135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[01:48]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég var einnig viðstaddur þá umræðu sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vitnar til og ég tel töluverðan mun á því — þó svo að formaður geti þess að rætt hafi verið um að hafa vinnulagið með öðrum hætti eða að um bindandi samninga hafi verið að ræða og menn gengið á bak orða sinna og það eigi í öllu falli ekki við um nefndina í heild — það verður þá að vitna til samkomulags sem formaður hefur gert og ég kannast ekki við að hafi verið borið undir nefndina. Því geri ég þetta líka að umfjöllunarefni að mér er það nokkurt undrunarefni að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir skuli hér aftur og aftur í umræðu um fjárlög steyta á því að finna að þeim fjárveitingum sem veitt er til smáverkefna víðs vegar úti um landsbyggðina. Þar er fjárlaganefnd að sinna skyldu sinni af mikilli kostgæfni og samviskusemi og ég er ekki sammála því sjónarmiði að hver króna sem gengur út úr ríkissjóði verði að gera það í gegnum formlegar stofnanir Reykjavíkur, að Reykjavíkurvaldið þurfi að sýsla með hverja einustu krónu áður en hún fer úr ríkissjóði til þeirra sem eiga að njóta.

Ég skil vel hugmyndafræðilegan ágreining minn og hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um það hvort veita eigi þetta til einkafyrirtækja þar sem hún hefur aðhyllst, ef ég hef skilið hugmyndafræði hennar rétt, nokkuð sósíalískar kenningar.

Engu að síður hefur flokkur hennar staðið mjög ötullega fyrir sjónarmiðum landsbyggðarinnar og því harma ég þessi sjónarmið. Ég tel að þeirra sjónarmiða gæti því miður allt of oft meðal þeirra stofnana sem starfa á Reykjavíkursvæðinu og hafa ekki fullan skilning á þeim verkefnum sem unnin eru úti á landsbyggðinni og því sé full þörf á því að beinn atbeini hinna pólitískt kjörnu fulltrúa komi til.

Það er engan veginn hægt að finna að því að hinir pólitískt kjörnu fulltrúar taki sér vald til að útdeila þessum peningum meðan þeir gera það af vandvirkni. Þeir hafa fulltingi fólksins. (Forseti hringir.) Þeir hafa atkvæði í það en ekki embættismennirnir.