135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[22:57]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætt samstarf. Ég tel að hann hafi að mörgu leyti staðið sig ágætlega sem formaður fjárlaganefndar. Hann tók við mjög erfiðu fjárlagabúi, ef svo má að orði komast, frá ríkisstjórninni sem var orðið mjög ofþanið þegar það kom inn í þingið. Hins vegar votta ég hv. þingmanni samúð mína út af því að á næstu fjórum árum munum við rifja upp digur kosningaloforð Samfylkingarinnar í vaxtabótum, barnabótum, skattleysismörkum og áfram mætti telja, en hv. þingmaður getur ekki borið ábyrgð á því.

Hv. þingmaður spyr hins vegar hvar við framsóknarmenn höfum viljað taka upp hnífinn þegar kemur að niðurskurði eða aðhaldi. Því er til að svara, hæstv. forseti, að okkur hefur ekkert verið hleypt að því borði. Það er allt annað að vera ríkisstjórnarmegin með aðgengi að öllum ráðuneytum og stofnunum til þess að móta slíkar aðgerðir. Ég hef sagt að við framsóknarmenn séum reiðubúnir til samstarfs í þeim efnum að skoða alla kosti hvað það varðar. Við erum einfaldlega ekki í aðstöðu til þess að kafa ofan í einstakar stofnanir, við erum ekki með beint aðgengi eins og ráðherrar hafa, að stofnunum og ráðuneytum þannig að það er mjög einfalt mál. Hins vegar höfum við lýst yfir vilja til þess að koma að þessu verkefni með ríkisstjórnarflokkunum. Við höfum ekki fengið að koma að því borði og við höfum því miður ekki séð neinar marktækar tillögur sem miða að því að minnka þensluna og koma á stöðugleika. Þetta ríkisstjórnarsamstarf byrjar að því leytinu til mjög illa og eins og (Forseti hringir.) ég sagði áðan, hæstv. forseti, styttist til kosninga.