135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[00:35]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við erum langt komin í 3. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008. Umræðan hefur tekið allan daginn, margar ræður hafa verið fluttar og margt hefur komið fram.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa nú þegar margir tekið máls í umræðunni og rætt almennt um markmið frumvarpsins, um efnahagsstjórnina. Við höfum jafnframt gert grein fyrir einstökum tillögum sem við leggjum til við umræðuna um breytingu á fjárlagafrumvarpinu.

Í umræðunni höfum við margsinnis lagt áherslu á að lausatök hafa verið í efnahagsstjórninni hér á landi undanfarin ár og ekki síst undanfarin missiri. Það hefur m.a. komið fram í mikilli þenslu sem við höfum búið við með þeim áhrifum og afleiðingum sem hún hefur fyrir allan almenning í landinu. Ekki er sérstök ástæða til að fara frekar í það mál. Áherslum okkar hafa verið gerð góð skil, bæði í umræðum um fjárlagafrumvarpið og einnig í almennum umræðum um efnahagsmál sem fram hafa farið hér á hv. Alþingi í haust.

Sá málaflokkur sem við teljum að vinna þurfi hvað mest í til viðbótar við það sem er gert í fjárlagafrumvarpinu og ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera með sérstöku átaki, eru heilbrigðismálin, mál er varða aldraða og öryrkja og sömuleiðis barnafjölskyldur í landinu. Við söknum þess að ekki skuli vera ráðist í aðgerðir til þess að hækka barnabætur og vaxtabætur sem koma sér sérstaklega vel fyrir ungar fjölskyldur í landinu.

Við teljum að mikið skorti á að stjórnarflokkarnir, sérstaklega Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, standi við stóru orðin frá því fyrir síðustu alþingiskosningar þegar verið var að leita eftir atkvæðum frá kjósendum og stuðningi þeirra til að stýra landinu. Við höfum einnig rætt um mál er lúta að öldruðum og öryrkjum og teljum að sýnt hafi verið fram á að enn betur þurfi að gera en gert hefur verið.

Við höfum enn fremur haldið uppi töluverðri gagnrýni á ríkisstjórnina hvað varðar heilbrigðismálin sérstaklega. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem hér talaði á undan mér, fór rækilega yfir heilbrigðismálin og hvaða áherslur við hefðum fram að færa í þeim málaflokki. Þar leggjum við auðvitað áherslu á fjárskortinn á sjúkrahúsum eins og Landspítalanum, svo dæmi sé tekið, þar sem ljóst er að vantar væntanlega 800–1.000 millj. kr. bara til þess eins að halda í horfinu frá því sem verið hefur. Sömuleiðis má nefna heilsugæsluna, einkum og sér í lagi hér á höfuðborgarsvæðinu, þar skortir líka hundruð milljóna. Kynntar hafa verið hugmyndir af hálfu heilsugæslunnar um hvernig mæta þurfi þeim niðurskurði sem fyrirsjáanlegur er á næsta ári um rúmlega 500 millj. kr., hálfan milljarð.

Hvað dettur mönnum þá helst í hug? Það er að skera niður í mikilvægri forvarnastarfsemi eins og í mæðravernd, skólahjúkrun og fleiri slíkum þáttum. Nú hefur verið sagt, m.a. hæstv. heilbrigðisráðherra, að ekki komi til álita að gera það.

Staðreyndin er engu að síður sú að fjárhæðir vantar til þess að heilsugæslan geti staðið við lögbundnar skuldbindingar sínar og þá verða stjórnvöld að sjálfsögðu að svara því og segja hvað annað eigi þá að gera ef ekki á að fara að þeim tillögum sem heilsugæslan sjálf gerir til þess að halda sig innan fjárhagsramma. Á kannski að keyra heilsugæsluna á einhverjum yfirdrætti rétt eins og menn hafa verið að gera með Landspítalann sem safnar tugum ef ekki hundruðum milljónum króna í yfirdráttarskuldir við birgja? Allt hugsandi fólk, líka hér á hv. Alþingi og í stjórnarmeirihlutanum, áttar sig á og sér að það er afskaplega óskynsamleg ráðstöfun á opinberum fjármunum.

Mér dettur í hug að vekja máls á því sérstaklega þegar ég heyri hugmyndir frá forsvarsmönnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um að draga eigi úr eða leggja eigi niður skólahjúkrun. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði skólatannlækningar að umtalsefni í sinni ræðu áðan.

Tekin var um það pólitísk ákvörðun fyrir sennilega um tíu árum um að leggja niður skólatannlækningar. Það var umdeild ákvörðun en hún var engu að síður tekin. Hver er svo staðan í þeim málum í dag? Ekki er langt síðan við fengum að sjá skýrslu um tannheilsu barna og ungmenna hér á landi sem sýnir svart á hvítu að henni hefur hrakað mjög mikið á undanförnum áratug eða frá því að ákvörðun var tekin um að leggja niður skólatannlækningar.

Ég held að þeir sem stóðu að ákvörðuninni á þeim tíma hljóti nú að sjá og viðurkenna að það var röng ákvörðun. Með sama hætti getum við velt fyrir okkur hvaða afleiðingar það mundi hafa ef við tækjum svo afdrifaríka ákvörðun eins og að leggja niður skólahjúkrun.

Ég held að enginn vilji taka slíkar ákvarðanir. Þá hljótum við með sama hætti að kalla eftir því hvað annað eigi að gera ef ekki á að bæta fjármagni inn í reksturinn. Ekki er endalaust hægt að segja að það eigi bara að hagræða og hagræða án þess að svara því með hvaða hætti á að gera það. Ekki er endalaust hægt að draga úr fjárveitingum til þessarar viðkvæmu þjónustu án þess að það bitni á henni. Á skortir að meiri hlutinn hér á Alþingi, ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn, svari þeim spurningum.

Ég ítreka að þrátt fyrir að við þingmenn vinstri grænna séum gagnrýnin á margt í fjárlagafrumvarpinu og viljum leggja meira fjármagn í vissa þætti er að sjálfsögðu margt gott í þar og má kannski segja að þakka skyldi. Varla er til svo aum ríkisstjórn að hún geri ekki einhverja góða hluti líka. Að sjálfsögðu er það svo að verið er að gera fjölmargt gott og vitaskuld endurspeglast það í fjárlagafrumvarpinu.

Við höfum reynt að sýna fram á hvernig mæta megi nýjum útgjöldum sem við leggjum til með auknum tekjum. Það höfum við gert í samræmi við áherslur okkar í skattamálum fyrir síðustu kosningar. Við lögðum til að skatthlutfall í fjármagnstekjuskatti yrði hækkað úr 10% í 14% en um leið yrði komið á ákveðnu frítekjumarki á fjármagnstekjuskatti í kringum 100 þús. kr. á ári sem mundi í raun þýða að skattbyrði flestra sem greiða fjármagnstekjuskatt mundi minnka. Hins vegar yrði hærri skattbyrði á þá sem fá umtalsverðar og mjög háar fjármagnstekjur og við teljum að skattbyrðin sé réttlátari þannig.

Við teljum sem sagt að hægt sé að tryggja ríkissjóði um tíu milljarða í viðbótartekjur með þessum hætti. Við teljum mikilvægt að sýna ábyrgð í tillögum okkar, sýna að við gerum ráð fyrir tekjum til að standa undir þeim viðbótarútgjöldum sem við leggjum til við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.

Margir hafa haldið því fram, ekki eingöngu við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, heldur einnig þeir sem fjallað hafa um efnahagsmál og hagstjórnina, fræðimenn á því sviði og aðrir sem vel til þekkja, að sú leið sem fráfarandi ríkisstjórn fór með því að lækka skatta á þenslutímabili sé óskynsamleg frá hagstjórnarlegu sjónarmiði. Það er einfaldlega vegna þess að slíkt eykur á innlenda eftirspurn sem að sjálfsögðu knýr áfram verðhækkanir og verðbólgu.

Fjármálaráðuneytið spáir því nú að verðbólgan á næsta ári verði um 3,3%. Það er talsvert yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, um 25% yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Ljóst er að það er þróun sem verið hefur nokkur undanfarin ár. Þess vegna bendir flest til að há verðbólga sé að festast í sessi. Það mun að sjálfsögðu fyrst og fremst koma niður á almenningi, bæði að því er varðar almennan kaupmátt og að sjálfsögðu hefur það veruleg áhrif á skuldastöðu heimilanna. Skuldsetning heimilanna í landinu er líka áhyggjuefni sem stjórnvöld þurfa að láta sig varða og taka á. Við hljótum að kalla eftir aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins í því efni.

Þegar við tölum um skuldsetninguna er ekki nóg fyrir stjórnvöld að horfa á ríkissjóð einan og segja að afkoma ríkissjóðs sé góð að þessu leyti. Það eru miklu fleiri þættir í þjóðarbúskapnum sem hafa þarf í þeirri umræðu. Að sjálfsögðu er það skuldsetning heimilanna, skuldsetning fyrirtækjanna og atvinnulífsins og skuldsetning sveitarfélaganna. Allt eru þetta þátttakendur í efnahags- og atvinnulífinu og mikilvægir sem slíkir í þjóðarbúskapnum. Sérhver ríkisstjórn verður að horfa á þjóðarbúskapinn í heild sinni, bæði þann þátt sem lýtur að ríkisfjármálunum sérstaklega sem hún hefur að sjálfsögðu á sínu valdi, og eins aðra þætti þar sem aðrir ráða för. Staða sveitarfélaganna er sérstakt umfjöllunarefni í þessu samhengi.

Ég ætla að geta um breytingartillögur sem koma frá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og lúta að afkomu og stöðu sveitarfélaganna sérstaklega. Í fyrsta lagi erum við með breytingartillögur á þingskjali 476 þar sem við leggjum til hækkað framlag til varasjóðs húsnæðismála vegna félagslegra íbúða sveitarfélaga um 225 millj. kr. og einnig endurgreiðslu til sveitarfélaga á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibifreiðum og búnaði slökkviliða, alls 70 millj. kr. Við leggjum til hækkun á framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna sameiningar sveitarfélaga um 235 millj. kr. og endurgreiðslu til sveitarfélaga vegna veiða á ref og mink um 29,4 millj. kr. Loks eru það styrkir til fráveitna sveitarfélaga upp á 490 millj. kr. Ég ætla að leyfa mér að vitna í greinargerð með þessum breytingartillögum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ýmis sveitarfélög áforma sölu félagslegra íbúða á næsta ári og lítið mun draga úr umsóknum um rekstrarframlög. Til að veita þeim sveitarfélögum sams konar aðstoð og sveitarfélög hafa notið á undanförnum árum þarf varasjóður húsnæðismála að hafa til ráðstöfunar sem nemur 285 millj. kr. á fjárlögum ársins 2008. Hér er því lagt til að hækka framlag til hans um 225 millj. kr.

Sveitarfélögin fá endurgreiddan virðisaukaskatt vegna kaupa á slökkvibifreiðum og búnaði slökkviliða. Undanfarin ár hefur 30 millj. kr. verið ráðstafað til þessa verkefnis á fjárlögum en það dugar hvergi nærri til endurgreiðslu á þeim virðisaukaskatti sem sveitarfélögin eiga rétt á. Á fjárlögum ársins 2008 þarf framlag til umræddrar endurgreiðslu að nema a.m.k. 70 millj. kr. eins og hér er lagt til.

Eðlilegt er að þau sveitarfélög sem sameinast í framtíðinni njóti sömu fjárhagslegu fyrirgreiðslu og þau sveitarfélög sem sameinast hafa á undanförnum árum og kann það í raun að vera forsenda þess að sameining umræddra sveitarfélaga gangi eftir. Á fjárlögum ársins 2008 þarf því að gera ráð fyrir sérstöku framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að fjárhæð 235 millj. kr., eins og hér er lagt til.

Til að endurgreiðsluhlutfall ríkisins vegna kostnaðar við refa- og minkaveiðar verði um 50% eins og ráð var fyrir gert á sínum tíma þarf framlag á fjárlögum ársins 2008 að nema um 60 millj. kr. Hér er því lagt til hækkað framlag um 29,4 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum fráveitunefndar þurfa sveitarfélögin 790 millj. kr. til framkvæmda vegna fráveitna á árinu. Hér er því lögð til hækkun framlags um 590 millj. kr.“

Ég vil af þessu tilefni greina frá því að tillögurnar sem við leggjum hér fram eru samhljóða tillögum sem Samband íslenskra sveitarfélaga lagði fram í bréfi til hv. fjárlaganefndar sem dagsett er 19. nóvember síðastliðinn þar sem það óskar eftir að ræða þessar hugmyndir eða tillögur við fjárlaganefnd og rökstyður þær rækilega í bréfi sínu til fjárlaganefndar.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast að meiri hluti fjárlaganefndar, sem er býsna vel mannaður af góðum og gegnum fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum, skuli ekki sjá ástæðu til þess að koma með neinum hætti á móts við þessar tillögur. Hér er fyrst og fremst um að ræða eðlilegar leiðréttingar á því sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu sjálfu.

Eins og ég hef rakið í greinargerðinni er þar m.a. vísað til upplýsinga frá fráveitunefnd þar sem kemur fram að um 440 millj. kr. vanti til að unnt sé að greiða sveitarfélögum styrki í samræmi við tillögur fráveitunefndar og gildandi reglur. Þar er vísað til þess að sú upphæð sem er í fjárlagafrumvarpinu, um 200 millj. kr., sé hvergi nægjanleg. Við leggjum því til að það verði bætt með viðbótarframlagi til þessa liðar. Ég hlýt að velta fyrir mér hverju það sætir að meiri hluti fjárlaganefndar skuli ekki koma til móts við þessi sjónarmið.

Hér er líka gerð grein fyrir þessu máli er varðar endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibifreiðum og búnaði slökkviliða. Í bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sveitarfélögin eigi óuppgerðar endurgreiðslur frá fyrri árum og að framlagið sem gert er ráð fyrir á árinu 2008 sé allt of lágt til að standa við skuldbindingar fyrir utan þær endurgreiðslur sem eiga að koma vegna búnaðar sem keyptur var á árinu 2007.

Ég nefndi endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna veiða á ref og mink. Þar er talið að vanti um 60 millj. kr. Síðan nefndi ég framlag vegna sameiningar sveitarfélaga. Þar vantar að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga um 235 millj. kr. til þess að sveitarfélögin sitji við sama borð. Að lokum nefndi ég varasjóð húsnæðismála.

Þar ræðum við fyrst og fremst um sveitarfélög sem standa frammi fyrir fjárhagslegum vanda t.d. vegna íbúafækkunar og erfiðleika í atvinnulífi. Því til viðbótar kemur samdráttur aflaheimilda í þorski sem auka mun enn frekar á vanda þeirra sveitarfélaga sem hér um ræðir.

Ég hlýt því að beina máli mínu til hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, varaformanns fjárlaganefndar, fyrrverandi bæjarstjóra á Akureyri og víðar, og stjórnarmanns í Sambandi íslenskra sveitarfélaga til skamms tíma, og spyrja hvort fjárlaganefndin hafi rætt málið í þaula? Hvaða ástæður eru fyrir því að fjárlaganefnd kemur ekki til móts við tillögur okkar, telur hún þær órökstuddar eða hverju sætir þetta?

Ég geri tvær aðrar tillögur að umtalsefni. Annars vegar er breytingartillaga sem ég flyt ásamt Steingrími J. Sigfússyni og Katrínu Jakobsdóttur á þingskjali 468, þar sem lögð er til hækkun á framlögum til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Hins vegar er breytingartillaga á liðnum Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, undirliðurinn heitir Mannúðarmál og neyðaraðstoð.

Við leggjum til að framlög til Þróunarsamvinnustofnunar hækki um 200 millj. kr. og fari úr 1.436 millj. kr. í 1.636 millj. kr. Síðan leggjum við til að liðurinn Mannúðarmál og neyðaraðstoð hækki um 100 millj. kr., úr 309 í 409 millj. kr.

Ljóst er að töluverð hækkun er á framlögum í þennan málaflokk í fjárlagafrumvarpinu. Engu að síður blasir við sú staða að við Íslendingar erum enn langt frá því að uppfylla þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um framlög þróaðra ríkja til þróunaraðstoðar. Þar er gert ráð fyrir því að framlögin séu um 0,7% af landsframleiðslu og miðað við þau markmið sem nú voru sett, slögum við upp í helminginn af því. Augljóst er að þar vantar talsvert upp á. Við teljum að við getum gert betur og leggjum það til við þessa umræðu.

Sömuleiðis flyt ég, ásamt hv. þingmönnum Jóni Bjarnasyni, Álfheiði Ingadóttur og Atla Gíslasyni, breytingartillögur á þingskjali 464 sem varðar Ferðamálastofu. Þar leggjum við til að ferðamálasamtök landshluta fái 30 millj. kr. viðbótarframlag en í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 45 millj. kr. Við leggjum til að verkefnið Fjölsóttir ferðamannastaðir, sem eru úrbætur á umhverfismálum á fjölsóttum ferðamannastöðum, hækki um 20 millj. kr., úr 64 í 84 millj. kr. Við gerum síðan ráð fyrir nýju viðfangsefni til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu um 75 millj. kr.

Mér sýnist á tillögum meiri hluta fjárlaganefndar að gert sé ráð fyrir að til upplýsingamiðstöðva komi viðbótarframlag upp á 12 millj. kr., ef ég hef skilið tillögur meiri hlutans rétt. Það er jákvætt og er þar reynt að koma til móts við þennan mikilvæga málaflokk, ég get aðeins lýst ánægju minni með það.

Á hinn bóginn sakna ég þess að tekið sé á því er lýtur að markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu. Við höfum bent á það í greinargerð með tillögu okkar að gert sé ráð fyrir 75 millj. kr. til markaðssóknar á tveimur viðfangsefnum í fjárlagafrumvarpinu. Annars vegar er það undir viðfangsefninu Landkynningarskrifstofur erlendis en þar munu vera um 40 millj. kr. til markaðssóknar. Hins vegar er það undir viðfangsefninu Markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu sem er miðlægt hjá ráðuneytinu, um 30 millj. kr. Samanlagt eru það 70 millj. kr.

Til samanburðar má geta þess að til verkefnisins var varið rúmlega 300 millj. kr. árið 2004 og 150 millj. kr. hvort ár, 2005 og 2006. Framlagið til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu hefur því lækkað ár frá ári undanfarið og er núna aðeins 70 millj. kr. í samanburði við 300 millj. árið 2004. Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein í mikilli sókn. Mikilvægi hennar í atvinnulífinu hefur vaxið ár frá ári og hún er nú með þeim atvinnugreinum sem skapar okkur hvað mestar gjaldeyristekjur. Það er því óheillavænleg þróun sem blasir nú við. Þess vegna teljum við mikilvægt að snúa henni við og hækka framlagið til verkefnisins og gerum það hér með tillögu þar að lútandi.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið inn í nóttina. Ég hef farið stuttlega yfir nokkrar helstu áherslur okkar í sambandi við fjárlagafrumvarpið og gert grein fyrir breytingartillögum frá okkur á þremur þingskjölum. Sérstaklega hef ég gert hér að umtalsefni fjárhagsmálefni sveitarfélaganna og þær tillögur sem við höfum lagt fram í þeim efnum.

Auðvitað hlýtur maður að vænta þess að meiri hlutinn á Alþingi taki efnislega afstöðu til þeirra tillagna sem fram koma og láti það ekki á sig fá þótt góðar tillögur komi úr herbúðum stjórnarandstæðinga. Auðvitað væntum við þess og vonumst til að fá stuðning við þær góðu tillögur sem við leggjum fram eins og við vílum ekki fyrir okkur að samþykkja góðar tillögur frá stjórnarflokkunum þegar það á við. Það höfum við svo sannarlega gert, m.a. við atkvæðagreiðslu við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið. Að sjálfsögðu væntum við þess að fá jafnmálefnalegar undirtektir við tillögur okkar af þeirra hálfu.

Herra forseti. Í lokin ítreka ég sérstaklega þær vangaveltur og spurningar sem ég hef fram að færa til talsmanna forustu fjárlaganefndar að því er varðar sveitarfélögin sérstaklega og erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga til fjárlaganefndarinnar. Erindin varða margvíslegra málaflokka sem Samband íslenskra sveitarfélaga telur mikilvægt að ráðin verði bót á í fjárlagafrumvarpinu. Að því er ég best fæ séð eru þau fyrst og fremst borin fram til að leiðrétta hluti sem í raun ætti ekki að vera neinn ágreiningur um að þurfi leiðrétta frá því sem er í fjárlagafrumvarpinu nú þegar.