135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:05]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Herra forseti. Já, það líður að ferðalokum hjá mér. Þessi starfskynning á Alþingi hefur vægast sagt verið áhugaverð. Á köflum hefur mér þótt ég vera stödd í miðri Spaugstofunni þar sem lambalæri og grænar baunir hafa dottið inn í umræður sitt á hvað og hið fagra Ísland og viðhorfið „við erum best, fallegust, frægust, sennilega feitust en kunnum varla að lesa“ borið á góma.

Fyrir venjulega húsmóður frá Akureyri hefur þetta verið mikil lífsreynsla. En verst þykir mér að allir þeir draumar sem lagt var upp með í vor virðast hafa endað. Kannski er það bara þannig að það stóð aldrei til að þeir mundu allir rætast, þessir draumar. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson minntist á gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng og vissulega er það svo að við eigum okkur öll drauma.

Mínir draumar eru held ég afskaplega jarðbundnir. Ég, ásamt Vinstri grænum, hef lagt til ýmsar breytingar hér. Allar höfum við reynt að láta rúmast innan þess sem við teljum að megi spara á móti, (Gripið fram í: Aukaútgjöld.) aukatekjur, aukaútgjöld, það má vel vera svo.

Hv. formaður fjárlaganefndar Gunnar Svavarsson boðar bætta starfshætti við gerð fjárlagafrumvarpsins og það er eins öruggt og ég stend hér að við vinstri græn fögnum því. Við teljum okkur hafa ýmislegt til málanna að leggja. Okkar forgangsverkefni eru að bæta heilbrigðisþjónustuna. Ég veit vel að hún sýpur til sín mikið af peningum en ég held að þeim peningum sé vel varið. Ég veit líka að væntingastuðull Íslendinga er hár. Að sjálfsögðu vilja þeir vera áfram bestir, feitastir og fallegastir. Ja, sennilega ekki feitastir en þeir vilja alla vega vera fallegastir, frægastir og ríkastir. Þetta er það sem fólkið vill hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þess vegna finnst mér ansi sárt að þrátt fyrir margra ára sparnað hjá sjúkrastofnunum, þrátt fyrir að hafa endurskipulagt allan rekstur sinn í mörg ár, þrátt fyrir að hafa ekki tekið í notkun húsnæði sem stendur og bíður eftir því að vera tekið í notkun og þrátt fyrir að hafa ekki getað endurnýjað gamla húsnæðið sitt, gömlu tækin sín eða jafnvel bætt við sig starfsfólki, þá eru þau enn í sömu sporunum.

Ég hef fyrir framan mig erindi sem Sjúkrahúsið á Akureyri sendi fjárlaganefnd. Þar tilgreina þau mörg brýn málefni og framkvæmdir. Ég er viss um að þeir sérfræðingar sem settu saman þessa skýrslu hafa velt henni nákvæmlega fyrir sér. Fólkið sem vinnur í þessu veit hvar skórinn kreppir, veit hvað þarf til til þess að bæta þjónustuna. Ef Sjúkrahúsið á Akureyri á að létta á Landspítalanum verður það að fá rými til þess, fjármagn til þess að geta það.

Ég veit að við verðum að sýna ráðdeild og sparsemi og við megum ekki eyða peningum. Þá verðum við líka, eins og við gömlu húsmæðurnar að norðan, að reyna að forgangsraða. Ef við sleppum því að eyða nokkrum milljónum í að verjast óvinum sem enginn veit hver er, sem á að koma og herja á þetta litla Ísland, skuldaríkið Ísland, þá verða til nokkrar milljónir sem hægt er að verja á annan veg.

Sjúkrahúsið á Akureyri taldi sig þurfa rúmlega 400 millj. kr. í málefni og framkvæmdir sem eru mjög brýn. Þótt ég sé ekki sérfræðingur í frumvarpi til fjárlaga hef ég nú flett því hér fram og til baka — leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál — en ég get ekki séð annað en að af þeim 403 millj. kr. sem þeir telja brýnt að fá komi 147 millj. kr. í þeirra hlut. Þar vantar tæpar 250 millj. kr. upp á. Í hvað ætluðu þeir að nota þessar 403 millj. kr.? Jú, þeir ætluðu að innrétta suðurálmuna. Suðurálman hefur sennilega í 20 ár beðið tilbúin til notkunar. (Gripið fram í: 20 ár?) Já, um það bil það. Ég hef ekki ártalið fyllilega á hreinu en það liggur við að ég muni eftir henni alveg frá því fyrir um 20 árum. Við skulum nú sjá, ég vann þarna í kring um 1986. Þá var búið að byggja suðurálmuna og verið að byggja hana. (Gripið fram í: Tíu ára gömul?) Æ, hvað þú ert sætur. Já, það er svona að vera feitur þá hrukkast maður ekki. Vissirðu það? (Gripið fram í.) Það er nefnilega svoleiðis.

En það er ekki nóg að innrétta þessa álmu það þarf líka alls kyns búnað í hana. Svo eru reglur sem segja að fólk megi minnka við sig vinnu við 55 ára aldur. Í staðinn fyrir það fólk þarf að ráða fólk. Uppi eru kröfur um líknardeild. Fólk vill fá að deyja með reisn og óskar sér líknarmeðferðar. Við þurfum að koma þessu fólki fyrir. Þegar rúmin eru spöruð þarf að auka þjónustuna á göngudeildum. Móttöku þarf fyrir sykursjúka meðal annars. Endurhæfing á Kristnesspítala, endurhæfingardeild FSA hefur verið starfrækt á Kristnesspítala frá því 1991. Þar eru 27 virk endurhæfingarrými.

Ef húsnæðið væri stækkað væri hægt að taka á móti einstaklingum með hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, geðraskanir og krabbamein en því miður er ekkert pláss fyrir það í dag. Þá þarf að senda suður til endurhæfingar. Er það sparnaður? Einmitt þetta benda sérfræðingarnir á, þ.e. hvernig hægt er að spara. Það er allt í lagi að lesa í gegnum skýrsluna og hugsa það. Það er dýrt, ekki bara fyrir ríkið heldur líka dýrt fyrir fjölskyldur, aðstandendur sjúklingsins og þann sem þarf þessa endurhæfingu að dvelja sex vikur eða þrjá mánuði fyrir sunnan. Það er á margan hátt hægt að spara í kerfinu en fyrsta leiðin til þess er náttúrlega að hlusta á þá sem leggja til sparnaðaraðgerðirnar í því umhverfi sem þeir gjörþekkja.

Viðhald húsnæðisins í eigu FSA er eitt. Árlegt viðhaldsfé spítalans er aðeins um 25 millj. kr. og það hefur ekkert breyst frá því árið 1993. Það á að viðhalda 26 þús. fermetrum fyrir 25 millj. kr. Miðað við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar ætti framlagið að nema um 50 millj. kr. en það hefur ekkert hækkað. Það er bara krossað við, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði áðan. Frumvarpið breytist ekkert, þar eru bara sömu 25 milljónirnar inni.

Ef við getum ekki tekið þetta varasjúkrahús Landspítalans og hjálpað því að stækka og breytast og komast í það horf að það geti virkilega létt á Landspítalanum þá erum við í slæmum málum. Það er ekki endalaust hægt að bíða eftir að byggt verði upp hátæknisjúkrahús hér á suðursvæðinu. Sjúkrahúsið á Akureyri þjónar öllu Norðausturkjördæmi. Það vantar innréttingar, það vantar lækni í sjúkraflug og það þyrfti nýja legudeild, það þarf að laga þak svo tengibyggingin þar hætti að leka. Forráðamenn sjúkrahússins telja að allur þessi pakki kosti rúmar 400 milljónir en það fær tæpar 150, tæpar 150 skal það fá.

Við ræddum talsvert almannatryggingalögin í gær, breytingarnar á þeim. Þar varð okkur tíðrætt um heilsugæsluna, heilsugæslur út um allt land og sérstaklega í Reykjavík, heilsugæslur sem eru á hvínandi kúpunni eins og sagt er. Þessa þjónustu þarf að byggja upp, þörfin er ofboðslega brýn. Á höfuðborgarsvæðinu eru nokkur þúsund manns án heimilis- eða heilsugæslulæknis. Við vitum að það er þjóðhagslega hagkvæmt og eykur öryggi og samfellu í þjónustu að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Þetta er yfirlýst markmið hjá heilsugæslunni, hjá þeim sem fjalla um þessi mál, en fögur orð á blaði eru ekki nóg.

Í gær varð hv. þm. Ögmundi Jónassyni tíðrætt um tískuna sem kemur alltaf annað slagið upp í pólitíkinni. Ég vil leggja til nýtt tískuorð á Alþingi, það er orðið skuldahalaklippingar. Þótt ekki væri annað en að hæstv. ríkisstjórn tæki sig til og stundaði skuldahalaklippingar í erg og gríð og losaði allar þessar stofnanir við sína löngu skuldahala mundi það létta örlítið á þeim. En það er bara ekki nóg og við vitum það öll. Bráðveikir hjartasjúklingar sem liggja á Landspítalanum vita það kannski manna best.

Ég skil vel að þetta sé erfitt. Hagstjórnin er erfið í harðæri en hún virðist vera enn erfiðari í góðæri. Það má ekki sleppa peningunum út. Samt hefur það alltaf tíðkast í eðlilegum heimilisrekstri. Þegar loksins bætist aukakróna í budduna þarf að huga að því að klæða börnin og fæða eða nálgast þær vörur sem menn hafa þurft að vera án meðan engir peningar voru til. Núna eru til peningar, það eru meira að segja til miklir peningar. Ef ekki má sleppa þeim öllum út, eins og ég orðaði það áðan, þá skulum við skera niður það sem er ónauðsynlegt. Skiptum aðeins út, forgangsröðum upp á nýtt, látum fólkið í landinu sem hefur skapað grunninn að þessum auði, gamla fólkið okkar, njóta þess. Ég geri mér grein fyrir að peningar hafa verið settir inn í þennan og hinn málaflokkinn en að mínu mati er það ekki nóg, það er ekki alveg nóg.

Heilbrigðisstofnun Austurlands var fyrsta heilbrigðisstofnun sinnar tegundar hér á landi. Þar hefur verið unnið mikið brautryðjendastarf sem kostað hefur bæði fjármagn og mikla vinnu. Heilbrigðisstofnun Austurlands á við erfiða fjárhagsstöðu að stríða eftir mikinn þenslutíma á svæði stofnunarinnar og þann veruleika að draga verður úr allri þjónustu á næsta ári ef ekki verður brugðist við með auknu fjármagni til reksturs og uppbyggingar. Þenslan á Austurlandi hefur líka haft sín áhrif á heilbrigðisstofnunina. Húsnæði heilsugæslustöðvarinnar og sjúkrahússins á Egilsstöðum er mjög þröngt og það hentar illa þeirri starfsemi sem þar fer fram í dag. Það stendur í vegi fyrir aukinni og betri þjónustu.

Sjúkrahúsin úti á landi, á Akranesi, Egilsstöðum, Akureyri, Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ, hafa kannski fengið smáskuldahalaklippingu, kannski hafa þau fengið smápening, en með því að hjálpa þeim erum við líka að hjálpa Landspítalanum af því að þegar þessi sjúkrahús geta tekið á móti erfiðum tilfellum er ekki flogið með slíka sjúklinga á Landspítalann. Þetta helst allt í hendur. Einhver minntist á dans í kringum jólatré, þetta er hálfgerður hringdans, reksturinn á þessum sjúkrahúsum helst í hendur, erfiðleikar eins sjúkrahúss koma niður á öðrum.

Landspítalinn er náttúrlega sjúkrahús allra landsmanna. Hann tekur á móti öllum erfiðustu tilfellunum, öllum sjaldgæfustu tilfellunum, öllum þeim sem eru hvað mest fatlaðir og erfiðast er að þjónusta. Það gera ekki einkareknu sjúkrahúsin, þau græða mest á því að framkvæma lýtaaðgerðir þar sem sjúklingarnir þurfa ekki að liggja inni. Hugsum um það.

Tillaga mín er sú að við setjum nokkrar krónur aukalega í þetta, og ekki bara nokkrar heldur þær krónur sem þarf. Hlustum á fólkið sem í örvæntingu reynir að halda starfseminni óskertri og fyrir vikið myndast biðlistar, langir biðlistar þar sem fólk eins og móðir mín og afi þinn eða amma þín eða frænka jafnvel deyja meðan þau eru á biðlistanum. Við viljum ekki hafa þetta svona, 60% Íslendinga vilja það ekki. Ég er viss um að hluti af þessum 60% styður bæði Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk því að síðast þegar ég vissi voru ekki 60% landsmanna vinstri græn. Þetta er fólkið okkar sem biður okkur um hjálp.

Að mörgu er að hyggja í þessum fjárlögum og ég geri mér alveg ljósa grein fyrir því að allt það ágæta fólk sem situr í fjárlaganefnd hefur gert allt sitt besta innan þeirra ramma sem því hafa verið settir, en rammarnir eru of litlir, þeir eru of þröngir eða sumir eru of þröngir og aðrir eru of víðir. Það er sennilega þar sem hundurinn liggur grafinn. Það er svo margt sem betur má fara á Íslandi. Þó að við séum falleg og þó að við séum rík og þó að við séum, sum okkar, feit og önnur of mjó getum við samt sem áður tekið höndum saman um að þvo af okkur þann smánarblett sem svelti sjúkrahúsanna er.

Mig langar líka að minnast á þær öldrunarstofnanir sem við eigum. Einn hluti af vandamálum sjúkrahúsanna, sérstaklega Landspítalans, er sá að ekki er hægt að útskrifa fólk vegna þess að það er of veikt til að fara heim til sín og það eru engin hjúkrunarheimili til að taka við þeim. Við þurfum að byggja upp hjúkrunarheimili og það er engin hætta á að þau hjúkrunarheimili muni standa auð um aldur og ævi, þjóðin eldist. Fólk fær þjónustu heim til sín af því að það vill þjónustu heim til sín eins lengi og það getur en þegar það getur ekki meir þarf það á hjúkrun að halda og þá fer það á hjúkrunarheimili. Hjúkrunarplássum þarf að fjölga hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Ég geri mér líka grein fyrir að það er ekki af viljaleysi að þetta gerist ekki, eða ég ætla rétt að vona að svo sé. Kannski þegar starfshættir batna við gerð fjárlagafrumvarpa og ég vona að þess megi sjá merki í nýju fjárlagafrumvarpi á næsta ári vegna þess að ég er ekki viss um að starfsfólkið sem vinnur við þær stofnanir sem hafa lent í þessum endalausu sparnaðaraðgerðum og glíma við manneklu og vinnutíma, sem oft slær út vinnutíma þingmanna, þoli svo mörg ár í viðbót. Ég er ekki viss um að þar sé svo mikil endurnýjun á starfsfólki. Þetta starfsfólk er að eldast alveg eins og allir aðrir landsmenn, það eldist og fer smátt og smátt á eftirlaun og hverjir koma þá í staðinn? Manneklan er nú nóg samt.

Það er ekki af illmennsku einni saman að við í stjórnarandstöðunni reynum að benda meiri hlutanum á þessar aðgerðir, að við viljum meira fjármagn til þessa málefnis. Við skulum frekar segja að það sé af góðmennsku og að við teljum okkur fær um að benda á að hægt sé að gera þetta öðruvísi, að það standi okkur Íslendingum nær að byggja upp sjúkraþjónustuna og hjúkrunarheimilin um allt land og á höfuðborgarsvæðinu en að kaupa vernd frá NATO, en að eyða í varnarmál og heræfingar. Þegar maður á ekki pening fyrir meðali handa börnunum sínum fer maður ekki og kaupir sælgæti eða byssu handa þeim að leika sér að, það er speki húsmæðra og það er speki sem hv. fjárlaganefnd mætti alveg tileinka sér. Ef okkur vantar peninga til sjúkrahúsanna þá höfum við vinstri græn bent á hvar hægt er að taka þá peninga. Fleiri þurfa peninga. Margt gott hefur verið gert í félagsmálum, margt gott mun verða gert á komandi árum í þeim málum. Ég tek heils hugar undir það, við vinstri græn gerum það þó að okkur finnist ekki nóg komið.

Af því að ég sé hæstv. menntamálaráðherra hinum megin við ganginn langar mig að leyfa henni að heyra að ég hef lagt fram breytingartillögu við fjárlagaliðinn Ýmis framlög menntamálaráðuneytis. Þannig er að veita á Gaulverjaskóla 8,7 millj. kr. framlag vegna meðferðarstarfsemi sem þar fer fram. Nú háttar svo til að Gaulverjaskóli er að fara að starfa eftir fyrirmynd skóla sem heitir Hlíðarskóli og er staðsettur rétt utan Akureyrar. Þess vegna vil ég gera það að tillögu minni að Hlíðarskóla verði veitt sama framlag. Ég vil líka gjarnan fara fram á það við hæstv. menntamálaráðherra að hún ræði við Akureyringa um framtíð þessa skóla. Í Hlíðarskóla er pláss fyrir 16 drengi og átta stúlkur sem eiga við hegðunar-, aðlögunar- og samskiptaröskun að stríða. Auk þess eru þar fimm pláss ætluð börnum með geð- og þroskaraskanir. Þetta eru börn á skólaskyldualdri sem geta ekki stundað nám við almenna skóla. Það er sanngirnismál að þessum tveimur skólastofnunum sem eru með sömu úrræði fyrir börn á skólaskyldualdri sé veitt sama fjárhæð því að þetta eru dýr úrræði og þau kosta talsvert meira en þessar 8,7 milljónir, en ég fer ekki fram á meira, við verðum að gæta að ráðdeild og sparsemi.

Ég gleðst yfir því að minni hlutinn á að fá meiri aðgang að gerð fjárlagafrumvarpsins og að koma fyrr að því. Ég vona svo sannarlega að fjárlög næsta árs beri þess merki að við tökum okkur saman í andlitinu, að við öll, hv. alþingismenn, sýnum þjóðinni fram á að við höfum vilja til að bæta úr þessum málum. Það er ekki meining okkar að hafa þetta allt í niðurníðslu, hús og starfsemi, starfsfólk að niðurlotum komið, biðlista sem eru lengri en tárum taka. Það er ekki vilji okkar, ég skal aldrei trúa því. Ég skora á ykkur öll að samþykkja þær viðbótarfjárhæðir sem við óskum eftir í þessa málaflokka og ef skera þarf niður á móti bendi ég á að það er hægt, það er alveg hægt að halda sig innan ramma.