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon boðaði í ræðu sinni áðan þótt hann færi dálítið í varnarstellingar hvað þau mál áhrærir. Ég held að hv. þingmaður hafi að mörgu leyti farið ágætlega yfir þær horfur sem nú eru fram undan í efnahagslífi þjóðarinnar. Menn eru svo sem ekki með mikinn bölmóð þegar þeir benda á álit fjölda sérfræðinga og stofnana sem hafa sérfræðiþekkingu á efnahagsmálum, ekki bara hér á landi heldur víðar.

Þegar horft er til þeirra breytingartillagna sem gerðar hafa verið við fjárlagafrumvarpið sem lagt hefur verið fram kemur í ljós að við framsóknarmenn erum dálítið einir á báti þegar kemur að því að tala fyrir aðhaldi í ríkisfjármálum. Við höfum ekki lagt fram neinar tillögur að marki til útgjaldaaukningar, fyrir utan eina, vegna fjárlaga ársins 2008, ólíkt ágætum félögum í stjórnarandstöðunni, frjálslyndum og vinstri grænum. (DSk: Við leggjum til sparnað á móti.)

Hv. þm. Dýrleif Skjóldal kallar hér að vinstri grænir leggi til sparnað. Það er í mjög litlum mæli. Megintillagan er sú að hækka eigi skatta, þ.e. fjármagnstekjuskattinn, og mun ég fara aðeins yfir það á eftir. Fjármagnstekjuskatturinn er mjög stopull tekjustofn og við þurfum aðeins að horfa til þróunar á markaði síðasta mánuðinn eða svo, til þess að geta leyft okkur að efast um að áætlanirnar, sem lagðar voru fram áður en sú þróun átti sér stað, standist þegar öllu er á botninn hvolft. Ég mun fara nánar yfir það á eftir.

Ég sagði við 2. umr. að ég kenndi í brjósti um starfsfélaga hv. í fjárlaganefnd, að hafa þurft að taka við fjárlagafrumvarpinu þar sem útgjaldaramminn hækkaði um 17,2% á milli ára. Trúlega höfum við ekki séð slíka hækkun á milli ára hvað fjárlögin varðar frá því fyrir umtalaða þjóðarsáttarsamninga í upphafi tíunda áratugarins. Ég stóð í þeirri trú að hinn stóri meiri hluti sem hér er við völd mundi hlusta á öll aðvörunarorð sem fallið hafa um þróun efnahagsmála og hvatningu sem ríkisstjórnin hefur fengið til þess að bregðast við þenslunni sem nú er uppi.

Hvað gerist á milli þess sem frumvarpið er lagt fram og lokaumræðu fjárlaga? Í ljós kemur að verið er að skvetta enn meira bensíni á það undirliggjandi verðbólgubál sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir. Það er nefnilega staðreynd að það er undirliggjandi verðbólga og fram undan eru mjög erfiðir kjarasamningar. Síðast í dag komu aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. verkalýðshreyfingin, á fund ríkisstjórnarinnar og lagði fram mjög miklar kröfur um að ríkisstjórnin kæmi að þeim kjarasamningum með miklum útgjöldum. Rætt var um allt að 14 milljarða kr. Ljóst er að útgjaldaramminn mun hækka allverulega ofan á það sem hér er lagt til.

Hvað breyttist á milli umræðna þegar við berum saman fjárlagafrumvarpið sem var rætt við 3. umr. í fyrra og það sem er rætt við 3. umr. nú? Jú, hækkun á útgjaldaliðnum er 18,1% á milli ára, ekki 17,1% eins og það var þegar frumvarpið kom fyrir þing. Enn er aukið á hækkun ríkisútgjalda á milli umræðna, hæstv. forseti. Það er áhyggjuefni, allir benda ríkisstjórnarflokkunum á það.

Ég kannast vel við, eftir að hafa setið í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili m.a. sem formaður, að kosningar voru á árinu 2007. Oft er það nú þannig, sama hvort okkur líkar það betur eða verr, að stjórnmálaflokkar eru viljugri á þeim tíma að auka útgjöld sín, sama hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ef við berum saman þetta frumvarp við kosningafjárlög sést að það er 18,1% hærra en á sama tíma í fyrra. Það er staðreynd og við hljótum að spyrja okkur: Er það svo að ríkisstjórnin sé einfaldlega sofandi, fljóti sofandi að feigðarósi í þessum efnum?

Ekki er nóg að vera með eintóman fagurgala í þessum efnum því að á hverjum mun það bitna ef stjórnvöld missa tökin á efnahagsmálunum og verðbólgan fer af stað, rétt eins og fyrir þjóðarsáttina í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar? Jú, hún mun bitna á skuldsettum heimilum, íslenskum heimilum sem aldrei hafa skuldað jafnmikið og þau gera í dag.

Hvernig eru skuldirnar samansettar? Þær eru mestanpart verðtryggðar, þannig að þegar verðbólgan fer af stað munu skuldir og skuldastaða heimilanna versna stórlega. Hér er því svo sannarlega um mikið alvörumál að ræða. Ég segi eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að maður vill ekki vera með neitt svartnættisraus en staðreyndirnar tala einfaldlega sínu máli. Við eigum náttúrlega tala út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir.

Ég ætla svo sem ekki að endurtaka þá ræðu sem ég flutti hér við 2. umr. nema að því leyti að ef eitthvað er hafa aðstæður í samfélaginu versnað. Horfurnar hafa versnað á milli 2. og 3. umr. fjárlaga. Okkur ber að benda á það.

Ég nefndi aðila í ræðu minni síðast sem varað hafa ríkisstjórnina við og sagt að sýna beri aðhald: Standard & Poors, Seðlabankinn ítrekað, greiningardeildir bankanna og aðilar vinnumarkaðarins hafa öll bent á það. Nú hefur einn aðili enn bæst í hópinn, OECD, sem hefur nýverið varað ríkisstjórnina við og hvatt hana til að sýna aðhald í efnahagsmálum. Það er nú ekkert annað.

Er það þannig, hæstv. forseti, að þessir aðilar viti ekkert um hvað þeir eru að fjalla? Mér líður eins og ég sé hrópandi einn í eyðimörkinni (GMJ: Þú ert það.) þegar stjórnarliðar vilja ekki hlusta á mjög alvarleg aðvörunarorð hinna virtu greiningaraðila. Það er mjög alvarlegur hlutur og það verður mjög fróðlegt að sjá hver umræðan verður á sama tíma að ári um efnahagsmálin. Ég vona svo sannarlega að menn nái lendingu í efnahagsmálum því að rétt eins og var bent á áðan er undirliggjandi verðbólga gríðarleg.

Ef ríkisstjórnarflokkarnir hefðu ekki ráðist í þær skattalækkanir sem farið var í 1. mars síðastliðinn væri verðbólgan um 8%, svo langt frá verðbólgumarkmiðum Seðlabankans að það er ógnvænlegt. Hvað þýðir það þegar okkur miðar í þá átt að verðbólgan stígur núna mánuð frá mánuði? Til hvaða aðgerða mun Seðlabankinn grípa haldi fram sem horfir? Hann hefur það vopn að hækka stýrivextina. Svo háir sem þeir eru nú fyrir er margt sem bendir til þess að Seðlabanki Íslands muni þurfa að hækka stýrivexti í örvæntingu sinni til þess að reyna að standa undir verðbólgumarkmiðunum sem hann hefur sett sér í samvinnu við íslensk stjórnvöld, við fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og þær ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að á undanförnum árum. Seðlabankinn rær einn í þessari glímu sinni í ólgusjó verðbólgunnar.

Maður veltir fyrir sér þegar maður ber saman fjárlagafrumvörpin, annars vegar það sem rætt var fyrir ári síðan við 3. umr. og það sem við ræðum nú, að útgjaldahlutinn skuli hækka um 18,1%, hvort samkomulagið á stjórnarheimilinu sé með þeim hætti að menn séu farnir að búa sig undir kosningar. Nú virðast ríkisstjórnarflokkarnir ætla að vera góðir við allt og alla og allt í einu. Það á bara að afgreiða öll mál og gera alla sátta. Er það hægt? Hefur það einhvern tímann verið hægt?

Við framsóknarmenn lögðum oftar en tvívegis út í sársaukafullar aðgerðir með þáverandi samstarfsflokki, Sjálfstæðisflokki, til þess að hemja þensluna og ná tökum á verðbólgunni. Það voru mjög umdeildar aðgerðir og síst fallnar til vinsælda. Staðreyndin er sú að skilaboðin sem þáverandi ríkisstjórn sendi út varð til þess að verðbólgan í samfélaginu minnkaði. Kjör almennings bötnuðu sem því nam því að sjálfsögðu snertir þróun verðbólgunnar íslensk heimili eins og ég fór yfir áðan.

Ég hef nefnt það hér og ég ætla að gera það einu sinni enn: OECD, Standard & Poors, Seðlabankinn, greiningardeildir bankanna, aðilar vinnumarkaðins og við framsóknarmenn, hvetjum stjórnvöld til þess að standa nú á útgjaldabremsunni. Það er eins og þingflokkar hér á Alþingi keppist við að lofa og gera útgjaldatillögur. Trúlega getur það verið vinsælt til skamms tíma litið. Ég hvet þó hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarliðsins, til að kynna sér þau aðvörunarorð sem þessir aðilar hafa ítrekað komið með.

Að þessu sögðu ætla ég aðeins að fara yfir orð sem m.a. hafa fallið í ræðustóli Alþingis og eru vissulega í þingtíðindum. Áður en ég geri það vil ég benda á að samneyslan í tíð síðustu ríkisstjórnar, þ.e. þeir fjármunir sem við nýtum til þess að byggja upp velferðarþjónustuna, heilbrigðis-, mennta- og félagsþjónustu, af skattpeningum almennings, hefur aukist á síðustu árum.

Af því að mönnum var tíðrætt um á síðasta kjörtímabili að Framsóknarflokkurinn hefði verið sérstök hækja Sjálfstæðisflokksins vil ég benda á gamalt slagorð sjálfstæðismanna sem er Báknið burt . Ungu hugsjónamennirnir í Sjálfstæðisflokknum hafa talað fyrir því að minnka eigi samneysluna, að draga eigi úr umsvifum hins opinbera. Hver er staðreynd mála með frumvarpinu sem hér er lagt fram? Samneyslan hefur ekki verið hærri sem hlutfall af þjóðarframleiðslu síðan árið 1993.

Ég er ekki endilega óánægður með þann árangur okkar framsóknarmanna í ríkisstjórn og þar af leiðandi Samfylkingarinnar núna. Auðvitað þurfa að vera einhver takmörk á því. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn sem farið hefur með fjármálaráðuneytið þennan tíma hefur verið að stækka báknið og auka framlög til velferðarmála, samneyslunnar, sem við framsóknarmenn höfum að stefnumiði. Ég bendi á að það er ekki stefnumið hægri mannanna í Sjálfstæðisflokknum að stuðla að þessari þróun.

Nú vill Sjálfstæðisflokkurinn höfða til sem flestra hópa, allt frá miðju lengst til hægri. Það er mjög undarlegt að ekki skuli vera til stjórnmálaflokkur sem er hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn. Ég ætla að spá því í kjölfar orða minna að flokkur muni myndast á hægri væng íslenskra stjórnmála því að hægri mennirnir í Sjálfstæðisflokknum munu ekki horfa þegjandi og hljóðalaust upp á 18,1% hækkun á milli fjárlagafrumvarpa á útgjaldaramma ríkissjóðs.

Þá hefur einn hv. þingmaður sem talað hefur mjög skýrt í stjórnmálum, hv. þm. Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, mikil tækifæri í höndunum því að hann hefur talað sem sannur frjálshyggjumaður úr ræðustóli Alþingis. Ég ætla að spá því að haldi hv. þingmaður áfram í pólitík muni hann ná dálitlum skerf af hægra fylgi Sjálfstæðisflokksins í kjölfar þessa enda hefur hann hvatt til aðhalds í fjárlagagerðinni.

Hins vegar er það svo að frjálslyndir, félagar mínir í stjórnarandstöðunni, hafa ekki gengið í takt því að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, formaður þessa ágæta flokks, sem staðið hefur að mjög mörgum breytingartillögum til útgjaldaauka ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Það eru því tvær skoðanir á fjárlagafrumvarpinu sem sá flokkur boðar.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki gefið sig út fyrir að vera mikill hægri flokkur þegar rætt er um frumvarp til fjárlaga ársins 2008. Sem félagshyggjumaður þegar kemur að velferðarmálum segi ég að ég er nokkuð ánægður með að menn skuli ekki skera stórlega niður en fyrr má nú aldeilis fyrr vera að auka fjárfestingu og útgjöld ríkisins um 18,1% á milli ára. Það hlýtur að segja okkur að mikill óstöðugleiki er hér í þjóðfélaginu og í ríkisfjármálunum.

Ég sagði áðan að ég ætlaði að rifja upp hvað sagt hafi verið úr ræðustóli Alþingis um ýmis mál því að margt hefur nú verið sagt á síðasta kjörtímabili. Við framsóknarmenn höfum m.a. legið undir ámæli um hitt og þetta, sérstaklega af hálfu Samfylkingarinnar. Til þess að ljúka kaflanum um stöðugleika í efnahagsmálum og stöðu ríkisfjármála, verðbólguhorfur og fleira, ætla ég að lesa aðeins úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem gefin er út 23. maí 2007. Hún er því ekki nema rúmlega sex mánaða gömul. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu í þágu heimila og atvinnulífs. Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs.“

Nú er staða ríkissjóðs vissulega sterk en ég get ekki séð í ljósi þess frumvarps og hvernig horfir í efnahagsmálum þjóðarinnar, að markmið ríkisstjórnarinnar, að tryggja lága verðbólgu og lágt vaxtastig, endurspeglist í fjárlagafrumvarpinu. Því miður. Þvert á móti er sá útgjaldaauki sem lagður er til vísbending um og hvati til þess að verðbólga muni hækka en ekki lækka og að vextir heimilanna í landinu muni hækka en ekki lækka.

Hvað þýðir það á íslensku? Það þýðir að íslensk heimili og jafnvel atvinnulíf muni verða fyrir kjaraskerðingu sem þessu nemur. Ef menn missa tökin á því mikilvæga úrlausnarefni, sem er höfuðúrlausnarefni hverrar ríkisstjórnar, þá horfir illa fyrir íslenskri þjóð. Margt bendir til að núverandi ríkisstjórn hafi gjörsamlega misst tökin.

Ég ætla svo sem ekki að lesa upp úr hinu verðmæta, rauða kveri Samfylkingarinnar sem birt var fyrir kosningar undir fyrirsögninni Jafnvægi og framfarir, ábyrg efnahagsstefna, undir ritstjórn þess ágæta manns Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráðherra. Segja má að það séu öfugmæli sem birtist í fjárlagafrumvarpinu miðað við það sem hér er lagt til.

Hæstv. forseti. Þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnarflokkarnir gáfu í aðdraganda síðustu kosninga um að höfuðmarkmið stjórnmálamanna væri að gæta stöðugleika birtist ekki í fjárlagafrumvarpinu. Ég endurtek að hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Mér er það illskiljanlegt eftir að hafa tekið þátt í fjárlagagerð að horfa upp á hvers lags lausatök eru á því og að svo ótrúlega mörgum erindum skuli vera svarað jákvætt við fjárlagagerðina. Nú koma hv. þingmenn stjórnarinnar trúlega upp og spyrja þann sem hér stendur: Hverjum átti að neita? Það er gamalt trikk. (Gripið fram í.)

Tillögur Framsóknarflokksins hefðu aldrei orðið þær að frumvarp til fjárlaga hækkaði um 17,1% á milli ára. Við úrvinnslu þingmeirihlutans hækkar frumvarp til fjárlaga um 18,1% á milli ára. Ég minni á að það var undir forustu Framsóknarflokksins í ríkisstjórn ásamt Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki sem menn þurftu að taka mjög erfiðar ákvarðanir og ná fram svokallaðri þjóðarsátt á sínum tíma.

Það skyldi ekki vera, hæstv. forseti, að menn þyrftu að ráðast í og taka erfiðar ákvarðanir til þess að ná tökum á efnahagslífi þjóðarinnar. Undirliggjandi verðbólga, af því að hv. þm. Birgir Ármannsson er kominn hér inn, er 8% síðustu tólf mánuði. Ef ríkisstjórnarflokkarnir hefðu ekki farið í þá skattalækkun sem lækkun matarskattsins var, væri verðbólga síðustu 12 mánuði 8%, eða reyndar 6%. En áhrif af lækkun matarskattsins munu náttúrlega fletjast út hægt og rólega og hverfa alveg 1. mars næstkomandi.

Við eigum að sjálfsögðu að horfa til þess tíma sem fram undan er og 8% verðbólga er langt frá því að vera viðunandi og boðar einungis að Seðlabanki Íslands mun hækka stýrivexti sína áfram að óbreyttu. Það eru himinn og haf á milli verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, sem þáverandi ríkisstjórn lagði reyndar blessun sína yfir, og þeirrar stöðu og uppi er í dag.

Að þessum varnaðarorðum sögðum er komið að skuldadögum gagnvart Samfylkingunni sem hamaðist í ræðustóli ár eftir ár á síðasta kjörtímabili og kom með yfirboð hér um bil í öllum málaflokkum. (Gripið fram í.) Því miður, hæstv. forseti, sé ég engan hv. þingmann Samfylkingarinnar hér á svæðinu. (Gripið fram í.) Ég veit reyndar, svo ég sé nú ærlegur, að hv. formaður fjárlaganefndar, sem er samfylkingarmaður, er vant við látinn af eðlilegum ástæðum en varaformaður nefndarinnar er hér á svæðinu svo að við höldum því til haga.

Síðast þegar ég vissi voru þingmenn Samfylkingarinnar fleiri en einn og svei mér þá ef Samfylkingin á ekki eina sex ráðherra líka. Menn fóru í það að fjölga ráðherraembættunum til þess að hv. þingmenn og núverandi hæstv. ráðherrar Björgvin G. Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson fengju ráðherrastóla. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið var þess vegna klofið í tvennt sem hv. þingmaður Valgerður Sverrisdóttir sinnti nú bara með ágætum ein. Það er því ósköp eðlilegt að hæstv. ráðherrar hafi nægan frítíma og geti þar af leiðandi sinnt ýmsum útrásarverkefnum og fleiri gæluverkefnum. Búið er að tvöfalda ráðherrafjöldann í því ráðuneyti með tilheyrandi ríkisútgjöldum og fleira sem því fylgir.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að það er enginn ráðherra viðstaddur þessa umræðu ... (Forseti (StB): hæstv.) ... hæstv. ráðherrar eru ekki viðstaddir þessa umræðu. Það er vert að vekja athygli á því að þetta eru fyrstu fjárlögin sem Samfylkingin afgreiðir í ríkisstjórn og enginn ráðherra Samfylkingarinnar er viðstaddur umræðuna.

Ég gæti brugðið á gamalt ráð að láta kalla ráðherrana utan úr bæ hingað í þinghúsið eins og hæstv. núverandi félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir gerði oft en ég ætla að láta það vera. Miðað við hvernig við höfum horft upp á þingmeirihlutann haga störfum sínum stórefa ég að það muni skila miklum árangri hvað ákvarðanatökuna varðar enda stendur yfir 3. umr. fjárlaga sem mun von bráðar fara í atkvæðagreiðslu. Miðað við atkvæðagreiðslurnar sem hér hafa farið fram sýnist mér að það verði meginniðurstaðan, það mál sem við ræðum nú.

Þá að þeim orðum sem fallið hafa í ræðustóli Alþingis. Mig langar að vitna í hv. þáverandi þingmann Jóhönnu Sigurðardóttur, og hæstv. ráðherra í dag, sem var að fjalla um lífeyrismál þann 12. október 2006. Þar sagði núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, með leyfi forseta:

„Af hverju hafa skattleysismörkin verið skert svo mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar að fólk með lágar tekjur, 130 þús. kr. tekjur, er farið að borga verulegan skatt sem það gerði ekki áður? Skattleysismörkin ættu að vera 130 þúsund í dag en ekki 79 þúsund eða 91 þúsund eftir breytinguna sem gerð verður í tengslum við samkomulagið við aðila vinnumarkaðarins. Þetta er nú afrekaskráin sem skilin er eftir, þetta er það sem ríkisstjórnin skilur eftir sig.“

Þetta sagði núverandi hæstv. félagsmálaráðherra sem nú var að ganga frá sínum fyrstu fjárlögum.

Áfram hélt þáverandi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, og sagði þann 29. janúar á þessu ári, það eru um tíu mánuðir síðan, með leyfi forseta:

„Með tilfærslum ríkisvaldsins gegnum skattkerfið frá fátækum til nýríkra fjármagnseigenda hafa skattleysismörkin verið skert um nálægt 50 þús. kr. á mánuði og ættu í dag að vera nálægt 140 þús. kr. á mánuði í stað rúmlega 90 þús. kr. Fyrir þetta hafa fátækar barnafjölskyldur liðið sárlega.“

Nú vil ég benda hæstv. forseta á það að þann 12. október 2006 sagði þáverandi hv. þingmaður að skattleysismörkin ættu að vera 130 þús. kr. en örfáum mánuðum síðar áttu skattleysimörkin að hafa orðið 140 þús. kr. þannig að eitthvað var nú málum blandið þar.

Ef við förum nú í fjárlagafrumvarpið sem Samfylkingin hefur lagt hér fram á blaðsíðu 390 ... Fyrirgefðu, ég er að rugla, hæstv. forseti. Það er seinna sem ég ætla að vísa í fjárlagafrumvarpið. Það var nefnilega ákveðið nú í dag eða í gær varðandi skattleysismörkin hjá þessari nýju ríkisstjórn að áfram ætti að miða við vísitölu neysluverðs en ekki við launavísitöluna eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að vitna í, að þá ættu skattleysismörkin að vera orðin 130–140 þús. kr. Ég var að vitna til orða hæstv. núverandi félagsmálaráðherra sem féllu hér undir mánaðamótin janúar–febrúar á þessu ári.

Samfylkingin er búin að taka alveg heilan hring í þessu máli. Hún gagnrýndi síðustu ríkisstjórn fyrir að hafa ekki miðað hækkanir á skattleysimörkum við launavísitölu heldur neysluvísitölu því að launavísitalan hefur hækkað svo mikið, meira en neysluvísitalan. Nú er Samfylkingin hins vegar gjörsamlega búin að snúa við blaðinu.

Þess vegna hefði verið mjög áhugavert ef hæstv. félagsmálaráðherra hefði verið hér. Ég endurtek að ég ætla ekki að kalla sérstaklega á hæstv. ráðherra en það er alveg ljóst að hæstv. félagsmálaráðherra hefur farið í heilan hring ef ekki fleiri hringi þegar kemur að málefnum skattleysismarka. Einungis fyrir nokkrum mánuðum boðaði hún að skattleysismörkin ættu að fylgja launavísitölu en ekki neysluvísitölu. Nú er ríkisstjórnin búin að ákveða að haldið verði áfram, rétt eins og síðasta ríkisstjórn gerði, að miða við neysluvísitölu og ég hef svo sem engar sérstakar athugasemdir við það, hæstv. forseti.

Ég ætla að halda áfram að vitna í sama hæstv. félagsmálaráðherra sem sagði í sömu ræðu þann 29. janúar árið 2007, með leyfi forseta, og notaði þar eitt af sínum frægu orðatiltækjum sem hún notaði óspart í ræðustól Alþingis:

„Það er auðvitað til skammar að ein af orsökum þess að fátækt barnafólk á ekki fyrir brýnustu framfærslu er að barnabætur byrja að skerðast við 92 þús. kr. hjá einstæðu foreldri og 185 þús. kr. samanlagðar tekjur hjóna. Barnabætur eru því orðnar að láglaunabótum í höndum ríkisstjórnarinnar.“

Þetta sagði núverandi hæstv. félagsmálaráðherra einungis fyrir nokkrum mánuðum en þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram kemur í ljós að barnabætur munu trúlega skerðast að raungildi á næsta ári. Á bls. 391, hæstv. forseti, og nú ætla ég að vitna í fjárlögin, er gert ráð fyrir að barnabætur muni hækka sem breyting frá fjárlögum um 3,5%. Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að verðlagsbreytingar á næsta ári verði 3,3% en margir aðilar, þeir sem hafa varað ríkisstjórnina við þróun mála, telja að verðbólgan muni verða miklu meiri.

Hvað gerist ef verðbólgan verður 4%? Jú, hæstv. forseti, þá skerðast greiðslur til barnafólks í gegnum barnabætur um hálft prósent. Ef verðbólgan verður 5% munu barnabætur skerðast að raungildi um 1,5%. Mögulega er því ekki verið að auka framlög ríkisins til barnabóta, eins og hæstv. félagsmálaráðherra boðaði, þá sem hv. þingmaður, fyrir nokkrum mánuðum, heldur munu barnabætur líklega skerðast að raungildi á næsta ári. Það er þvert á það sem Samfylkingin hefur sagt í umræðum um mörg velferðarmál. Ég held reyndar að margt fólk hafi kosið Samfylkinguna út á allan þann fagurgala. Það var varla til sá málaflokkur að Samfylkingin kæmi ekki fram og yfirbyði þá flokka sem fyrir eru í litrófi stjórnmálanna, það var ekkert mál.

Reyndar gerði Samfylkingin eitt fyrir kosningar, hún lagði fram mjög ábyrgt skjal sem því miður er ekki pappírsins virði í dag og ætti heima á haugunum. (Gripið fram í.) Hv. þm. Dýrleif Skjóldal talaði um Fagra Ísland. Það plagg á svo sem ekkert sérlega heima í fjárlagaumræðunni en í þeirri umræðu er jú allt undir og það plagg er heldur ekki pappírsins virði, því miður. Tvær grundvallarstefnuskrár Samfylkingarinnar, um jafnvægi og framfarir og ábyrga efnahagsstefnu og Fagra Ísland, voru bara blöff. Ofan á það fjárlagafrumvarp sem ég ræði hér, þar sem útgjöld og fjárfesting hafa aukist um 18,1%, eru komnar fram kröfur í aðdraganda kjarasamninga. Heyrst hafa tölur upp á 14 milljarða sem verkalýðshreyfingin hefur lagt fram í því skyni að stjórnvöld setji fjármuni í gerð kjarasamninga. Það er því ljóst að útgjöldin eiga eftir að aukast meira og hef ég miklar áhyggjur, hæstv. forseti, af gerð komandi kjarasamninga. Það er seinni tíma mál en að sjálfsögðu skiptir máli í aðdraganda slíkra viðræðna að stöðugleiki sé og lág verðbólga. En eins og ég hef margoft sagt hér áður og vil endurtaka einu sinni enn stuðlar ríkisstjórnin að því með frumvarpinu að auka enn meir á þenslu og verðbólgu í samfélaginu, sem er mjög alvarlegt mál.

Hæstv. forseti. Ég hef vitnað í ræður núverandi hæstv. félagsmálaráðherra frá því fyrir síðustu kosningar, um barnabætur og um skattleysismörk sem nú þegar hafa verið þverbrotin. Þá ætla ég að rifja upp önnur ummæli, hæstv. forseti, sem núverandi hæstv. félagsmálaráðherra hefur oftsinnis látið falla úr ræðustól Alþingis sem talsmaður Samfylkingarinnar í félagsmálanefnd Alþingis.

Ég vitna í ræðu frá fyrirspyrjanda, þáverandi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, frá 11. október árið 2006, með leyfi forseta:

„Nú hefur lánshlutfallið lækkað úr 90% í 80%. Hámarkslánið er farið úr 18 millj. kr. í 17 millj. og veðhæfni eigna miðast við brunabótamat sem algengt er að sé 40% af kaupverðinu. … Þessu til viðbótar hefur orðið alger verðsprenging. Ég get nefnt hér sem dæmi að miðað við 10 millj. kr. eign fyrir fimm árum þá þyrfti fólk miðað við 90% lán að leggja sjálft fram 1 millj. kr. Í dag kostar þessi sama íbúð 20 millj. kr. og vegna þessarar hækkunar og lækkunar á lánshlutfalli þarf fólk að leggja fram 4 millj. fyrir sömu íbúð, um 1 millj. fyrir fimm árum. Þessu verður að taka á. Þarna er ákveðinn hópur sem hefur orðið á milli, fólk með lægri tekjur.“

Þáverandi þingmaður, Jóhanna Sigurðardóttir, tók mjög harðar rimmur úr ræðustól Alþingis við þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, sem nú er hæstv. forseti. Hæstv. forseti kannast örugglega vel við að hafa setið hér á ráðherrabekk undir skömmum þáverandi þingmanns, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sagði að menn ættu að skammast sín fyrir að lækka lánshlutfallið úr 90% í 80%.

Hver er svo reyndin, hæstv. forseti, hér um bil daginn eftir kosningar? Þetta er eitt af fyrstu málum núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Jú, núverandi forseti Alþingis, þáverandi félagsmálaráðherra, hækkaði nefnilega lánshlutfallið upp í 90% við mikinn fögnuð landsmanna. Reyndar voru einhverjir hægri menn með horn í síðu okkar framsóknarmanna út af því. Það er önnur saga en menn fögnuðu því almennt að lánshlutfallið var aftur hækkað upp í 90%.

Hvert var fyrsta verk núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, sem sagði að menn hefðu átt að skammast sín þegar það var lækkað úr 90% í 80%? Jú, lánshlutfallið var aftur lækkað úr 90% í 80%, sem, rétt eins og hún benti á í umræðum hér á þingi, bitnaði nær eingöngu á fólki á landsbyggðinni sem var að kaupa sér húsnæði. Hér hefur blaðinu verið snúið svo gjörsamlega við að vert er að leiða hugann að því hvort eitthvað sé yfirleitt að marka það sem Samfylkingin hefur sagt á síðustu mánuðum. Örvæntingin virðist hafa verið orðin gríðarleg í herbúðum Samfylkingarinnar nokkrum mánuðum fyrir síðustu kosningar, menn sögðu bara hvað sem er til þess að ná góðu kjörfylgi, sama hvað það kynni svo að kosta.

Þeir dagar eru runnir upp, hæstv. forseti, að Samfylkingin þarf að fara að svara fyrir af hverju hún hefur snúið stefnu sinni við í einu málinu af öðru. Hér er ekki um neina útúrsnúninga að ræða, herra forseti, hér er um beinar tilvitnanir í Alþingistíðindi að ræða og beinar tilvitnanir í málaflokka sem m.a. heyra undir núverandi félagsmálaráðherra. Það er því ósköp eðlilegt, hæstv. forseti, að fólk skilji hvorki upp né niður í málflutningi Samfylkingarinnar í efnahagsmálum og í mörgum öðrum málum.

Það er náttúrlega grátlegt, og fyrir því hlýtur að vera einhver ástæða, að ekki er einn einasti samfylkingarmaður í salnum. Þvílíkur áhugi sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar sýna 3. umr. fjárlaga ársins 2008. (Gripið fram í.) Þetta eru fyrstu fjárlög sem flokkurinn hefur komið að og enginn þingmaður er viðstaddur umræðuna, það hlýtur að vekja eftirtekt. Eins og ég gat um áðan hefur hv. þm. Gunnar Svavarsson mjög lögmætar ástæður fyrir fjarveru sinni og allt í góðu með það. En þingmenn Samfylkingarinnar eru sem stendur fleiri en einn og það hefði verið ágætt að fá einhvern þeirra til að ræða um þá stefnubreytingu sem orðið hefur hjá þessum ágæta stjórnmálaflokki á einungis örfáum mánuðum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vitna beint í ræður hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, en hún var við síðustu fjárlagagerð með vaxtabætur á heilanum, talaði um vaxtabætur í öllum umræðum, talaði um að þær væru ónógar og ekki væri nóg að gert fyrir fólkið í landinu, fólkið sem væri að kaupa sér húsnæði, hún talaði um að reikna mætti út að einhverjar skerðingar hefðu átt sér stað.

Hæstv. forseti. Hvað segir þá fyrsta fjárlagafrumvarp Samfylkingarinnar um áherslur þeirra þegar kemur að vaxtabótum? Þær munu hækka um ein 6% á næsta ári. Vonandi verður einhver raunaukning þar á en það er svo langt frá því, í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað fyrir nokkrum mánuðum úr ræðupúlti Alþingis, að það sé í takt við þær miklu væntingar sem vaktar voru. Samfylkingin vakti væntingar hjá almenningi þegar kemur að barnabótum, vaxtabótum og skattleysismörkum. Hverjir eru einna stærstu tekjupóstar heimilanna í dag? Það eru vaxtabætur, það eru barnabætur og skattleysismörk hefðu átt að vera miklu hærri eins og hæstv. félagsmálaráðherra hefur oft talað um.

Nú sé ég að hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, er mættur í hús og býð ég hann velkominn til umræðunnar. Hv. þingmaður getur að sjálfsögðu ekki borið ábyrgð á gjörðum félaga sinna á síðasta kjörtímabili. Ég votta því hv. þingmanni samúð mína að þurfa að taka við því að vera formaður fjárlaganefndar og fá öll þessi loforð og gífuryrði í fangið. Það er ekki öfundsvert hlutverk, hv. þingmaður kom svo sannarlega ekki nálægt því á síðasta kjörtímabili að setja fram slík innihaldslaus loforð. Það er að koma í ljós að loforð Samfylkingarinnar hvað varðar vaxtabætur, barnabætur og skattleysismörk voru innihaldslaus.

Að lokum langar mig, hæstv. forseti, að vitna í ræðu sem hæstv. núverandi utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, hélt í árslok 2005.

Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég segi að þetta sé óraunsætt og það kemur reyndar líka fram í fyrrnefndum Peningamálum Seðlabankans að þetta sé að minnsta kosti mjög metnaðarfullt, eins og Seðlabankinn orðar það, vegna þess að hingað til hafa útgjöld ríkissjóðs hækkað um að minnsta kosti 2% á ári umfram verðlag frá árinu 1998.“

Síðar í ræðu sinni segir hæstv. ráðherra:

„Það er auðvitað mjög freistandi fyrir menn að gefa eftir gagnvart þeim óskum og það verður gert þegar fram líða stundir. Við munum sjá aðrar tölur í frumvarpi til fjáraukalaga þegar það kemur fram næsta haust. Þá munum við að sjálfsögðu sjá aðrar útgjaldatölur.“

Í þessari ræðu boðaði formaður Samfylkingarinnar að nauðsynlegt væri fyrir þáverandi ríkisstjórn að sýna aðhald í efnahagsmálum. Reyndar greip sú ríkisstjórn nokkrum sinnum til aðhaldsaðgerða þegar kom að útgjöldum ríkissjóðs en þá voru hv. þingmenn Samfylkingarinnar fyrstir hér upp í pontuna til að gagnrýna það. Ég vil benda á það, hæstv. forseti, að við framsóknarmenn höfum ekki gagnrýnt það sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt til á milli umræðna, til að mynda um frestun á byggingu háskólasjúkrahúss, alls ekki. Hins vegar höfum við bent á að það sé mjög líklegt, og æ fleiri taka undir það, að sú samgönguáætlun sem nú er í gildi sé að mörgu leyti óraunhæf og illmögulegt verði að ráðast í allar þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin boðaði í sumar, m.a. með svokölluðum mótvægisaðgerðum sem er umræðuefni út af fyrir sig.

Hvað gerði hæstv. núverandi samgönguráðherra um daginn? Hann sagði það sem við framsóknarmenn höfum sagt í þessari umræðu, að það hefði einfaldlega komið í ljós að ekki væri hægt að ráðast í allar þessar framkvæmdir á næsta ári. Þar með voru dregnir til baka m.a. peningar í Sundabraut.

Hvaða væntingar vakti ríkisstjórnin í sumar þegar hún hélt alla blaðamannafundina um stórkostlegustu mótvægisaðgerðir seinni tíma og hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller kynnti gríðarlegar samgöngubætur á næsta ári? Nú hefur komið í ljós að draga þarf hluta af þeim strax til baka? Þetta breytist bara á tveim, þrem mánuðum. Maður hlýtur að spyrja sig á hvaða vegferð þessi ríkisstjórn er. Ef mig brestur ekki minni, hæstv. forseti, var það akkúrat hæstv. núverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, sem gagnrýndi fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að fresta framkvæmdum. Enda var það í raun þannig að ég vorkenndi hæstv. núverandi samgönguráðherra að þurfa að svara fyrir það hvort sá málflutningur sem hann viðhafði fyrir einungis nokkrum mánuðum, einum eða tveimur árum, um frestanir í samgöngumálum, ætti ekki við í dag. Nú eru svörin allt önnur hjá forsvarsmönnum Samfylkingarinnar.

Hæstv. forseti. Ég ætla nú að fara að stytta mál mitt. Hægt væri að tala hér mikið og lengi um þetta mál sem er stórt, frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008. Það er með ólíkindum vægast sagt að horfa upp á það sem ríkisstjórnin hefur lagt hér til en í rauninni samt sem áður kærkomið tækifæri að fá að ræða það aðeins í þessari umræðu hversu óraunsær málflutningur Samfylkingarinnar var allt síðasta kjörtímabil og í hvers lags mál Samfylkingin er búin að koma sér því skráð er í þingtíðindi það sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa sagt í hinum og þessum málum sem þeir geta ekki staðið við núna. Því er það kærkomið tækifæri að fá að segja hér nokkur orð um það sem Samfylkingin hefur sagt almennt um efnahagsmálin.

Ég ætla að lokum að fjalla um breytingartillögu á þskj. 477 sem ég hef lagt fram við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008 og lýtur að 6. greinar heimild og lið 7.5, á bls. 55 í fjárlagafrumvarpinu. Liður 7.5 hljóðar svo:

„Að heimila sjúkrahúsum að taka þátt í eða eiga samstarf við fyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði. Samningar, sem fela í sér fjárskuldbindingar, skulu lagðir fyrir ráðherra heilbrigðismála og fjármála til staðfestingar.“

Ég hef lagt fram þá breytingartillögu að þessi liður falli brott. Ég ætla að rifja aðeins upp hvernig þessi liður varð til á sínum tíma en það var m.a. að frumkvæði framsóknarmanna sem þetta kom inn, trúlega á árabilinu 1997–1998, en þá var öldin sú að Framsóknarflokkurinn hafði yfir heilbrigðismálunum í landinu að segja og Sjálfstæðisflokkurinn yfir fjármálunum. Það var því alveg ljóst að báðir ríkisstjórnarflokkarnir kæmu að þessu og að sjálfsögðu höfum við framsóknarmenn treyst mjög vel þeim ráðherrum sem hafa farið með heilbrigðismálin á undanförnum árum.

Nú bregður svo við að í hrossakaupum Samfylkingarinnar í málefnasamningi við Sjálfstæðisflokkinn hefur hún gefið eftir í mörgum mjög mikilvægum málaflokkum þar. Ég veit að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru mjög ánægðir með að nú sé hægt að ráðast í róttækar breytingar á sviði heilbrigðismála sem ekki hefði verið hægt að ráðast í með okkur framsóknarmönnum. Þar af leiðandi er það áhyggjuefni að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera kominn með ekki einungis heilbrigðisráðuneytið heldur líka formennsku í heilbrigðis- og trygginganefnd. Nú tek ég fram að þetta eru ágætir einstaklingar, hæstv. ráðherra Guðlaugur Þórðarson og hv. þm. Ásta Möller, en það er nú einu sinni svo að okkur greinir allverulega á þegar kemur að velferðarmálum og sjálfstæðismenn hafa lýst því yfir að nú sé hægt að ráðast í róttækar breytingar í heilbrigðismálum sem ekki hefði verið hægt að ráðast í með framsóknarmönnum.

Hvað er Samfylkingin að hugsa að láta fjárlagafrumvarpið koma svona óbreytt til 3. umr. þannig að sjálfstæðismenn, ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hæstv. heilbrigðismálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, hafi leyfi til þess að semja fram hjá þinginu við einkafyrirtæki úti í bæ sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði, hafi sjálfdæmi um að semja við þá aðila? Þessi heimildargrein er svo vítt orðuð og til þessa hefur fjármálaráðherra túlkað þær heimildargreinar sem fyrir eru í fjárlagafrumvarpinu vægast sagt mjög vítt. Það ber margt að varast í þessum efnum. Við getum til að mynda horft til túlkunar fjármálaráðuneytisins og ráðherrans á heimildargreininni um Grímseyjarferjuna þar sem hátt í hálfum milljarði var varið án þess að bein heimild væri fyrir því á fjárlögum. Það var reyndar ein heimildargrein til sem leiddi af sér hálfan milljarð í útgjöld. Því er það varhugavert að mínu mati miðað við hvernig menn hafa meðhöndlað þessar heimildargreinar að heimild 7.5 verði inni.

Það kom fram í umræðu á þinginu um daginn hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að Samfylkingin hefði ekki haft nein áhrif á útgjaldaramma fjárlaga fyrir árið 2008, það hefði verið búið að ákveða það allt í endaðan maí. Hefur Samfylkingin engan áhuga á því að hafa áhrif á hvaða stefnu við tökum þegar kemur að þróun mála í heilbrigðismálum? Ég vil ekki trúa því upp á þennan jafnaðarmannaflokk að hann ætli að veita Sjálfstæðisflokknum sjálfdæmi um það að ráðast í samningagerð við fyrirtæki á heilbrigðissviði án þess að hafa þar nokkra aðkomu að. Ríkisstjórnin er fjölskipað stjórnvald og viðkomandi ráðherra hefur nokkuð mikið sjálfdæmi um hvað hann gerir. Eins og stendur í lið 7.5 geta hæstv. ráðherrar Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra ákveðið að fara út í nokkuð djörf verkefni á sviði heilbrigðismála. Skyldi orðið einkavæðing koma upp í hugann þegar maður hugsar um nýjungar á sviði heilbrigðismála? Einkavæðing, segi ég, því að sjálfstæðismenn hafa lýst því yfir að það eigi að stokka allverulega upp í því heilbrigðiskerfi sem við búum við.

Ég hefði því viljað fá svar í þessari umræðu um hvað Samfylkingin ætlar sér í þessum efnum. Það er napur veruleiki, hæstv. forseti, ef staðreyndin er sú að Samfylkingin ætlar að afhenda ráðherrum Sjálfstæðisflokksins sjálfdæmi um þetta. Er þetta í takt við ræður hæstv. núverandi utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, um stjórnmál sem byggjast á samráði og samræðu? Af hverju þarf þessi heimildargrein að vera inni? Eru ráðherrar í ríkisstjórninni svo hræddir við að innleiða nýjungar á sviði heilbrigðismála að það þoli ekki dagsins ljós í þinginu, að það þoli ekki opna og lýðræðislega umræðu á þessum vettvangi? Við hvað eru menn hræddir?

Ekki er sú staðreynd beint uppi á borðum að stjórnarmeirihlutinn sé tæpur, nei, hann er ekki tæpur, hann er ótrúlega sterkur. Ætla þingmenn Samfylkingarinnar virkilega að láta málin æxlast þannig að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem hafa verið við völd allt frá árinu 1991 og kunna því orðið nokkuð vel að fara með völdin — það má nú kannski deila um það — fái sjálfdæmi um þetta ofan í yfirlýsingarnar um að fara eigi í róttækar breytingar í heilbrigðismálum? Ég segi nei, hæstv. forseti, ég vil ekki trúa því upp á Samfylkinguna að hún felli þá breytingartillögu sem ég hef lagt hér fram. Ég trúi því ekki að öllu öðru óreyndu. Reyndar er það svo miðað við þau ummæli sem ég hef rifjað hér upp, sem m.a. núverandi hæstv. félagsmálaráðherra viðhafði hér fyrir nokkrum árum, að Samfylkingin virðist vera búin að snúa við blaðinu í dálítið mörgum veigamiklum málum. Það er verulegt áhyggjuefni og ég veit að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hlýtur að hafa áhyggjur af því að öll þau digru loforð sem Samfylkingin gaf í aðdraganda síðustu kosninga verða einfaldlega ekki að veruleika í þessu fjárlagafrumvarpi og rauða kver Samfylkingarinnar endurspeglar ekki heldur þann raunveruleika sem á að felast í þessu fjárlagafrumvarpi þar sem talað er um jafnvægi og framfarir, ábyrga efnahagsstefnu.

OECD, Standard & Poor's, aðilar vinnumarkaðarins, greiningardeildir bankanna, við framsóknarmenn og fleiri og fleiri hafa bent á að aðhalds er þörf í þessum fjárlögum. Hafa allir þessir aðilar kolrangt fyrir sér? Svo koma hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og spyrja: Hvar vill nú Framsóknarflokkurinn taka upp hnífinn? Staðreyndin er sú að þegar þetta frumvarp kom inn í þingið var það 17,1% hærra en það var árið áður. Nú er það orðið 18,1% hærra eftir 3. umr. Eigum við að koma með tillögur um það, sitjandi ekki í ríkisstjórn? Menn vita að þeir sem sitja í ríkisstjórn hafa miklu betri aðgang að upplýsingum um hvar hægt er að bera niður. Við hvetjum einfaldlega til aðhalds og erum meira að segja reiðubúin til samstarfs um það

Ég held að ekki megi, eins og ég benti á í upphafi ræðu minnar og ætla að segja það að lokum, finna fjárlagafrumvarp sem hækkar um 18,1% á milli ára og fram undan eru kjarasamningar þar sem gerðar eru gríðarlegar kröfur af hálfu aðila vinnumarkaðarins um að stjórnvöld komi að með miklum fjárútlátum. Ofan á þessi 18,1% eiga því eftir að koma mjög mikil útgjöld til að menn nái saman þegar kemur að samningum launa á almennum markaði og hjá hinu opinbera.

Ríkisstjórnin leggur svo sannarlega ekki sitt af mörkum til að auðvelda þær viðræður sem eru fram undan. Það frumvarp sem við ræðum hér mun endurspegla vaxandi ójafnvægi og verðbólgu, því miður. Ég tala hér nokkurn veginn í takt við það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, við erum sammála um að það eru blikur á lofti. Við erum reyndar ekki alveg sammála um hvaða leiðir við eigum að fara. Við framsóknarmenn viljum vera mun aðhaldssamari en hv. þingmenn Vinstri grænna. (Gripið fram í.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir hér að lagðar séu til tekjur á móti en það mun ekki minnka þensluna. Það mun ekki minnka þensluna að hækka fjármagnstekjuskatt. Eins og ég benti á áðan er hann mjög stopull tekjustofn og það hefur gríðarlega mikið breyst á undanförnum mánuði hvað þau mál áhrærir.

Að þessu sögðu vil ég lýsa því yfir að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig málum er háttað hér. Mér þykir miður að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ekki hafa séð að sér og tekið á málunum nú á óvissutímum, sérstaklega þegar allir aðilar sem um málin fjalla hvetja ríkisstjórnarflokkana til aðhalds. Ég ætla að hafa það lokaorð mín hér að maður hefur það á tilfinningunni að alþingiskosningar verði á næsta ári. Þetta eru kosningafjárlög, hér ætla menn að vera góðir við hér um bil allt og alla og gera allt strax, það er ekkert aðhald í einu eða neinu þrátt fyrir mjög mikið ákall aðila á markaði um að nú sýni menn aðgæslu á viðsjárverðum tímum. Því miður er það ekki raunin, hæstv. forseti.