135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[01:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Bjarna Harðarsyni. Þingmönnum ber að gæta orða sinna. En nú vill svo til að ég hef játningu formanns fjárlaganefndar í andsvari við mig við 2. umr. sem hann gerði þegar ég hafði þessi sömu orð uppi og ásakaði, ef segja má svo, fjárlaganefnd og formann hennar fyrir að hafa gengið á bak orða sinna. Hann og formaður menntamálanefndar ræddu saman um þá kröfu menntamálanefndar, allrar menntamálanefndar, að hún fengi að sitja við borðið til enda ef bætt yrði í liðina.

Í andsvari við mig í 2. umr. sagði hv. formaður nefndarinnar — ég get nú ekki vitnað í hann beint vegna þess að eins og venjulega eru ræðurnar okkar ekki yfirlesnar og bein tilvitnun óheimil segir á heimasíðu þingsins — engu að síður sagði hv. formaður nefndarinnar í andsvari við mig að menntamálanefnd hefði komið svo seint með tillögur sínar, við hefðum verið á elleftu stundu með vinnuna sem hefði sett tímapressu á fjárlaganefnd og þess vegna hefði því miður ekki náðst að samræma endanlega niðurstöðu við menntamálanefnd eins og rætt hafði verið um. Ég er ekki að gera hér neitt annað en það sama og ég gerði við 2. umr. og formaður nefndarinnar er búinn að gangast við.