135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[22:53]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur misskilið ræðu mína ef hann heldur að hér standi einhver últrahægrimaður. Ég var að hlæja að Sjálfstæðisflokknum sem talar um að báknið fari burt á sama tíma og ríkisútgjöldin hafa aukist ár frá ári. Við framsóknarmenn höfum getað staðið vörð um velferðarmálaflokkana, haldið utan um mjög erfiða málaflokka sem eru heilbrigðismál og félagsmál.

Af því að hv. þingmaður minntist hér á heimildargrein, og að sá sem hér stendur sé kominn í heilan hring, þá hefur hann misst af þeim hluta ræðu minnar að það var Framsóknarflokkurinn sem fór með málefni heilbrigðismála síðustu tólf árin. Að sjálfsögðu treysti ég ráðherrum Framsóknarflokksins fyrir þeim málaflokkum enda var mjög varlega farið. Nú er það hins vegar svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið afhentan lykil að heilbrigðisráðuneytinu og mikið meira en það, hann hefur fengið loforð frá Samfylkingunni um að hún muni styðja róttækar breytingar á heilbrigðiskerfinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki getað farið í í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Þetta er nú staðreynd málsins, gríðarlegar breytingar sem hafa átt sér stað á stuttum tíma. Ég hef ekkert snúist í þeirri afstöðu minni að ég treysti ráðherrum Framsóknarflokksins til þess að fara skynsamlega með þessa heimildargrein en hún á að falla brott því að ég treysti ráðherrum Sjálfstæðisflokksins einfaldlega ekki fyrir heilbrigðisráðuneytinu.

Ég lýsi mig fúsan til þess að ræða við stjórnvöld, hvort sem það er hér á þingi eða annars staðar, um það að ráðast í einhverjar aðgerðir sem miða að því að draga úr þenslunni. Það hafa einfaldlega engar tillögur komið fram hjá stjórnarflokkunum í þá átt (Forseti hringir.) og þar af leiðandi er um lítið að ræða við stjórnarflokkana í þeim efnum.