135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:52]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það nú reyndar svo í þingflokki vinstri grænna að þegar við höfum áhuga á að leggja fram þingmál ræðum við það í þingflokknum og síðan er sameiginleg ákvörðun tekin um það hvort það mál er flutt og hverjir verða flutningsmenn. Það dregur ekkert úr einurð okkar í þessu máli þó að flutningsmenn hafi að þessu sinni verið þrír eins og þingmaðurinn nefndi. Þar á meðal er þingmaður okkar í Norðvesturkjördæmi, Jón Bjarnason, og undirritaður sem er fulltrúi flokksins í samgöngunefnd. Þannig að þar birtist að sjálfsögðu sú afstaða sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í þessu máli.

En það er ekki aðalatriðið. Þingmaðurinn getur ekki skotið sér á bak við það að ekki séu nógu margir flutningsmenn að málinu eða ekki réttir flutningsmenn ef svo má segja. Það er væntanlega sama hvaðan gott kemur. Ég fagna því að þingmaðurinn segist gjarnan vilja vinna að framgangi þessa máls með hverjum sem er. Að sjálfsögðu er opið fyrir það. Við höfum valið að setja þetta mál fram í formi þingsályktunar og hún kemur væntanlega til umfjöllunar í samgöngunefnd. Það er að sjálfsögðu opið fyrir hvaða þingmann sem er að koma með breytingartillögur eða hugmyndir um annars konar útfærslur ef honum líkar ekki sú útfærsla sem við höfum lagt til. Í okkar huga er sú útfærsla sem við höfum lagt til ekki sú eina mögulega heldur hugmynd sem við höfum varpað fram í þessu samhengi. Ég hvet hv. þingmann aftur til þess að við tökum höndum saman í þessu máli og reynum að tryggja því framgang sem allra fyrst.