135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:51]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara örstutt varðandi Hvalfjarðargangaumræðuna: Það vakti athygli mína að Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram þingmál um að fella niður gjaldið í Hvalfjarðargöngunum, en einungis þrír þingmenn stóðu að því. Hvort það ber vott um að samþykkt flokksins sé ekki á bak við það veit ég ekki en eingöngu er skrifað undir það af þremur þingmönnum.

Spurt er hvort ég sé tilbúinn að safna liði með þeim mönnum sem vilja flytja málið en þegar eru komnar fram tvær ólíkar tillögur um það með hvaða hætti eigi að gera þetta. Sjálfur hef ég haft ákveðnar hugmyndir um það og er tilbúinn til samstarfs við hvern sem er um að skoða gjaldtöku á vegum og ræða það á opnum vettvangi. Mér finnst þetta vera mikið réttlætismál og við erum að fá nýjar og nýjar upplýsingar um hvaða áhrif þetta hefur, m.a. á búsetu. Ég er tilbúinn að vinna með hverjum sem er en ég er ekki tilbúinn að fara á eitthvert ákveðið mál sem er dauðadæmt fyrir fram vegna þess að menn hafa ekki stuðning við flutning þess.